HVERS-LENDINGAR VERÐUM VIÐ ÞÁ? Dimmumót
Steinunn Sigurðardóttir. Dimmumót. Reykjavík: Mál og menning
ó, hve hann hefir eftir þráð að líta
ástarland sitt með tignarfaldinn hvíta.
Þessar ljóðlínur Jónasar Hallgrímssonar standa sem einkunnarorð fremst í ljóðabók Steinunnar Sigurðardóttur, Dimmumót. Lesandinn skynjar strax sterkan tregann í þessum hendingum skáldsins sem hefur dvalið langt frá ástarlandi sínu, sem og gleðina sem fyllir brjóstið þegar það lítur tignarfaldinn hvíta, jökullinn – landsins mestu prýði. Treginn er líka það grunnstef sem sterkast hljómar í nýju ljóðabók Steinunnar, sem og kvíðinn fyrir því sem virðist óhjákvæmilegt; bráðnun jökulsins vegna hamfarahlýnunar af manna völdum. Dimmumótum mætti því lýsa sem tregaljóði – elegíu – enda lýtur verkið mörgum helstu einkennum þeirrar bókmenntagreinar þótt „bragarhátturinn“ sé nútímalegur og framar öðru Steinunnar-legur, eins og sjá má á upphafslínum fyrsta ljóðsins: „Það líður hjá Það gengur yfir // Rigningarskúrin Barndómur Fyrri og síðari / Óendanlegir dómar Líka Þeir Líða hjá“, og síðar í sama ljóði: „og það sem ótrúlegast er, Eilífðarfjallið mitt ljósa, líður líka hjá“.
Það er áreiðanlega engin tilviljun að í upphafi sé vísað til Jónasar sem fyrstur manna kynnti elegískan hátt á Íslandi; óskaskáldið góða er hér líkt og í hlutverki „músunnar“ sem gjarnan er ávörpuð í upphafi tregaljóðanna, sem eiga upphaf sitt í grískri hefð. Jónas er „skáldskapargyðjan“ sem blæs Steinunni andagift í brjóst. Í Dimmumótum talar skáld sem veltir fyrir sér lífinu, dauðanum og óblíðum örlögunum og harmar missinn sinn – og okkar allra. En ólíkt hefðbundnum tregaljóðum býður skáld Dimmumóta enga huggun í lokin. Þvert á móti þróast harmatölur skáldsins yfir í reiði yfir því að orsaka harmsins er að leita hjá mönnum sem með græðgi sinni og andvaraleysi hafa valdið þeirri hamfarahlýnun sem mun að endingu kosta „bláljósa hvelið“ lífið.
Eins og kunnugt er yrkir Steinunn Sigurðardóttir um Vatnajökul í Dimmumótum, um fortíð jökulsins, nútíð hans og ógnvænlega framtíð eyðingarinnar. En saman við það yrkisefni vefur hún sjálfsævisögum þáttum, því jökullinn er samofinn ævi hennar og minningum allt frá bernsku.
Ljóðabókin skiptist í sjö hluta sem hver um sig ber lýsandi yfirskrift; ÞAÐ KEMUR Í LJÓS, ÍSFJALLIÐ RAMBAR; RADDIR ÚR VATNA-JÖKLA-SVEITUM; AÐ VATNI VERÐUR; JÖKLABÖRN; FLÆÐISKER; ÞAÐ HVERFUR. Í fyrsta hluta bókarinnar, ÞAÐ KEMUR Í LJÓS, hittir lesandinn fyrir „stelpuna“ sem á örugga æsku og glaða, ekki síst í „pabbasveit með jökli“ þar sem hún gengur „dagdraumaleiðina“ með kýrnar“ og yfir sveitinni ríkir „Hvítagullfjallið ofar öllu“. Stelpan lærir smám saman á umhverfi sitt Sem kemur smám saman í ljós, landslagið og „Jökullinn yfir og allt um. Splunkuný sjónarsýn.“:
Í ljós komu kýrnar sem stelpan í mosanum passaði. Étandi fáheyrða appelsínu. Undir fossandi sól, frameftir dalnum með Gráhól.
Það hélt áfram að koma í ljós, það allt, land-landslagið, beina leið
frameftir haustinu líka. Marglit birkilauf ríslandi, eldskært lyngið.
Blómstrandi ábreiða septemberjarðar.
Með lækkandi sól í suðri, Norðurljósi uppi í norðri.
Með þeim hnitmiðaða og kankvísa stíl sem Steinunni er eiginlegur yrkir hún um áfanga á þroskaferli stelpunnar; hún lærir að synda og dansa, fer út í lönd að læra og eignast „sitt eigið barn“ og „löngu löngu fædd ljóðin héldu áfram að margfaldast“: „Þá var hún loks hafin, Ævin, loksins, sú sem beðið var eftir // á draumkenndu dögunum. // Ekki komin reynsla á hana strax. // En það var komin reynsla á Jökulinn / í sinni sveit fyrir suðaustan. // Og hann var þarna allur saman, / þegar alvöruævin upphófst, og tók á rás.“
En strax í þessum fyrsta hluta birtast váboðar, því það gleymdist að jökullinn „er úr vatni gerður // að hann leysist upp í það // og flæðir yfir veg allrar veraldar“. Við við berum sökina; erum „Misindismenn. / Við óvitar // sem köllum okkur þó homo sapiens“:
Við vitiborin skiljum þá hamfarahlýnun á jörðinni
en við látum ósköpin yfir ganga
börnin og barnabörnin. Krúttin á facebook.
Hvað verður um þeirra krútt og þeirra krúttkrútt?
Í næstu hlutum bókarinnar þyngist tóninn smám saman. Í öðrum hluta er ort um Ísfjallið sem rambar á brún eyðingar, „aftur á bak // inn í alsherjarholuna, svartholið, móðurkvið. // Öfuga fæðing, almesti dauði allra dauða.“ Mögnuð er lýsingin á Jökulsárlóni (með lúmskum vísunum í ljóð Jóhanns Sigurjónssonar um Jónas Hallgrímsson):
Um leið og jökulbeljan fæðir ískálfinn, ýtir úr móðurkviði, þá
deyr hún að hluta. Og afkvæmin sprikla stutta stund.
Sum þeirra komast úr sandkassa lónsins, út á fullorðinshafið,
opna sjóinn, á lífdögum sínum, stuttum en fögrum.
Óskabörn eyðingar.
Stutta, flögrandi ísfiðrildislíf.
Eins og til að létta örlítið andrúmsloftið, yrkir Steinunn í þessum hluta einnig um ferð sjö kvenna „í sjödagaferð“ á jökul þar sem þær fella „stórkarlavígi“; kastala gerðan úr hvítum rósum. Aftur fréttir lesandinn af þeirri ævintýraferð í þriðja hlutanum, RÖDDUM ÚR VATNAJÖKLASVEIT, þar sem fólki sem býr í nágrenni jökulsins er gefið orðið og viðrar ólík sjónarmið, allt frá væntumþykju og virðingu, til ótta og skeytingarleysis; sumir skynja fegurðina, aðrir ekki – eins og gengur og gerist.
Fjórði hluti, AÐ VATNI VERÐUR, hefur meðal annars að geyma ljóðið „Hverslendingar?“ þar sem skáldið spyr: „Hvað tekur svo við? Hver verðum við? Nefnd hvaða nafni? // Hvers-lendingar verðum við þá Íslendingar svokallaðir / þegar jökullinn fer? // ÍS-lendingar ekki.“
Í fimmta hluta, JÖKLABÖRNUM, víkur skáldið að reynslu barnanna sem búa í nærliggjandi sveitum Vatnajökuls, sem og að sinni eigin reynslu í barnæsku: „Og ég var ástfangið barn. / Af Lómagnúp, með Öræfajökli / með Hvannadalshnúk.“ Í ljóðinu „Land elds og einskis“ horfir hún heitum augum „á yndið mitt stóra úr æskunni“.
Í næstsíðasta hluta bókarinnar, FLÆÐISKER, víkkar skáldið sjóndeildarhringinn til muna og færir fókusinn af Vatnajökli og Íslandi yfir á veröld víða. Hér er ort um þær afleiðingar sem vísindamenn hafa sýnt fram á að fylgi í kjölfar mengunar, misnotkunar á náttúrunni og loftslagsbreytinga af mannavöldum: hér er ort um útrýmingu tegunda, dauð lönd, drukknaðar borgir, súrnandi plasthöf, fækkandi fugla og flugur á fallandi fæti: „og undrahnötturinn okkar breytist í flæðisker: Hvert forðar sér mannskepnan þá?“ Skáldið harmar að kunna ekki „að gala galdur“ og fái reist „við mergsogna móður“. Undir lok þessa hluta kveður þó skyndilega aftur við ljúfan tón:
Enn vermir sólin á Íslandi
hæglega hóglega.
Enn ekki að Harmasól orðin.
Enn gleður jökullinn minn augun á góðum degi
enn gleður jökull mig alla hreint.
Þótt hann sé orðinn að svipnum hjá sjóninni
þá blaktir hann enn
í hálfa stöng yfir Lómagnúp [...]
Lokahluti Dimmumóta hefur að geyma þrjú ljóð, „Leifar af ljóma“, „Í duftið“ og „Það hverfur og stelpan“. Saman mynda þau sorgarmars, nokkurs konar útgöngusálm ljóðabókarinnar: „Aðeins eitt verður eftir, þegar allt er horfið ... // flís af sálinni stelpunnar frá því í ágúst // augasteinn þá“.
Tregaljóðið Dimmumót er glæsilegur hápunktur á jöklaskáldskap Steinunnar Sigurðardóttur, sem orti um hvíta fjallið strax í fyrsta ljóði fyrstu ljóðabókar sinnar, Sífellur (1969), og síðan aftur og aftur í fjölda ljóða og skáldsögum. Þótt skáldið segist ekki kunna þá list „að gala galdur“ er tvímælalaust fólginn mikill galdur í ljóðmáli bókarinnar sem vel mætti lýsa sem nútíma Völuspá, þótt lítil von sé um að upp komi öðru sinni jörð úr Ægi iðjagræn...
Ritdómurinn birtist áður í Stundinni 6. desember 2019