SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir29. mars 2019

HÉR ANDAR SKÖPUN. Undrarýmið

Sigurlín Bjarney Gísladóttir. Undrarýmið. Reykjavík: Forlagið

Í upphafi nýrrar ljóðabókar Sigurlínar Bjarneyjar Gísladóttur býður hún lesandanum í ferðalag inn í undrarými þar sem „er hátt til lofts“. Ferðalagið liggur um veröld huglægrar og hlutlægrar sköpunar og það eru undur sköpunarverksins sem eru skáldinu innblástur. Sigurlín Bjarneyju tekst vel að miðla fögnuðnum sem gagntekur hana gagnvart þeim undrum. Ljóð hennar kallast á við myndir „úr aldagömlum ritum um náttúrufræði og læknisfræði,“ eins og segir á baksíðu kápu bókarinnar sem hönnuð er af Höllu Siggu og er undurfalleg. Myndirnar spila stórt hlutverk í heildarhugmynd bókarinnar og þær eru svo sannarlega hver annarri áhugaverðari og ber ekki að undra að þær verði skáldinu kveikja hugrenninga til umbreytinga í ljóðmál.

Í öðru ljóði bókarinnar yrkir Sigurlín um umbreytinguna, um það hvernig froskar „stökkva fullmótaðir úr leðju“ og skordýr vaxa „úr leðju/mold/rotnandi kjöti,“ hvernig líf kviknar af „óreiðu og glundroða“. Þetta er undraheimur möguleika og sköpunargleði skáldsins fer ekki framhjá lesandanum. Í þriðja ljóði leggur ljóðmælandi „hönd á hún“ og finnur að „hann er heitur“ og getur opnað gátt sem ljóðmælandi vill „stíga, svífa, yfir“:

 

 

hjartsláttur þyngist
stöðugt
húnninn bólgnar upp
suðar í eyrum
ég fálma eftir
þessu þrútna hjarta
tek þéttingsfast
sný
opna
undraverð opnun
stíg inn

 

„Vertu svampur“ segir í fjórða ljóði, „drekktu höfðinu í hugmyndum / dagdraumum og lykt af rakri mold“ – og áfram:

 

Sjúgðu áhrifin
inn um augu nef munn húð
höfuð
opnaðu augu nef munn húð höfuð
og sendu áhrifin út í heim

 

Ég hef rakið þráðinn í gegnum fyrstu fjögur ljóð bókarinnar til að sýna fram á þá heildstæðu hugsun sem Undrarýmið byggir á, hvernig skáldið opinberar í þessum fyrstu ljóðum hvernig sköpunargleðin nærist á þeim undrum sem veröldin býr yfir, hvernig sá sem er opinn fyrir möguleikunum, sem er tilbúinn til að vera „útsæði í rakri mold,“ getur blómstrað.

Ljóðið „Í djúpinu kraumandi ólga“ er gott dæmi um hvernig skáldið vinnur með tengsl myndar og ljóðs. Myndin sýnir læknisskoðun á tímum blygðunarsemi þar sem karlmaður fer höndum um sköp konu undir kjólnum. Aðstæðunum lýst á skemmtilegan hátt um leið og skáldið tengir kvensköp við sköpun og líf:

 

Horfumst ekki í augu
umfram allt horfumst ekki í augu

Ég skal mæna í suður og þú í norður,
ég í vestur og þú austur,
þú á gólfið og ég á vegginn hinum megin

Horfum á hvítan vegg og finnum snertinguna
þú með höndum ég með klofi og svo
ég með höndum og þú með klofi

Skapabarmarnir eru á sínum stað
á barmi sköpunar þarf lífið að ná andanum
í gegnum leghálsinn
hér andar lífi
hér andar sköpun
hér er lykt af holdi
röku, þrútnu, ólgandi

Höldum ró okkar
mænum í fjarskann sem býr
á hvítum vegg

 

Í öðru ljóði sem ber yfirskriftina „Gárur í sveigðu rúmi“ lýsir ljóðmælandi hvernig hversdagsleg ganga eftir Tjarnargötu í sól getur reynst efniviður í ljóð sé vegfarandinn opinn fyrir umhverfi sínu og næmur fyrir möguleikunum. Ljóðið hefst á eftirfarandi línum:

 

Skurðpunktur sköpunar:
togstreita
spenna og núningur

 

Eftir lýsingu á aðstæðum sem vekja fögnuð skáldsins, stækkar heiminn og kveikja ljóðið lýkur því með orðinu „endurfæðingaspenna“ og kannski má segja að það sé slík spenna (og núningur) sem öll þrjátíu ljóð bókarinnar lýsa.

 

Undrarými Sigurlínar Bjarneyjar er óvenju falleg ljóðabók, bæði að ytra byrði og efniviði. Bókin er líka óvenju vel hugsuð og hana má lesa aftur og aftur, spá í myndir og texta og uppgötva nýjar og nýjar víddir. Það má með sanni segja að í Undrarýminu „andi sköpun“.