SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir27. apríl 2023

ER LÍF Á MARS?

Meðal höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref er Sunneva Kristín Sigurðardóttir sem sendi í fyrra frá sér ljóðabókina Mars

Í ljóðunum í bókinni vísar Sunneva í gamla tíma, t.d. hefst bókin á tilvitnun í II. bindi Ferðabók Eggerts og Bjarna frá miðri 18. öld, óþrjótandi uppsprettu fróðleiks og frasa. Ljóðmælandi fer í grasaferðir, blómum og bréfum er stungið inn í bækur til varðveislu og amma spilar a orgelið.  Ljóðin er kölluð sýni og birtast í ruglaðri talnaröð - tilviljanakennd sýni sem fræðingur rekst á og safnar og les úr, líkt og þeir félagar Eggert og Bjarni gerðu á ferðum sínum um landið forðum.

Í viðtali í Mbl 23. desember 2022 setur Sunneva Kristí fram kenningu um að  þjóðfræðinám í Háskólanum hafi haft þessi áhrif á hana: „og þá að grúska í gömlum textum, gömlum lækningaritum, náttúrulýsingum og þjóðsögum. Upp úr því fór ég að vinna mig inn í persónulegan táknheim og þannig varð ljóðskáldið kannski til.“

Innan um fortíðarmyndir birtist Mars, rauður og vatnslaus í hillingum, munum við nema þar framtíðarland þar sem veröld nútímans er á fallanda fæti?

 

nú er komið að þessu

segja börnin

og rétta ykkur töskurnar

 

snúa ykkur í hálfhring

 

allir verða einhvern tímann 

að fara til Mars

(46)

Eða er mars mánuður, þegar tré eru talin (62)? Ljóðin eru knöpp og láta lítið uppi. En einhvers konar ferðasaga er sögð með formála og eftirmála;  samband barns og ömmu, framtíðar og fortíðar, náttúru og manneskju, lausofinn þráður og dularfullar tengingar birtast: skógarrjóður og seytlandi tími, þurrkuð blóm og fjaðrir, hross og drekar og hverfulleiki tímans. Sannarlega áhugaverður ljóðheimur, í senn hlýr og ógnvekjandi.

Blekfjelagið gefur bókina út, nemendafélag ritlistarnema í Háskóla Íslands.