ELDRI KONUR
Las bókina Eldri konur eftir Evu Rún Snorradóttir um daginn. Bókin kom út nú á haustmánuðum og er tilnefnd til fjöruverðlaunanna í ár.
Þegar hún var auglýst fannst mér titillinn spennandi. Eldri konur, það hlýtur að vera efni sem gaman væri að lesa. Ég gerði mér í hugarlund að höfundur myndi kafa örlítið inn í hugarheim eldri kvenna, segja frá lífsreynslu þeirra og kannski heimssýn sem mér þætti spennandi. Kannski um konur sem höfðu allt sitt líf lagt sitt af mörkum til samfélagsins borið börn og buru, slitnar af striti og mikilli vinnu en atgangur lífssins væri óðum að færast þeim fjær. Konur sem stóðu í ströngu við uppeldi, héldu heimilinu sínu gangandi, stóðu með sínu fólki voru til taks alla tíð en með hækkandi aldri standa kannski einar eftir. Hvað hafa þær að segja okkur?
Ég velti sögunni fyrir mér, vildi taka kjarnann og kryfja. Aðalsögupersónan er ung kona sem ólst upp við frekar bágar aðstæður, að mínu mati afleitar, og á hvergi athvarf í lífinu. Móðir hennar er ekki í myndinni þó svo að hún nefnir hana oft. Hildur er kona sem tekur að sér uppeldi hennar en er afleit sem slík.
Áhugaverð lína í bókinni er þegar hún situr að loknum vinnudegi og heillast af því þegar konurnar sem unnu með henni taka saman rapport dagssins. Þar sitja þær saman í hring og spjalla um daginn og veginn, að rapportinu loknu, og henni líður eins og hún sé stödd í fræðslu um það hvernig það er að vera fullorðin. Hver man ekki eftir því að hafa sem unglingur hlustað á slíkt tal?
Ástarlífið er fyrirferðarmikið í sögunni og hún finnur sér stað í lesbískum samböndum. Hugur hennar stendur til eldri kvenna, hún hrífst af þeim og ekki bara einni og ekki tveim. Hún á í ástarsömböndum við nokkrar eldri konur með allskonar bakgrunn og er laus í rásinni. Veit ekki hvað hún vill. Leiðist til fíknar sem veitir henni sælu.
Ég finn til með henni, hugsa til minna unglingsára, stundum var maður bara ekki viss hvert lífið stefndi. Unglingsárin eru erfið það vita allir og það getum við lesið í sögunni hennar Evu. Ég vorkenni henni, finn til þegar hún veður uppi í allskonar vitleysu. Í byrjun bókarinnar vinnur hún í Sjálfsbjargarhúsinu og kynnist þar dauðanum, er látin hjálpa til við að snyrta lík, það hlýtur að hafa áhrif á unga sál, en hún er bara að hugsa um að ná augnráði vinnufélagans, sem er eldri kona. Konan sem kennir henni handtökin. Hún hugsar bara um að sænga hjá henni. Mjög skrítnar tilfinningar í erfiðum aðstæðum.
Hvernig var hennar uppeldi háttað? Les á milli lína að rótfestuna skorti, móðirin ekki inn í myndinni og Hildur uppeldismóðirin alls ekki starfi sínu vaxin. HIldur sótti hana kannski í leikskólann, hífuð og átti í sambandi við vafasama einstaklinga. Sjálf hafði hún líka ábyrgðartilfinningu gagnvart öðrum yngri börnum, vildi annast og hálpa ef hún fann að eitthvað bjátaði á. En það tók líka toll af heilsu hennar, hana skorti einbeitningu, var með áhyggjur. Uppeldið skiptir gríðar miklu máli. Kennum börnum að lífið er enginn leikur það er dauðans alvara. Hversvegna leiðast unglingar inn í heim fíkninnar? Eva segir okkur sögu ungrar konu sem fellur inn þann heim.
Niðurstaðan: Sagan er nokkuð áhugaverð, hún fær lesandann til að velta því fyrir sér hversvegna ung kona reynir að ná tengslum við eldri konur en er í raun að glíma við erfiðleika við það að fullorðnast í heimi einstaklingshyggjunnar. Hildur fóstra hennar er sjálfhverf. Móðirin víðsfjarri. Þá minnir margt í þessarri sögu á Diddu skáldkonu. Bæði óhefluð og framsækin saga.
Kv
Magnea