SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir31. maí 2023

RAFLOST Í BOÐI – Um Stórar stelpur frá raflost eftir Gunnhildi Unu Jónsdóttur

Gunnhildur Una Jónsdóttir. Stórar stelpur frá raflost - heim úr svartholi óminnis. Veröld. 2019, 156 bls.

Stórar stelpur frá raflost kom út fyrir skemmstu í afar áheyrilegum upplestri Þórunnar Lárusdóttur á Storytel. Sagan geymir frásögn Gunnhildar Unu af erfiðum eftirköstum eftir raflostmeðferð sem hún gekkst undir til að ráða bót á alvarlegu þunglyndi.

Gunnhildur Una er fædd árið 1972. Hún lagði stund á listnám og var í doktorsnámi í myndlist og menntunarfræðum þegar hún veikist svo illa af þunglyndi að hún lét reyna á raflostmeðferð. Á þeim tíma var hún einstæð, þriggja barna móðir svo að álagið var talsvert. Meðferðin lyfti geðinu, um hríð, en henni fylgdi minnisleysi sem gerði að verkum að Gunnhildur Una gleymdi einföldustu hlutum, líkt og hvernig haga skyldi innkaupum. Hún þurfti að styðjast mjög við minni annarra sem gerði hana bæði kvíðna og tortryggna.

Gunnhildi Unu hafði alltaf langað til að verða rithöfundur og var sískrifandi sem barn. Skrifin liggja einnig vel fyrir henni og fékk hún fína dóma þegar þessi frumraun hennar kom út árið 2019. Sömuleiðis eru viðtökur góðar nú þegar sagan hefur verið gerð aðgengileg í notalegum upplestri Þórunnar Lárusdóttur á Storytel.

Í viðtali á Vísi.is kemur fram að eftir að bókin kom út hóf Gunnhildur Una nám í fötlunarfræði því hún vildi nýta reynslu sína af því að vera með geðsjúkdóm. Í þessu námi komst hún að raun um að raflostmeðferðum fari fjölgandi og að mun fleiri konur en karlar fari í slíkar meðferðir, bæði hér heima og erlendis. Hún taldi ástæðuna ekki vera að þunglyndi sé algengara meðal kvenna heldur að þær geri hvað sem er vegna þess að þær eru mæður. Þær séu því í veikari stöðu en karlarnir.

Titill bókar er vísun í þekkt lag eftir Bubba Morthens, „Stórir strákar fá raflost“, sem hafði mikil áhrif á Gunnhildi Unu þegar hún var krakki en ekki óraði hana fyrir því að hún myndi sjálf gangast undir slíka meðferð. Í kjölfar meðferðar fer tilveran á hvolf og Gunnhildur þarf að raða brotakenndum veruleikanum aftur saman líkt og hún segir í eftirmála bókar: „Minnisleysið skapar nýjan veruleika, settan saman úr glefsum og brotum.“ (bls. 153)

Saga Gunnhildar Unu er ekki löng og hún lætur lítið yfir sér en hún veitir afar einlæga og áhrifaríka innsýn í heim manneskju með geðrænan vanda. Allar slíkar frásagnir eru afar mikilvægar, til að auka skilning fólks á geðsjúkdómum og stemma stigu gegn fordómum sem jafnan virðist vera grunnt á.