SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir16. apríl 2019

HÉR ÞEKKJA MIG ALLIR... Guðlausir menn, hugleiðingar um jökulvatn og ást

Ingunn Snædal. Guðlausir menn, hugleiðingar um jökulvatn og ást. Reykjavík: Bjartur 2006.

„Hér þekkja mig allir / en enginn veit neitt um mig“

Sprettur skáldskaparþráin af því að vera í öngum sínum? Þessi spurning vaknar við lestur ljóðabókar Ingunnar Snædal, Guðlausir menn, hugleiðingar og jökulvatn og ást. Í upphafsljóði bókarinnar lýsir ljóðmælandinn því yfir að hann sé í öngum sínum þar sem hann veður yfir á og blotnar í fæturnar, því það „er hallærislegt að taka á sig krók“ þegar maður er í slíku ástandi: „Svolítið eins og maður sé ekki í nógu miklum öngum.“

Þetta upphaf vekur samstundis áhuga lesandans að fá að vita meira um hvað málið snýst og í gegnum bókina fylgjum við ljóðmælandum á ferðalagi heim á æskuslóðir sínar. Ferðalagið myndar nokkurs konar ramma utan um ljóðin og gefur bókinni sterkan heildarsvip. En að sjálfsögðu eru ferðalögin fleiri en eitt, því um leið og ljóðmælandi ferðast í bíl norður í land og um æskuslóðir sínar, er lesandum gefin innsýn í annað og kannski mikilvægara ferðalag sem farið er hið innra. Segja má að hið „eiginlega“ ferðalag myndi uppistöðu í byggingu bókarinnar en ljóð sem lýsa hinu innra ferðalag fleyga sífellt það ytra og þar er lýst brothættum tilfinningum, ástarþrá og ótta.

Sú sem talar í bókinni er í fylgd tveggja systkina sinna á leið í jarðarför ömmu sinnar og í gegnum ljóðin kynnumst við nánustu fjölskyldu hennar, foreldrum, systkinum, ömmu og afa, og smám saman teiknast upp mynd af manneskjum með öllum sínum kostum og göllum, samskiptum þeirra, vandamálum og leyndarmálum sem búa í fjölskyldunni. Stærsta leyndarmálið á ljóðmælandinn sjálfur og ferðin er ef til vill einnig farin til þess að svipta hulunni af því. Leyndarmálið snýst um „óleyfilegar“ tilfinningar og ljóðmælandi ímyndar sér viðbrögð föður síns:

 

ekki láta svona eins og asni

alltaf sama móðursýkin í þér

hvur djöfullinn heldurðu eiginlega að þú sért?

hvað á nú svona að fyrirstilla?

alltaf þarft þú að vera með einhver andskotans

afbrigðilegheit.

 

Einn helsti kostur þessarar bók er hinn sterki heildarsvipur sem Ingunn nær að framkalla með ljóðunum, sem eru þó þegar allt kemur til alls margvísleg í formi og stíl. Ljóðin sem lýsa fjölskyldunni og heimasveitinni er frásagnarkennd og einkennast af húmor og hlýju, jafnvel þótt ort sé um alvarlega hluti. Sérlega vel heppnað ljóð af því taginu kallast „hringferð um sveitina“ en þar tekst Ingunni að bregða upp skyndimyndum af fjölda fólks á afar skemmtilegan hátt.

 

Einn skaut sig í fótinn

við að lóga rollu

 

öðrum bónda á fimmtugsaldri

finnast skemmtilegast

að gera símaat

 

á bæ utarlega hafa ráðskonur

komið og farið í tugatali

flýja fjölþreifinn húsbóndann

 

annar hringir í lögregluna

kærir þá sem flytja hey yfir ána

 

og svo er legið á njósnum

hvert er verið að fara svona seint?

 

Þegar síminn hringir

kynnir sig aldrei neinn

 

konan hér á mann sem vinnur í

vegagerð suður á landi

 

bóndinn á þessum bæ

gerir jarðgöng á Vestfjörðum

sonur hans var víst

að eiga við Fríðu frambjóðanda á góugleðinni

 

hér þekkja mig allir

en enginn veit neitt um mig

 

vakna við háværa rödd

bóndans á næsta bæ

sem vill fá lánaða sög

 

Ljóðin sem lýsa innra ferðalaginu eru knappari í formi og miðleitnari og í þeim beitir höfundur stílbrögðum á borð við líkingar og myndhverfingar á kunnáttusamlega og oft fallegan máta.

Guðlausir menn er ljóðabók sem vekur bæði forvitni og samúð hjá lesanda; hún gefur góða innsýn inn í flókinn nútímaveruleika á einfaldan, hnitmiðaðan og skemmtilegan hátt. Bókin hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og er Ingunn Snædal vel að þeim komin.

 

 

 

Ritdómurinn birtist í Lesbók Morgunblaðsins, 18. nóv. 2006