SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir20. september 2023

ER NÁTTÚRAN MÍN EÐA ÞÍN?

Til minnis

eftir Áslaugu Jónsdóttur. 

Útfiri
 
geng útfiri
kasta spurnum
í bleikar tjarnir
veiði
undursamlegar þagnir
 
djúp í köldum firði
hvíla voröldur
bíður vonarklak
 
við ísklepra
á klöppum
er þagnað
allt fuglakvak
 
tel sjávarorpin
steinegg
í yfirgefnum
hreiðrum
 
legg við hlustir
nem nið af brimi
fyssandi fjarska
 
svo fellur að

 

Svona byrjar fyrsta ljóðið í ljóðabók Áslaugar Jónsdóttur. Við fylgjum henni niður að fjöruborði og sjáum hana fyrir okkur, kannski klædda í þykkan galla og vindinn að bæra á henni hárið. Hvað er hún annars að hugsa? Þarna langt í burtu úti á firðinum bíður vorið þar til vetur hefur lokið sér af og fuglarnir eru ennþá ókomnir eða hvað? Óræð þögn umlykur hana og um leið er einhver sorg. Hvað varð um fuglana því yfirgáfu þeir hreiðrin sín? Tel sjárvarorpin/steinegg/í yfirgefnum/hreiðrum. Svo fellur að. Kannski er hún stödd á leiksýningu og tjaldið fellur niður um leið og það fellur að, hver veit. Við hefjum svo ferðalag inn í ljóðin og forvitnin er vakin. Endalaust fagrar hendingar og litlar myndir af náttúrunni ..brosir hvítum fjallstindum/allan hringinn/deplar bláum vogum/andar varla á strá bls. 8. Í nepjunni/rennur táramóða/suðvestur/fyrir hornauga bls. 9.

 

Undur
 
hvísla
þori ekki annað:
 
undur ertu
litla skel
 
að vera ekki orðin að mylsnu
svona örþunn
og brothætt
með blá augu
og brostna von
um lífið
sem í þér var

 

Við lesturinn staldrar ég við og hugsa um höfundinn og finn fyrir virðingunni sem hún ber til náttúrunnar. Sé fyrir mér steinvölurnar sem hafa harpast í fjörunni í þúsund ár. Steinvala skondrar/niður þúsaldir/stöðvast við brotna skel. Sé líka fyrir mér brimið óvægið  og óheflað og mölbrotnar völur muldar niður hægt og bítandi úr sjávarkambinum. Veröld í molum/skolar á haf út. Man líka eftir því að ferðamenn hrifust af steinvölunum og höfðu með sér á brott. Svona eins og þeir vildu taka með sér eina minningu í vasann. Eftir standa samt spurningar, er náttúran okkar, setjum við hana bara í vasann og höldum af stað?

Áhugaverð ljóðabók um náttúruna, takk fyrir Áslaug.

Skáld.is (skald.is)