SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir30. júní 2023

MIA WALLACE, FROÐUFELLANDI NAUT OG GRÆNN SMOOTHIE

Sigríður Soffía Níelsdóttir. Til hamingju með að vera mannleg. JPV útgáfa. 2023, 108 bls.

 

Ljóðabókin Til hamingju með að vera mannleg eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur kom út 1. apríl og í kjölfarið rataði dansverk, byggt á textum hennar, á fjalir Þjóðleikhússins. Verkið þótti vel lukkað og var tilnefnt til þriggja Grímuverðlauna og sömuleiðis hefur bókin fengið góðar viðtökur.

Sigríður Soffía er með BA gráðu í samtímadansi frá Listaháskóla Íslands og hún lauk MBA gráðu frá HR árið 2020. Hún hefur smíðað ýmis dansverk en er einna þekktust fyrir flugeldaverk sín sem bæði hafa verið sýnd hér á landi og erlendis. Til hamingju með að vera mannleg er hennar fyrsta bók og fjallar hún um krabbameinsmeðferð sem Sigríður Soffía gekk í gegnum á meðan covid herjaði á landann.

Ljóðabókin er stútfull af ljóðum á 108 blaðsíðum en geymir ekkert efnisyfirlit. Ljóðin eru flest ein til tvær blaðsíður og uppsetning þeirra næsta hefðbundin ef frá eru talin fáein styttri ljóð sem eru ýmist á hvolfi eða á hlið. Þá geymir eitt ljóðanna skýringarmynd af hringferð æfingaprógramms og titill er settur upp eins og stærðfræðiformúla. Þetta eru skemmtileg uppbrot á bókinni. Titill bókar er sóttur í orð ónafngreinds læknis á krabbameinsdeild sem er vísað til á upphafssíðum bókar: „Það eru ekki læknar eða spítalar sem þú hræðist. Það er óvissan sem hræðir þig og það er mannlegt að óttast hið ókunna. Svo til hamingju með að vera mannleg.“ (bls. 7)

Ljóð Sigríðar Soffíu eru afar einlæg og mörg hver áhrifamikil. Það er þó jafnan stutt í kímnina og mörg ljóðanna geyma frjótt myndmál og skemmtilegar tengingar, líkt og sjá má í eftirfarandi ljóði sem dregur upp býsna hugkvæma og óvænta mynd, einkum fyrir þá lesendur sem þekkja bíómyndina:

 

Mia Wallace
 
Mánudagsmorgunn í Skógarhlíðinni
Sjónarhornið eins og þegar
John Travolta stakk Miu Wallace
í hjartað í Pulp Fiction
 
slaka á
vera hreyfingarlaus
læknirinn heggur í brjóstið á mér
svo heyrist smellur í hefti
bara 50 metrar í að ég geti grenjað í bílnum
 
Mia Wallace greip andann á lofti
þegar hún var stungin í brjóstkassann
 
ég dró líka að mér andann
og hélt honum niðri í 32 daga
 
(bls. 9)  
 

 

Sigríður Soffía leiðir okkur í gegnum krabbameinsmeðferðina og er það þannig úr garði gert að auðvelt er að finna til með henni og þeim sem að henni standa. Við fylgjum henni eftir allan tilfinningaskalann; hún er „hafið“, „stormur“, „þoka“, „þrumuveður“, „breytileg átt“ (bls. 23) og jafnvel „froðufellandi naut í sláturbílnum“ (bls. 35).

Ljóðið „Undir“ lýsir því vel hvaða áhrif lyfin hafa á Sigríði Soffíu. Í heila viku líður henni líkt og hún liggi í gruggugum og köldum sjó; henni liggur við drukknun, hún er örmagna og veit varla af sér en á áttunda degi hjarnar hún við og á nokkra góða daga. Á 13. degi er sælan frá og kvíðinn tekur við: „Dagur 13 / guð minn góður á ég að gera þetta aftur …“ Á degi 14 hefst allt saman að nýju (bls. 36-37).

Sigríður Soffía á góða að sem styðja hana en hún á líka tvö ung börn sem hún getur illa sinnt en reynir að hlífa við veikindum sínum:

 

Að segja satt
 
Þegar mamma sagði að hún vildi vera rokkstúlka
og þú fékkst að klippa hárið af
þá var það ekki satt
mamma sagði vildi í stað verður
 
þegar pabbi snoðaði mömmu
fannst mömmu það ekki auðvelt
 
þegar mamma var í jólapakkastússi
á sunnudaginn
var hún á bráðmóttökunni
 
þegar þú talar um svefnpurrkulyfið
finnst mömmu það bæði sætt og sorglegt
 
þegar mamma var að hitta vinkonu í jólagleði
var hún í einangrunarherbergi nr. 11
að fá taugaáfall
og tvo lítra af vökva í æð
 
þegar mamma keyrði rosa hratt heim
var það ekki af spenningi yfir nýja Blæju-þættinum
það voru krónísku blóðnasirnar
bæði lófinn og munnurinn á mömmu
voru full af blóði og
mamma vildi ekki að þið yrðuð hrædd
 
þú sást samt mömmu hrækja blóði í innkeyrslunni
við þurfum að tala um það einhvern tímann
 
þegar mamma segir pabba að hún sé að fara í sturtu
þá er mamma oft að gráta í sturtunni
 
þegar mamma málar sig og setur á sig maskara
þá er það fyrir ykkur
til að þið sjáið ekki hvað mamma er veik
 
mamma ykkar elskar svo heitt að hún lýgur
og lýgur
og lýgur
 
(bls. 47-48)
 

Sigríður Soffía reynir að vera börnum sínum stoð en meðferðin tekur úr henni allan þrótt; hún er „gangandi skuggi“ (bls. 56) Líf hennar er á hvolfi og er því uppsetningin á stuttu ljóði án titils á bls. 62 mjög við hæfi:

Lífsgleðin er horfin og dauðinn sínálægur, „hann andar ofan í hálsmálið á mér“ (bls. 72) Það er því mikill léttir þegar lyfjagjöfunum lýkur en krabbameinsmeðferðinni er þó ekki lokið. Sigríður Soffía þarf að fara í skurðaðgerð og þá þarf hún að leggja allt sitt traust á lækninn:

 

Grænn smoothie
 
Díllinn er þessi:
ég legg líkama minn
(og framtíð barnanna minna)
í hendur konu sem lærði á Karolinska
og vona af öllu hjarta
að hún sé vel sofin og stemmd
 
að hún hafi ekki rifist við manninn sinn
eða mömmu
eða átt erfiðan dag
 
ég vona að hún hafi fengið sér
grænan smoothie í morgun
og náð að fara í ræktina
Að hún sé með skarpan fókus
 
og valdi sem minnstum skaða
þegar hún rótar með skurðhnífi
í vöðvum líkamans sem ég hef gætt í 35 ár
 
(bls. 90)

 

Þegar meðferð er lokið situr áfallið eftir. Sigríður Soffía lýsir því hvernig hún tekst á við það með hugleiðslu og hjálp ástvina. Henni tekst að tengjast sjálfri sér aftur og stendur að lokum uppi sem sigurvegari. Til að kóróna sigurinn býður forsetinn á Bessastöðun henni í pönnukökur (bls. 105) en þar voru Sigríði Soffíu veitt Íslensku bjartsýnisverðlaunin. Bókinni lýkur síðan með sátt Sigríðar Soffíu „með að vera mannleg“ (107).

Hér má sjá upptöku frá afhendingu Íslensku bjartsýnisverðlaunanna en þar les Sigríður Soffía þrjú ljóð úr bókinni.

 

Myndirnar af Sigríði Soffíu eru fengnar af vefsíðu Þjóðleikhússins