SAMTAL LJÓÐA OG MYNDA
Melkorka Ólafsdóttir og Hlíf Una Bárudóttir. Flagsól. Mál og menning 2023
Flagsól er líklegasta fallegasta ljóðabókin sem kemur út á þessu ári, að minnsta kosti hvað hönnun og ytra útlit varðar. Bókin er verk tveggja listamanna: Melkorka Ólafsdóttir yrkir ljóðin en Hlíf Una Bárudóttir gerir myndir við hvert einasta ljóð. Í raun er um konsept-verk að ræða. Viðfangsefnið er sveppir og samspil þeirra við náttúruna og manninn.
Sveppir eru töfrandi fyrirbæri og tilgangur þeirra og mikilvægi fyrir lífríkið er sífellt að koma betur og betur í ljós eftir því sem rannsóknum fleygir fram. Og rannsóknum á sveppum fleygir fram; á undanförnum árum hafa komið út nokkrar bækur um undralíf sveppa, nefna má The Secret Life of Fungi: Discoveries from a Hidden World eftir Aliyia Whitelay og Entangled Life: How Fungi Make Our Worlds, Change Our Minds & Shape Our Futures eftir Merlin Sheldrake, sem báðar komu út 2020.
Flagsól inniheldur 36 ljóð og titlar þeirra vísa til nafna sveppanna, svo sem „Loðmylkingur“, „Fífustaup“, „Trjónupeðla“, „Meyhnyðlingur“, „Skorpuskinni“, „Silkiroðla“, „Fýlubellingur“, „Vængskupla“ og „Skollaskræða“. Mörg þessara skemmtilegu nafna eru komin frá Helga Hallgrímssyni sem gaf út Sveppakverið 1978 og Sveppabókina 2010. Ljóðin eru sum ort í orðastað sveppanna eða hýsla þeirra, lýsa útliti þeirra og umhverfi, en önnur hafa mennskan ljóðmælanda sem tjáir atvik, reynslu eða tilfinningu sem segja má að vakni út frá útliti og nafni sveppsins. Hvert ljóð tekur mið af tilteknum sveppi og undurfallegar myndir Hlífar Unu af honum þekur blaðsíðuna við hlið ljóðsins. Hlíf Una bregður líka stundum á leik í myndgerðinni, eins og í myndunum sem fylgja ljóðunum „Ullblekill“ og „Gráspyrða“. Í því fyrrnefnda hafa tveir sveppanna kvenlega fætur og í því síðarnefnda vex Gráspyrðan líkt og á naflastreng sem kvíslast frá nýfæddu barni. Undir myndunum eru upplýsingatextar um sveppina en í stuttum texta í lok bókarinnar er tekið fram að þeim textum sé „ekki ætlað að vera fullnægjandi fræðitextar“, þeim sé „ætlað fagurfræðilegt samhengi“. Textarnir eru unnir upp úr skrifum sveppafræðinganna Helga Hallgrímssonar og Harðar Kristinssonar.
Melkorka hefur áður gefið út ljóðabækur, bæði á eigin vegum og með skáldahópnum Svikaskáldum. Ljóð hennar eru vel gerð og djúp og vekja lesandann til umhugsunar um ýmislegt í mannlífi og náttúru. Líf og tungumál sveppanna er eitthvað „sem við / skiljum ekki nema / láta frá okkur allt / sem við þekkjum / lögmálin önnur og þó: / þar mætast elskhugar / þar er grimmd / þar er eitthvað sem rétt snertir vitundina / eins og lykt eða minning sem / hverfur jafnóðum“ segir í ljóðinu „Íma“. Lesandanum finnst hann þó vera einhvers vísari eftir að hafa lesið ljóðin, skoðað myndirnar og rýnt í upplýsingatextanna. Eitt af snjöllustu og fyndnustu ljóðum bókarinnar er ljóðið „Fýlubellingur“, en um hann segir:
Fýlubellingur (Phallus impudicus). Aldin fyrst á stærð við hænuegg, ljóst að lit, að mestu á kafi í mold. Við þroska rifnar byrðan og upp vex hvítur, reðurlaga stautur, sem getur náð 10-15 sm hæð á 1-2 klukkustundum. Hann er úr svampkenndum vef og efst er bjöllulaga hetta þakin dimmgrænu, ýldulyktandi slími sem flugur sækja í og sleikja upp á skammri stundu. Fannst fyrst hér á landi í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu í Reykjavík árið 1987. Síðan hefur hann birst þar reglulega á haustin, en hvernig annarsstaðar á Íslandi.
Meðfylgjandi ljóð hefst þannig:
Feðraveldið tilheyrir fortíðinni- okkur hérfannst mér vökukonan hvíslahugtakið þreyttara en uppvakningurinn.
Flagsól er frábær bók hvar sem á hana er litið; bók sem gaman er að eiga, blaða í, lesa ljóðin og skoða myndirnar. Ein af sérstæðustu og skemmtilegustu bókum ársins.
Ritdómurinn birtist fyrst í SÓN, tímariti um ljóðlist og óðfræði (2023) ásamt 17 öðrum ritdómum um nýlegar ljóðabækur.