SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir29. maí 2023

RAUÐIR FISKAR, KAKKALAKKAR, SVEPPIR OG ÝMSAR MANNSKEPNUR

Nettel, Guadahupe. Hjónaband rauðu fiskanna. (Kristín Guðrún Jónsdóttir þýddi). Háskólaútgáfan. 2022, 125 bls.

Hjónaband rauðu fiskanna heitir á frummálinu El matrimonio de los peces rojas og er eftir Guadalupe Nettel. Þetta er smásagnasafn sem Guadalupe sendi frá sér árið 2013 en kom nýlega út í stórgóðri íslenskri þýðingu Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur sem einnig ritar eftirmála.

Guadalupe Nettel fæddist árið 1973 í Mexíkó. Árið 1980 skildu foreldrar hennar og hún flutti með móður sinni til Frakklands þar sem hún bjó í mörg ár. Guadalupe er langskólagengin; hún sérhæfði sig í spænskum og rómansk-amerískum bókmenntum og skrifaði doktorsritgerð um Nóbelsskáldið Octavio Paz. Samfara skrifum hefur Nettel starfað sem ritstjóri virts tímarits frá árinu 2017.

Nettel sendi frá sér sína fyrstu bók aðeins tvítug að aldri, árið 1993. Það var smásagnasafn og annað safn smásagna kom út áratug síðar. Síðan sendi Nettel frá sér skáldsögu árið 2006 og var þá útnefnd sem ein af athyglisverðustu rithöfundum sinnar kynslóðar í Rómönsku-Ameríku. Um þær mundir rataði nafn hennar á lista yfir 39 markverðustu höfunda álfunnar undir fertugu. Þegar Hjónaband rauðu fiskanna kemur út árið 2013 er Nettel því orðinn mjög þroskaður höfundur og það leynir sér ekki.

Verk Nettels eru gjarna sögð endurspegla áhuga hennar á hinu sérkennilega, því sem þykir afbrigðilegt í útliti eða fari fólks, en sjálf er hún með ský á öðru auganu og varð að ganga með lepp sem barn. Þetta útlit gerði að verkum að Nettel fannst hún utanveltu á uppvaxtarárum sínum. Annað efni sem hefur verið henni mjög hugleikið eru samskipti mannskepna við aðrar dýrategundir og er það þema ríkt í sögum þeim sem hér eru til umfjöllunar.

Hjónaband rauðu fiskanna geymir fimm smásögur á tæplega hundrað blaðsíðum. Fyrsta sagan er samnefnd titli bókar, næsta kallast „Stríð á ruslahaug“, þriðja „Kattlín“, fjórða „Sveppir“ og loks „Slangan frá Peking“. Allar eiga sögurnar það sammerkt að fjalla um tengsl dýra og manna sem „geta verið jafn flókin og þau sem sameina okkur mannfólkið“ líkt og segir í sögunni „Kattlín“ (bls. 57) Dýralífið er ýmist hliðstætt lífi mannanna, endurspeglar það með einhverjum hætti eða jafnvel rennur saman við það.

Sögurnar eru haganlega gerðar og vekja mjög til umhugsunar. T.d. er hún frumleg nálgunin í sögunni „Stríð á ruslahaug“ en þar koma kakkalakkar við sögu. Þeir eru sýndir í öðru ljósi, og mun samúðarfyllra, en fólk á að venjast. Bent er á að þeir séu „fyrstu íbúar jarðarinnar [...] formæður okkar og afkomendur“ og hún er skýr hliðstæðan í umkomuleysinu hjá bæði dreng og dýri í sögulok. Þetta er býsna vel gert.

Sagan „Sveppir“ gengur hvað lengst í að lýsa einhvers konar endurspeglun og samruna tegunda í senn. Lífveran sem á í hlut er sveppur sem leggst á kynfærasvæðið og má segja að sé táknrænn fyrir óendurgoldna ást. Manneskjan og sveppurinn verða sem eitt, sníkjudýr, sem sameinast í þrá sinni eftir fullnægju sem þau fá aldrei nóg af, eins og segir á einum stað í sögunni: „... við sníkjudýrin erum að eðlisfari ófullnægðar verur:“ (bls. 90)

Nettel tekst vel í sögum sínum að vekja samúð með hinum ýmsu lífverum, ef frá er talinn sveppurinn, þrátt fyrir að þær séu með fleiri en fjórar lappir eða kalt blóð, og það má kallast afrek. Það er alveg óhætt að mæla með þessum áhrifaríku sögum.

 

Myndin af Nettel er fengin af vefsíðunni Wikimedia Commons