SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 6. desember 2019

STÆRSTA LÍFSVERKEFNIÐ. Systa

Vigdís Grímsdóttir. Systa. Bernskunnar vegna. Reykjavík: Benedikt 2019, 256 bls.

Fáir rithöfundar hafa verið eins ötulir og Vigdís Grímsdóttir að skrifa um mikilvægi bernskunnar fyrir líf og velferð einstaklingsins. Í mörgum skáldsagna sinna lýsir hún hvernig áfall í bernsku, ill meðferð á börnum, andlegt og líkamlegt ofbeldi, markar þann sem fyrir slíku verður fyrir lífstíð. Um þetta fjalla til að mynda skáldsögur hennar Kaldaljós (1987), Ég heiti Ísbjörg. Ég er ljón (1989), Þögnin (2000) og Dísusaga (2013). Nýja bók Vigdísar, Systa, hefur undirtitilinn Bernskunnar vegna og segja má að hér sé sama viðfangsefni á ferðinni þótt Vigdís nálgist efnið á hátt sem er gjörólíkur þeim aðferðum sem hún beitir í áðurnefndum skáldsögum. Enda er Systa ekki skáldsaga. Í grunninn er um endurminningar að ræða sem fléttast saman við hugleiðingar um bernskuna og mikilvægi þess að börn njóti góðs atlætis til líkama og sálar.

En þótt Vigdísi stýri hér penna er hér ekki um hennar eigin endurminningar að ræða heldur er frásögnin lögð í munn aðalpersónunnar, Systu, sem segir frá æsku sinni, uppeldi og lífsskoðunum. Systa er gælunafn Sigrúnar Sveinbjörnsdóttur sem Vigdís hefur þekkt frá barnsaldri og bókina vinna þær saman að því leyti að Systa skrifar minningar og hugleiðingar niður – að beiðni Vigdísar – og Vigdís notar þau skrif sem efnivið í bókina. Fyrir þessari aðferð er gerð grein í stuttum ávarpsorðum til lesanda í upphafi bókar, þar sem Systa gerir líka grein fyrir sjálfri sér. Þar segir meðal annars:

[...] ég fæddist ungum foreldrum á Íslandi skömmu eftir lok síðari heimsstyrjaldar, inn í samfélag fólks sem var að flytja úr sveit í borg; foreldrar mínir lögðu til erfðaefnið; Ísland lagði til umhverfið. Með aldrinum hefur mér æ betur skilist hvern grunn foreldrar mínir og Ísland lögðu mér til – en mér hefur líka skilist hvernig hugsun mín og hegðun er á hverjum tíma á mína eigin ábyrgð. (10)

Frásögnin Systu er skipt niður í níu hluta – eða bækur – sem hver um sig geymir síðan stutta kafla þar sem brugðið er upp myndum úr lífi Systu ásamt hugleiðingum um þau atvik sem lýst er. Þannig byggist smám saman upp mynd af lífshlaupi konu sem elst upp á síðri hluta tuttugustu aldar á Íslandi. Það er fjörleg mynd af fólki sem margt hvert flytur til Reykjavíkur úr sveitum landsins, stendur í húsbyggingum og barneignum og þeir lesendur sem komnir eru fram yfir miðjan aldur þekkja aftur fjörlegan tíðarandann og ósérhlífna vinnusemina sem einkenndi kynslóðir Íslendinga á þessum tíma. Í miðju frásagnarinnar eru börnin og hlutskipti þeirra og endurtekið er vikið að því hversu mikilvægt er fyrir börn að njóta umhyggju og ástar. Það er stefið sem gengur í gegnum alla frásögnina og það sem Systu liggur mest á hjarta. Hún ákveður snemma að leggja fyrir sig barnakennslu og sálfræði, vinnur þau störf af mikilli hugsjón og ástríðu sem skilar sér vel í textanum.

Um miðja bók kinkar höfundur kolli til Halldórs Laxness þegar hún skrifar: „ – fátt getur enda verið voðalegra en að missa móður sína nema ef vera skyldi að missa föður sinn“ og snýr þar við frægum upphafsorðum Brekkukotsannáls: „Vitur maður hefur sagt að næst því að missa móður sína sé fátt hollar úngum börnum en missa föður sinn“. Þessi orð kvikna þegar Systa hlustar á föður sinn lesa Knútssögu. Bóklestur er fyrirferðarmikill þáttur í lífi barnanna og vekur upp ýmsar hugleiðingar um lífið og tilveruna. Það eru gefandi samverustundir þegar faðirinn les fyrir börnin en lesturinn kveikir einnig hugsanir um misjafnt hlutskipti kynjanna: „Allar sögurnar sem pabbi les eru um stráka, en það verður að hafa það, þeir eru líka fólk. Fyrst svona eldgamlar stelpusögur eru ekki til verð ég bara að setja mig í strákaspor“ (156). Og bókmenntirnar kenna börnunum almenn siðferðisgildi:

Í sögunum er ljósinu varpað á samskipti manna; möguleika þeirra og hæfileika, ríkidæmi, fátækt og vald, útilokun og hunsun, stríðni og ofbeldi. Þá blasir einnig við að öll börn ber að virða hvaða stétt svo sem þau tilheyra; þau eru manneskjur sem fullorðið fólk á að hlusta á og taka mark á; börn eru bæði vitur og flókin – og tilfinningar einsog söknuður, kærleikur, ótti, harmur, afbrýði og hatur eru mennskar og búa í okkur öllum, ekki síst i börnum. (157)

Síðar segir: „Barn sem eignast bók að vini veit að hún er ætíð til taks, tilbúin til fylgdar, hvort heldur það vill fræðast, dreifa huganum og láta hafa ofan af fyrir sér, koma sér á óvart, hugga, gleðja, kæta, styggja, hræða eða hryggja“ (158).

Falleg mynd er dregin upp af foreldrum Systu, móðurinni sem liggur í bókum á milli þess að hún sinnir börnum og búi; föðurnum sem hefur blíðlynt geðslag og er góður við öll börn og sinnir þeim af alúð. Sjálfur er hann kennari og fyrirmynd Systu þegar hún velur sér lífsstarfið. En þótt grunntónn frásagnarinnar sé hlýr og ástríkur er lífið ekki bara dans á rósum og Systa mætir einnig ýmsum erfiðleikum á leið sinni til þroska, eins og gengur og gerist. Þeir erfiðleikar snúa yfirleitt að framkomu fullorðinna við börn. Afar áhrifarík er frásögnin af sveitadvöl Systu þar sem barnlaus hjón sýna henni lengst af mikla ástúð en snúast óvænt gegn henni þegar þau sjálf verða fyrir áfalli. Sú frásögn bregður upp afar flókinni mynd af sálrænum viðbrögðum sem erfitt er að útskýra en varpar líka ljósi á tíðaranda þar sem áföll eru ekki rædd, fyrirbærið áfallahjálp ekki til, og á það hvernig börn geta orðið saklausir leiksoppar í sálarstríði fullorðinna. Ekki er síður áhrifarík frásögnin af yngsta bróður Systu sem lendir á sjúkrahúsi tveggja ára gamall og þarf að dvelja þar í tvo mánuði án þess að fjölskyldan fái að heimsækja hann. Þá ríkti sú skoðun að: „Börn sem fá heimsóknir sinna nánustu á sjúkrahús verða óþekk og erfið, þau þurfa frið til að jafna sig“ (170). Ekki er ólíklegt að mörg börn sem urðu fyrir álíka reynslu hafi seint jafnað sig á slíkri meðferð.

Systa er þroskasaga íslenskar stúlku sem fæðist um miðbik tuttugustu aldar, lærir sínar lífslexíur af ástríkum foreldrum, í átökum við systkini og vini, af því mótlæti sem mætir henni í samskiptum við annað fólk, sem og af bókum. Í bókarlok, þegar hún stendur andspænis dauðanum, kemst hún að niðurstöðu:

stærsta lífsverkefni okkar allra fullorðinna sem lifum; hver og hvar sem við eru: að hlúa að börnum, taka höndum um að vernda þau sem hvorki kunna né geta borið hönd fyrir höfuð sér. Því saman eigum við stóran faðm sem nær utan um heiminn og ef við breiðum út þennan ristastóra sameiginlega faðm þá grípur hann upp öll okkar börn sem búa við ógn, heima og heiman, í fátækt og á flótta, í hamförum og stríði og einnig þau sem í hlýju rúmi í ríku landi hvíla hönd sína í lófa foreldris sem dauðinn tekur frá þeim. (255)

Þetta er fallegur boðskapur í einlægri og hlýrri bók sem allir ættu að lesa; ekki síst þeir sem vinna með börnum alla daga, foreldrar og kennarar. Þetta er bók sem nær smám saman sterkum tökum á lesandanum; bók um mennskuna, barnanna og bernskunnar vegna.

Ritdómurinn birtist áður í Stundinni, 22. nóv. 2019