SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir10. janúar 2024

FLÓKINN VEFUR HEILANS

Aðalheiður Halldórsdóttir. Taugatrjágróður, Bjartur 2023, 80 bls.

 

Við lestur nokkurra ljóðabóka sem bárust mér í hendur nú fyrir jólin fannst mér áhugavert að lesa þær með tillit til nokkurra skýringa úr bókmenntafræðinni. Bók Sveins Yngva Egilssonar var nærtæk að þessu sinni. Bókin hans Sveins heitir Textar og túlkun, greinar um íslensk fræði og hún kom út árið 2011. Ég gríp oft í hana til þess að átta mig á textum í ljóðum. Hvernig hefði Sveinn Yngvi til dæmis fjallað um konur og kveðskap þeirra í bókinni? Hvað segir hann mér þegar ég er að reyna að finna ljóðunum stað í bókmenntunum. Fyrir mér er nauðsynlegt að bera þetta saman. Sveinn Yngvi fjallar um hluti eins og lífræna heild ljóðabóka og skýrir út fyrir okkur hinum að þannig hafi í raun skilgreining rómantíkurinnar verið á góðum bókmenntum hér áður fyrr. Hver er munurinn á safnriti og eða lífrænni heild er spurningin sem hann glímir við í kafla 1 Að yrkja bók. Sveinn skýrir út að ljóðin séu þá eins og lítil jurt sem síðan vaxi og dafni og eins og ég skil það ,,að lesandinn finni samhljóm út í gegnum alla bókina. Heildin hafi því forgang og án heildarinnar væri verkið ekkert. Skilgreiningin sem á við 19. aldar bókmenntir. Síðar kom fram afbyggingar hugtakið sem gróf undan hugmyndum um lífrænu heildina. (Heimild: Sveinn Yngi Egilsson, Textar og túlkun, Reykjavík: Háskólaútgáfan 2011.)

 

 

Fyrsta ljóðabókin sem ég las var Taugatrjágróður, bók sem kom út nú á haustmánuðum og er fyrsta bók höfundarins Aðalheiðar Halldórsdóttur. Þar segir á bakhliðinni að Aðalheiður hafi í áratugi dansað með Íslenska dansflokknum og að hún hafi komið að ótal leikhúsuppfærslum sem dansari, leikkona, danshöfundur og höfundur sviðshreyfingara í leikverki. Ég segi bara vel gert Aðalheiður um leið og ég lauk við að lesa ljóðin hennar. Vá hugsaði ég, mikið er ég heppin að fá að lesa þessi ljóð, að einhver hafi gefið út hugverk sitt og það í fyrsta sinni og hrifið mig upp úr skónum. Ljóðin hennar eru saga ástarinnar og kvennasaga allt í senn. Feminísk sýn og allt ein heild. Textinn dró mig að sér og ég hreifst af.

 

 

 

Fyrsta ljóðið er fallegt og það hljómar svona:

 

hún andar frá sér
framan í hann
andar frá sér
laust
andar aftur
frá sér
kröftugar
svo hár hans bærist
lítillega
andar honum svo að sér
í heilu lagi
og þar hvílir hann ú
í taugakerfi konunnar
ferðast með henni
gegnum daga
og draumlausar nætur
hún er þung á sér fyrir vikið
en lætur sig hafa það
hann er ekki eini
sem hún ber
og hún er þung á sér
en lætur sig hafa það.

 

Ljóðið dró mig að sér eins og hann dróst inn í taugakerfið hennar og ég hélt áfram að lesa, hvert orð og hverja hendingu hægt og rólega, drógust ljóðin inn í vitundina mína og í næsta ljóði, kannski er það sama ljóðið sem hefur vaxið eins og fallegt jurt sem hefur fengið góða næringu.

 

og stundum þegar hún situr á bekk
eða á steyptum vegg við fjölfarna götu
og fylgist með fólkinu
finnst henni betra
að slökkva á einu skynfæranna
stilla augun á manual fókus
án þess að hirða um að snúa upp á linsuna
fylgist þannig með fólkinu
því ef hún sér einn of vel
verður henni flökurt
enda hvað ætli hún kæri sig
um ókunnuga
inn í taugakerfið sitt?
og stundum þegr hún situr á bekk
eða á steyptum vegg við fjölfarna götu
sest hann hjá henni
brosir og segir eitthvað á við
þú hér ennþá?
eða aftur
aftur
ekki ennþá
vissirðu að með árstíðaskiptunum
má breyta um ham?
losa af sér þann gamla
hik-laust
þó fullkomin óvissa fylgi gjörðinni
því kannski er ekkert undir
eða það sem birtist
óboðlegt
þorir maður þá?

 

og svo seinna:

 

Jöklarnir eru hvítir
og sandurinn svartur
sagði hann
máði þar með út
fjölskrúðugt grátóna litróf
snjóskaflins
slétti úr allri áferð
bæði malbiks og móa.

 

Hér væri gaman að fjalla einnig um hugræna bókmenntir eftir lestur þessara ljóða þar eru lykilatriðin vitsmunasterfsemi mannsins sem markast af líkamsgerð hans og reynslu af því að vera til í heiminum og skiptir tungumálið miklu máli. sem og tilfinningar og minningar. Þar sem hugurinn er órofa samband við líkamans.

Taugatrjágróður er frábær í alla staði, ég sem lesandi get tengt mig við orðin, tungumálið, hugsunina um konuna og hugrenningar hennar sem nærir og bætir. Orðin margslungin, óræð og stundum er eins og Aðalheiður sé að senda okkur langt langt inn í flókið verk heilans.