„ALLT SEM AUGA KEMURÐU Á ER HVERFULT“
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Í fylgd með fullorðnum, JPV útgáfa 2005, 213 bls.
Ritdómur eftir Friðriku Benónýs
Minningabækur eru með ýmsu sniði. Sumir rekja sögu sína í réttri tímaröð, aðrir raða niður minningabrotum úr ýmsum áttum án tillits til tímaskeiða. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir velur síðarnefndu aðferðina í sinni fyrstu bók, Í fylgd með fullorðnum. Reyndar slær hún þann varnagla að taka fram að frásagnirnar skuli skoða sem minningar skáldsagnapersónu og að „Hver og einn skrifar sína eigin útgáfu. Klæðir hana skoðunum. Ljær henni vængi með hugmyndaflugi. Tilfinningum.“ (bls. 8) Og auðvitað má það til sanns vegar færa að við erum öll sögupersónur í skáldsögu eigin lífs, sífellt ritskoðandi minningar okkar og upplifanir.
Í fylgd með fullorðnum er samansafn myndbrota, minninga, lýsinga á fólki og upplifunum, gleði, sársauka og sterkra tilfinninga. Allt vel dregnar myndir, skýrar og sterkar, hvort sem um er að ræða samskipti sögukonu við móður sína, dóttur, elskhuga, föður, ömmur, vinkonur eða nágranna. Harmsögur annarra eða lýsingar á eigin upplifunum. Sterkustu myndbrotin fjalla um samskipti móður og dóttur. Allt frá því að dóttirin er örlítið peð þar til hún er fullorðin kona og orðin móðir sjálf. Þessi myndbrot spanna allan tilfinningaskalann, vekja hlátur og grát, gremju og aðdáun.
Það sem mesta aðdáun vekur er hve fullkomið vald Steinunn Ólína hefur á máli og stíl. Hér er hvergi neinn byrjendabrag að finna. Stíllinn er látlaus og meitlaður, málið kjarnmikið og hver mynd dregin upp í fáum en skýrum dráttum, án útúrdúra eða flúrs. Næmt auga höfundar fyrir sérkennum persóna og leiftrandi húmor með undirliggjandi trega gera bókina skemmtilega aflestrar um leið og hún vekur mann til umhugsunar um hlutskipti manneskjunnar og hvað það er sem skiptir máli í mannlegum samskiptum.
Auðvitað eru myndirnar ekki allar jafn góðar, en engri þeirra er ofaukið og þær raðast saman í samstæða heild, þrátt fyrir ólíkar fyrirsætur frá ólíkum tímaskeiðum. Hlutskipti kvenna er höfundi ofarlega í huga og lýsingar hennar á konunum sem móta hugarfar barnsins eru allt í senn spaugilegar, gróteskar og átakanlegar. Allar þó litaðar hlýju, meðlíðan og skilningi. Karlarnir eru dregnir grófari dráttum einsog við er að búast, flestir óttalegir aumingjar, aumkunarverðir en grimmir og helst til þess fallnir að hengjast í hæsta gálga. Hvergi vottar þó fyrir ofstæki eða einföldunum, svona lítur þetta út í minningunni og beittasta vopn þess undirokaða er háðið.
Hvort sem Í fylgd með fullorðnum flokkast sem minningabók eða skáldverk þá er hér á ferðinni skáldskapur í besta skilningi þess orðs. Bók sem á eftir að eiga sæti ofarlega í bókabunkanum og vera lesin aftur og aftur. Og það er engum blöðum um það að fletta að íslenskri bókmenntaflóru hefur bæst höfundur sem hefur mikið fram að færa og kann galdurinn við að hrífa lesandann með sér, ýta við honum og heilla hann upp úr skónum.
Friðrika Benónýs
Ritdómurinn birtist fyrst í Morgunblaðinu, 15. nóv. 2005.