LITRÍKAR PERSÓNUR VALSA UM SKRAUTLEGT SVIÐ - Um Konu á buxum
Þuríður formaður Einarsdóttir (1777-1863) var merkiskona sem segir frá í ýmsum heimildum. Hún sótti sjó í 66 ár og var formaður á opnum báti á 26 vetrarvertíðum og aldrei fórst nokkur af hennar áhöfn. Til er ævisaga hennar, rituð af henni sjálfri þótt óskrifandi væri (birt í 2. b. Skyggnis). Til er lýsing á henni höfð eftir Brynjúlfi Jónssyni fræðaþul sem kenndur er við Minna-Núp (1838-1914) í bókinni Sagan af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum sem e.t.v. kemst næst því hvernig hún kom fyrir sjónir. Og bréf og stefnur eru til í hennar nafni því hún lét ekki hlut sinn fyrir neinum, nema einu sinni þegar sýslumaður fékk hana til að bera vitni gegn svonefndum Kambránsmönnum* sem kunnugt er.
Brynjúlfur frá Minna-Núpi Iýsir Þuríði formanni svo:
Þuríður var snemma stórhuga og fljóthuga, skipti sér af öllu og vildi öllu ráða, enda sást það brátt að hún var bæði snarráð og hagráð; vann hún sér því traust þeirra er með henni voru. Hún var brjóstgóð við bágstadda, en óvægin og einbeitt við meiri menn og lét eigi undan neinum; var og einskis manns að yrðast við hana svo var hún orðheppin og gagnorð, enda skynsöm vel; aldrei beitti hún stóryrðum eða illyrðum, þó henni mislíkaði, en þá varð hún fljótmæltari og hraðmælari. Aldrei brá henni svo við neitt, að menn fyndu, að hún tapaði sér. Hún tók svo vel eftir öllu er hún sá og heyrði, að fágætt þótti, svo fljóthuga sem hún þó var, enda hafði hún gott minni; af þessu kom að hún varð vísari en aðrir um marga hluti er um var að ræða. Í þá daga naut alþýða engrar menntunar og Þuríður því eigi heldur, enda var hún meira hneigð fyrir útistörf en innisetu; gengu verk furðu vel undan henni, eigi burðameiri en hún var. Hún var grannvaxin, en þó nokkuð þykk um herðar, í meðallagi há eða vel það. Andlitið var mjög einkennilegt, yfirbragðið mikið, augun hörð og snör, niðurandlitið mjög lítið. Allt látbragð hennar Iýsti óvenjulegu fjöri. Málrómurinn var eigi mjúkur og þó eigi óviðfelldinn. Framburðurinn var djarflegur og áhugalegur. Í flestu þótti hún frábrugðin og einkennileg.
Auður Styrkársdóttir, áður forstöðukona Kvennasögusafns Íslands, hefur nú skrifað öndvegis bók um Þuríði sem ber titilinn Kona á buxum. Nokkrar furður úr ævi Þuríðar formanns (2024). Þetta er vel stíluð saga og skrifuð af þekkingu á samfélagi þeirra tíma og stöðu alþýðunnar, af innsæi í margvíslegt misrétti sem þá viðgekkst og djúpri samúð með stöðu kvenna, barna og fátækra. Þetta er safaríkt efni að moða úr, nafnkunnar og litríkar persónur valsa um skrautlegt svið átjándu og nítjándu aldar. Tekur höfundur sér víða skáldaleyfi og prjónar skemmtilega í kringum heimildirnar.
Sagan hefst þegar Þuríður er lítil telpa. Hún er snemma kjörkuð og kjaftfor, glögg og útsjónarsöm. Ellefu ára fann hún upp á því að pissa með ærhorni þegar hún var á sjó. Svo er hún komin í stuttbrók innanundir pilsið sem engin kona var þá búin að fatta, bæði vildi hún skýla sér betur og gera gröðum körlum erfiðara fyrir þegar þeir vildu koma fram vilja sínum. Og karlmannsfötum gekk hún jafnan í á seinni árum með hatt á höfði og kallaði sig stundum Þormóð.
Ekki er hún eins sterk og sterkur karlmaður, en hún fiskar meir en aðrir og hún kann allan sjóinn, og svo hefur hún þessa stórkostlega léttu lund. Nú um sumarið gengur hún að slætti að Gaulverjabæ eins og karlmaður og fær karlmannakaup (122).
Það var reyndar ekki óalgengt að konur færu á sjó á þessum tímum. Flestar sóttu sjóinn í eyjabyggðum, s.s. í Breiðafirði og í Árnessýslu er vitað um einar 17 sjókonur. Þuríður er þeirra kunnust og sú eina sem formannsheiti festist við. Árið 1830 fékk hún verðlaun úr konungssjóði fyrir jarðrækt og sjósókn. Hún mun vera eina konan, sem fékk þessi verðlaun.
Á sögutímanum voru harðindi, eldgos, hafís, jarðskjálftar, pestir og hungur viðvarandi hér á landi. Þjóðin taldi 50 þúsund hræður, örfáir komast til mennta eða eignuðust land, bústofn eða peninga, en restin hokraði og þrælaði og náði varla að eignast spjarir utan á sig á heilli starfsævi. Refsingar voru harðar við minnstu afbrotum og embættismenn og óðalsbændur héldu alþýðunni kengboginni við stritið. Þuríði tekst að bera höfuðið furðu hátt í þessum aðstæðum enda fullgóð fyrir sinn hatt.
Sagan er skrifuð á sérlega litríku og fornlegu máli og lýsingar allar á umhverfi og atburðum svo myndrænar að bragð úr sögunni finnst á tungu og lykt situr í nefi. Nægir að nefna sem dæmi um þetta sérlega lipurlega skrifaðan kafla um aftöku Sigurðar Gottsveinssonar sem var forsprakki Kambránsmanna en sú lýsing er löng og skemmtileg (265 o. áfr.) eða inngöngu hinnar víðförlu Idu Pfeiffer í íslenskan torfbæ: „Hér er aldagamall daunn af fólki og skepnum, votri ull, fúkka og slaga, súrri mjólk og úldnum fiski og ýmsu torkennlegu, sem hið austurríska nef hennar ekki kann að greina, en er aldeilis hroðalegt...“ (293).
Við sögu kemur margt merkisfólk eins og t.d. Jónas Hallgrímsson, Jón Sigurðsson og Valgerður Jónsdóttir biskupsfrú. Ekki er virðingu eða aðdáun fyrir að fara þegar Þuríður veltir fyrir sér hinum frægu Fjölnismönnum sem þóttust koma með frelsi og sjálfstæði til þjóðarinnar en koma alþýðunni alls ekki þannig fyrir sjónir. Þetta hugsar Þuríður:
Jónas. Tómas. Konráð. Brynjólfur. Hvað vita þeir svo sem um okkar hagi? Víst voru þeir hér bornir og barnfæddir, en tæplega rifu þeir fiskiroð og bruddu bein, synir presta og stórbænda allir saman. Og vínþrúgur og fuglasteikurí Kaupinhafn breiða yfir menn þægilegan hægindahjúp. Mér þykir Fjölnir harður í okkar garð…Eða þá kvæðið hans Jónasar: Hvar er þín fornaldar frægð og þá riðu hetjur um héruð! Hefur nokkur maður heyrt annað eins?! Já, frægðin, hún liggur í þeirra mannsmorðum og gripdeildum! Á það minnist ekki skáldið, ef skáld skyldi þá kalla, og ekki minnist Jónas þeirra sem hér hafa þraukað öldum saman og lifað þá voðalegustu eldganga og landskjálfta sem mannkyn man, og lifað samt, og lifað fullt eins góðu lífi og þar sem fuglasteikurnar fljúga sjálfkrafa í munna og vín flýtur um borð. Og svo kallar skáldið þetta kvæði Ísland! Ja svei! (288-9).
Sagan rennur vel og lýsir á trúverðugan hátt lífi og kjörum fólks. Væntanlega hafa fæstar konur á þessum tíma búið yfir þeim styrk sem Þuríður hafði og varð til þess að hún réði sér sjálf mestan part ævinnar. Henni eru lagðar í munn nútímalegar skoðanir, t.d. er skemmtileg sena þegar hún og Jón Sigurðsson rökræða um alþingi. Þuríður stingur kokhraust upp á því við hann að konur fái að sitja á þingi (310-311). Líklega lágu leiðir þeirra þó aldrei saman og þessi hugmynd fékk ekki hljómgrunn fyrr en löngu síðar sem kunnugt er.
Höfundur aflaði sér margvíslegra heimilda við ritun bókarinnar og greinir frá því ítarlega í eftirmála hvernig þær eru nýttar og hvar skáldskapurinn fær að flæða. Þuríður hefur verið einstök manneskja meðan hún var á dögum og er stórskemmtileg sögupersóna með alla sína öfga, sérvisku og ríku réttlætiskennd.
Fram kemur í eftirmála höfundar að nýverið kom út önnur bók um Þuríði formann, Woman, Captain, Rebel eftir Margaret Willson. Sannarlega var Þuríður Kona og Kafteinn og reis gegn feðraveldinu. Frábært er að henni er sómi sýndur með því að gera hana eftirminnilega og ódauðlega með þessari bók sem óhætt er að mæla með fyrir alla sem unna sögulegum skáldsögum.
*Kambsránið svokallaða var framið aðfararnótt 9. febrúar 1827. Fjórir grímuklæddir menn brutust inn í baðstofu á bænum Kambi í Flóa, lögðu hendur á bóndann og heimilisfólk hans og hótuðu pyndingum og dauða til þess að fá afhent fé bóndans. Höfðu þeir á brott með sér margt fémætt, m.a. 1000 ríkisdali að sögn bóndans. Vitnisburður Þuríðar m.a. varð til þess að þeir fengu þunga dóma en eftir stóðu uppleyst heimili.