SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn14. nóvember 2016

EKKI ER ALLT SEM SÝNIST. Óttaslegni trompetleikarinn

Óttaslegni trompettleikarinn

eftir Sigríði Albertsdóttur.

Sigurbjörg Þrastardóttir sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, Blálogaland, árið 1999 en bókin þótti afar sterk frumraun. Hún hefur síðan þá sent frá sér nokkrar ljóðabækur, m.a. Hnattflug (2000), Túlípanafallhlífar (2003), og Blysfarir (2007). Jafnframt hefur hún skrifað tvær skáldsögur Sólar sögu sem út kom árið 2002 og Stekk árið 2012 svo eitthvað sé upp talið.

Sigurbjörg er afar flink í að draga upp myndir líkt og þær séu málaðar með orðum, ljóð hennar eru meitluð og höfða sterkt til augans og í skáldsögum sínum vinnur hún einnig með sterkar og litríkar myndir sem sitja eftir í skynjun lesandans. Hún höfðar léttilega til ólíkra tilfinninga og spilar auðveldlega á strengi trega, sorgar og eftirsjár en það sem mér finnst hún hafa unnið afar vel með, allt frá fyrstu tíð, er útsmogin, létt en einnig á stundum köld írónía. Í Túlípanafallhlífum er sagt í upphafi ljóðsins „Úlnliðarnir mínir“: „Mér finnst eiginlega glatað/að hafa aldrei þjáðst af þunglyndi/ég meina svona alvöru/svartnætti …“ Í þessu ljóði fjallar höfundur um það á írónískan hátt hve fá yrkisefni séu eftir þegar þunglyndið vantar, engir myrkvaðir bikarar og makt myrkranna víðs fjarri, eins og segir í sama ljóði. En jafnframt er sýnt fram á að skáld þurfa ekki að vera djúpt sokkin í sorg og sút til að geta ort hin fínustu ljóð. Vissulega eru sárar tilfinningar til staðar en treginn, sem og aðrar tilfinningar, eru málaðar mjúkum litum eða kaffærðar í svo mikilli íróníu að þunglyndið á eiginlega enga möguleika.

En auðvitað notar Sigurbjörg háðið, eins og höfundum er gjarnt, til þess að afhjúpa ýmsar meinsemdir samfélagsins, og sýna veruleikann frá öðrum og óþekktum sjónarhornum oft í því skyni að fá lesandann til þess að endurskoða afstöðu sína til ólíkra athafna mannanna sem og sjónarmiða þeirra og viðbrögðum við erfiðum og óvæntum uppákomum.

Í sinni nýjustu bók Óttaslegni trompetleikarinn og aðrar sögur, sannar Sigurbjörg enn og aftur ákveðinn hæfileika sinn í að draga upp írónískar myndir af fólki, sem og og dýrum, í fáránlegum aðstæðum sem afhjúpa fordóma, skeytingarleysi, heimsku, heimtufrekju, græðgi, grimmd og ást, svo eitthvað sé upp talið.

Sögurnar eru mislangar, sumar nær því að vera ljóð en saga og aðrar vega salt á milli ljóðs og sögu; eru svokallaðar örsögur. Tónn sagnanna er barnslegur, setningar eru oft stuttar og knappar, og þá til þess gerðar að vera ekkert að draga lesandann á kjarna málsins. En annars staðar eru setningar dregnar á langinn, eins og gengur og gerist í samskiptum manna á milli. Og þá ruglast lesandinn í ríminu, en til þess er leikurinn auðvitað gerður. Sögurnar eru meinfyndnar og boðskapur sumra þeirra augljósari en annarra eins og glöggt má sjá í fyrstu sögu bókarinnar sem ber heitið „Legnám“ og hefst á eftirfarandi setningu: „Móðir mín fór í legnám fyrir skömmu“. Í framhaldi af þessum orðum hefjast hugleiðingar um legnám sem eru fremur fumkenndar og vandræðalegar enda er það sonur konunnar sem hér veltir fyrir sér þessari viðkvæmu aðgerð. Hann er ekki sáttur þvi honum finnst hann hafa verið sviptur uppruna sínum, að hann eigi hvergi heima og að nú geti hann hvergi staðsett sig í veröldinni. Frásögn hans ber eigingirni vitni sem og skilningsleysis hans á ákvörðunum og aðstæðum kvenna. Hann lætur móðan mása, fær engan botn í eigin tilfinningar og þegar hann virðist átta sig á því að orðræða hans er komin út á hreinar villigötur klykkir hann út með skrýtlu um konu hjá kvensjúkdómalækni. Þar með virðist botninn dottinn úr sögunni en það eru einmitt lokalínur hverrar sögu sem segja allt sem segja þarf. Þær eru oft úr takti við efnivið sögunnar sjálfrar en í þeim felst einmitt boðskapur, ádeila og/eða skemmtun sagnanna. Á þennan hátt leikur Sigurbjörg sér með samskipti kynjanna, sambúð dýra og manna sem og tengsl mannsins við náttúru og sitt daglega umhverfi.

Sögurnar eru ólíkar að því leyti að í sumum þeirra er unnið með eina tilfinningu eða kennd. Í öðrum er unnið með samskiptamynstur og í enn öðrum er vikið að hugleiðingum manna um lífið og tilveruna, svona almennt og yfirleitt. En allar eiga sögurnar það sameiginlegt að draga upp óvænta og algjörlega nýja mynd af veruleika sem lesandi þekkir, beint eða óbeint. Sumar þessara sagna virðast fyrst og síðast beinast að því að skemmta lesandanum, fá hann til þess að hlæja og sjá veruleikann í nýju og skemmtilegu ljósi en aðrar hafa alvarlegan undirtón. En eins og áður var vikið að þá liggur styrkleiki höfundar allt frá fyrstu tíð í því að vefa saman alvöru og gamni svo úr verður umhugsanverður texti. Í þessum sögum er ekki allt sem sýnist. Við fyrstu sýn virðist sagan Óttaslegni trompetleikarinn, sem bókin dregur nafn sitt af, einungis vera saga af óþolandi og taugaveikluðum karlmanni sem er að gera öllum lífið leitt. Og vandræðagangur hans er verulega fyndinn. En mein hans á sér ákveðnar og sárar rætur sem margir þurfa því miður að glíma við og við þá staðreynd staldrar lesandi.

Eins og fyrr var sagt er Sigurbjörg heilmikill meistari íróníunnar og þótt ekki geti ég sagt að í Óttaslegna trompetleikaranum liggi að baki boðskapur sem verulega nái til hjartans þá ýtir höfundur við lesanda og fær hann til að skemmta sér yfir vandræðagangi á ýmsum sviðum tilverunnar. Og sums staðar fer höfundur á verulegt flug t.a.m í sögunni „Ístrur karlmanna“ en þar fá lesendur frumlega útlistun á því hvers vegna svo margir karlmenn í hinum vestræna heimi skarta jafn veglegum bumbum og raun ber vitni.

Óttaslegni trompetleikari Sigurbjargar Þrastardóttur er skemmtileg lesning; höfundur beitir tungumálinu af mikilli leikni og þeir sem hafa unun af orðaleikjum ættu hæglega að geta týnt sér í margbeytilegu tungutaki höfundar.

Ritdómurinn var fluttur 14. nóv. 2015 í Víðsjá á RÚV og má finna hér: http://www.ruv.is/frett/ekki-er-allt-sem-synist