SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 1. apríl 2023

ÞÓRA FRÁ HVAMMI LIFNAR Á NÝ

Ragnheiður Jónsdóttir. Þóra - Baráttusaga, Salka 2000, 259 bls.

 

Bókaforlagið Salka hefur ráðist í endurútgáfu á skáldsagnabálki Ragnheiðar Jónsdóttur um Þóru frá Hvammi, sem kom upphaflega út í fjórum bindum á árunum 1954-1964. Hér er um að ræða tvö fyrstu bindin, Ég á gull að gjalda og Aðgát skal höfð, í einni bók sem hefur fengið titilinn: Þóra - baráttusaga, og ætlunin mun vera að síðari bindin tvö komi út að ári. Það er mikið fagnaðarefni að þessar bækur skuli nú aftur vera fáanlegar því þetta er verk sem hlýtur að teljast mikilvægt í íslenskri bókmenntasögu, ekki síst þar sem um er að ræða eina metnaðarfyllstu þroskasögu konu sem skrifuð hefur verið á Íslandi.

Í hugtakinu „þroskasaga" felst að fylgst er með einstaklingi allt frá barnsaldri fram á fullorðinsár, lýst leið hans til þroska í gegnum menntun, vinnu og aðra þá áfanga sem marka lífsferil hvers manns. Ein stærsta þroskasaga íslenskra bókmennta er Fjallkirkja Gunnars Gunnarssonar, saga Ugga allt frá bernsku hans og þar til hann gerist rithöfundur í Danmörku. Saga Þóru frá Hvammi er að mörgu leyti sambærileg við Fjallkirkjuna; hér er fylgst með íslenskri stúlku allt frá því hún slítur barnsskónum í sveitinni, heyr harða baráttu fyrir því að fá að menntast, flytur til Reykjavíkur og fer í menntaskóla og háskóla, eignast bam, giftist, sinnir kennslu og húsmóðurstörfum - og ritstörfum, enda er undirtitill allra bókanna Úr minnisblöðum Þóru frá Hvammi sem bendir á að sagan á að vera skrifuð af henni sjálfri.

Saga Þóru spannar 33 ár - árin 1927-1960 - og nær því yfir mikla umbrotatíma í íslensku samfélagi. Fyrsta bindið, Ég á gull að gjalda, hefst þegar Þóra er fimm ára gömul. Foreldrar hennar eru efnalitlir bændur og lífið einkennist af stöðugri vinnu bama sem fullorðinna og Þóra litla líður fyrir það að vera ekki myndarleg og „búkonuleg“ eins og Dísa eldri systir hennar og hún á í stöðugu stríði við kvenhlutverkið sem móðir hennar reynir af mætti að laga hana að. Sjálf heillast Þóra af heimi bókmennta sem er um leið heimur karlmanna í sögunni, hún þráir að ganga menntaveginn en ekki eru miklar líkur á að það geti orðið hennar hlutskipti. Aðaltogstreita þessa fyrsta bindis er á milli þessa tveggja andstæðu heima en í lok bindisins hefur Þóra þó sigur; hún á að fá að fara í menntaskóla til Reykjavíkur, en þessi sigur hennar hefur þó kostað stóra fórn - elsti bróðir hennar veikist og deyr og þess vegna opnast Þóra leiðin til mennta þar sem foreldrarnir hefðu ekki getað kostað bæði systkinin til náms.

Annað bindið, Aðgát skal höfð, gerist í Reykjavík á krepputímanum og á hernámsáranum. Þóra er bláfátækur námsmaður en stundar námið af mikilli samviskusemi og framfleytir sér á því að þrífa og þvo þvotta hjá efnameira fólki. Tveir karlmenn eru í lífi Þóra frá Hvammi, Árni og Geiri, sem í mörgu tilliti má líkja við þá Arnald og Steinþór í bók Halldórs Laxness Sölku Völku. Þóra verður barnshafandi af völdum Geira og undir lok þessa bindis fæðir hún dótturina Lóu og er orðin einstæð móðir. Hernáminu fylgir efnahagsleg uppsveifla í íslensku þjóðfélagi og Þóra hefur komið á fót þvottahúsi sem framfleytir henni og dóttur hennar.

Saga Þóru verður ekki rakin meira hér, enda tvö síðari bindin ekki hluti af þessari endurútgáfu. Dagný Kristjánsdóttir varði fyrir nokkram árum doktorsritgerð sína um verk Ragnheiðar Jónsdóttur þar sem meðal annars er fjallað ítarlega um Þórabækurnar. Dagný sýnir í bók sinni Kona verður til hvernig lesa má Þórubækurnar sem dæmisögu um það hvernig kona verður til, þ.e.a.s. hvernig uppeldi og samfélag skapar konum ákveðin örlög og körlum önnur. Dagný skrifar greinargóðan formála að þessari endurútgáfu á tveimur fyrri bindum sagnabálksins. Ragnheiður Jónsdóttir var meðal mest lesnu höfunda á Íslandi á fimmta og sjötta áratugnum. Barnabækur hennar nutu mikilla vinsælda, en einnig skrifaði hún fjölda bóka fyrir fullorðna. Verk Ragnheiðar hafa að ósekju fallið í gleymsku á síðari hluta tuttugustu aldarinnar, en hafa þó verið endurmetin í bókmenntasögulegu tilliti á síðustu árum líkt og verk fjölmargra annarra kvenrithöfunda. Ragnheiður er í hópi afkastamestu kvenhöfunda okkar og framlag hennar til bókmenntanna bæði mikið og merkilegt. Bókaforlagið Salka á miklar þakkir fyrir að leyfa Þóru frá Hvammi að lifna á ný í bókarformi og vonandi taka íslenskir lesendur bókinni fagnandi.

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 6. desember 2000