SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir22. desember 2019

VÍSINDI OG TÖFRAR. Lífgrös og leyndir dómar

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Lífgrös og leyndir dómar. Lækningar, töfrar og trú í sögulegu ljósi. Reykjavík: Forlagið 2019, 341 bls.

 

Bók Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, Lífgrös og leyndir dómar skartar einni af fallegustu bókarkápu ársins. Myndin sýnir konu að tína jurtir, sem er viðeigandi því jurtatínsla kvenna kemur mjög við sögu í bókinni og tengist kunnáttu þeirra í gegnum aldirnar á því að nota jurtir í lækningaskyni. Myndin, sem tekin er úr arabísku lækningahandriti frá elleftu öld (Tacuinum Sanitatis), er prentuð á breiðan borða sem liggur um kápuna þvera og er það Alexandra Buhl sem á heiðurinn af þessari fallegu hönnun.

Framarlega í bókinni segir:

Íslenska orðið læknir er forngermanskt og er elsta merking þess galdraþulumaður, galdraþulu-læknir eða jafnvel jurtasafnari, því að orðið á skyldt við legere (latína) og légó (gríska) sem merkja að lesa; tína eða jafnvel safna saman. Orðið lyf er sömuleiðis ævagamalt og vel þekkt í elstu ritheimildum í merkingunni meðal, læknisdómur; töframeðal‘ (45).

Í sjálfum titilinum Lífgrös og leyndir dómar, sem og í undirtitlinum: Lækningar, töfrar og trú í sögulegu ljósi, kemur fram þessi blanda af vísindum og þjóðtrú sem hefur loðað við læknavísindin allt frá upphafi þeirra og gerir að einhverju leyti enn. Í augum margra eru læknar einhverskonar töframenn sem meginþorri almennings trúir á í blindi. Í inngangi minnist Ólína aðeins á þessa ofurtrú samtímans á vísindahyggju og bendir á að oft geti einfaldlega um "valdabaráttu" að ræða. Hún skrifar einnig:

Enginn þarf að draga í efa að vísindahyggja 20. aldar ól af sér mikla þekkingarsköpun á flestum sviðum mannlífsins. Það leiddi hins vegar til þess að þekking - ekki síst tækni- og sérfræðiþekking - varð að verðmæti sem aftur varð að markaðsvöru. Í læknisfræðinni hefur aukin sókn í sérfræðiþekkingu og markaðsvæðing hennar leitt af sér oflækningar og sjúkdómavæðingu. Sóknin í sérfræðingana hefur orðið að nokkurs konar blæti með tilheyrandi líkamsfirringu í okkar tæknivísindavædda samfélagi þar sem almenningur virðist ofurseldur þekkingu þeirra sem vita hafa á líkamanum. (14-15)

Þetta er góð áminning.

Bygging bókarinnar

Lífgrös og leyndir dómar skiptist í níu kafla. Síðasti kaflinn hefur að geyma þrjár viðaukaskrár: I Íslenskar jurtir (221-256), II Erlendar jurtir (257-282) og III Lækningasteinar (283-288). Í hverri skrá eru upplýsingar um lækningmátt hverrar jurtar, sem og steinanna, og er fengur að þessum viðaukum öllum. Bókinni fylgir einnig tilvísana- og heimildaskrá, auk myndaskrár og nafna- og atriðaorðaskrár. Þetta er allt eins og á að vera í vönduðu fræðiriti og auðveldar öðrum að leita sér nánari upplýsinga og fróðleiks. Þá er ógetið fallegra litmynda sem prýða bókinna, auk svarthvítra teikninga og ljósmynda sem finna má á stöku stað.

Saga lækninga, fyrsti íslenski læknirinn og lækningabækur

Í fyrsta kafla bókarinnar, Upphaf lækninga (17-34) rekur Ólína sögu lækninga allt frá Grikklandi hinu forna, um Austurlönd og yfir til Vesturlanda áður en hún snýr sér að Íslandi og dregur saman það sem fram kemur um sjúkleika og viðleitni til lækninga í fornum textum. Annar kafli heitir Lækningar að fornu (35-70) og þar beinir höfundur athyglinni að íslenskum miðaldabókmenntum, fjallar um lækna á þjóðveldisöld og sérstaklega um Hrafn Sveinbjarnarson en frá læknisverkum hans er sagt í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar. Er Hrafn talinn fyrsti Íslendingurinn sem lærði til læknisverka (á 12. öld) í Salerno-læknaskólanum á Ítalíu. Þá eru hér einnig lýsingar á fornum lækningabókum og elstu íslensku handritum af því tagi og koma þar margar skrautlegar lýsingar á meintum læknisráðum við sögu!

Í þriðja kaflanum, Skjótt og skjöldótt efni (71-96) heldur Ólína áfram að rekja efni lækningabóka síðari alda og kennir þar ýmissa grasa, eins og fram kemur í kaflaheitinu. Töfrar og særingar koma hér mjög við sögu og einnig er komið inn á tíma galdra- og brennualdarinnar, sem Ólína skrifaði doktorsritgerð sína um og þekkir vel. Ólína bendir á að á "Miðöldum og fram á 16. öld er ekki greinanlegur munur á alþýðulækningum og lærðum lækningum, enda þekkingarrótin ein og söm" (93).

Þáttur kvenna

Fjórði kaflinn ber yfirskriftina Konur og lækningar (97-115) og er hann mjög fróðlegur. Hér kemur meðal annars fram að hyggjuvit kvenna reyndist oft betur en 'ráð' karla, sérstaklega þegar kom að fæðingarhjálp. Hér er að finna merkilega lýsingu á fæðingu (104-105) en íslenskar bókmenntir eru fremur fátækar af slíkum lýsingum, sönnum sem og skálduðum. Ritið Margrétar saga, sem er frá síðmiðöldum og tilheyrir dýrlingasögum, fær nokkuð rými enda þótti gott að hafa það við höndina þegar barnsfæðing var í gangi. Ritið var jafnvel látið "á brjóst konu með jóðsótt til að greiða fyrir fæðingunni" (111) eða bundið um læri hinnar fæðandi konu (eins og fram kom í fróðlegum útvarpsþætti sem Ragnhildur Hólmgeirsdóttir gerði og lesa má um hér.) Í lok þessa kafla er stuttur undirkafli um "Sállækningar kvenna" þar sem vísað er til "samtalsmeðferðar" Þorgerðar Egilsdóttur sem hún beitti karl föður sinn og segir frá í Egils sögu. Þessi kafli hefði, fyrir minn hatt, alveg mátt vera lengri og ítarlegri.

Fyrsti háskólamenntaði læknirinn

Í fimmta kafla, Aðferðir við lækningar fyrr á tíð (117-146) er fjallað um bæði töfralækningar og reynslulækningar, sem og grasalækningar, sem tilheyra reynslulækningum. Þá er hér einnig fjallað um sárameðferðir ýmiss konar og vikið að lækninum Þorkeli Arngrímssyni (1629-1677) sem var fyrsti háskólmenntaði læknirinn sem Íslendingar eignuðust. Þorkell var sonur Arngríms lærða og var einnig menntaður sem prestur og náttúrufræðingur. Hann mun vera höfundur lækningaritsins Curationes sem telur 32 blaðsíður á latínu og segir höfundur þar frá 119 einstaklingum sem hann læknaði, lýsir sjúkdómum þeirra og meðferð og er því ritið mikilvæg heimild í íslenskri lækningasögu.

Áframhaldandi þróun, lífsstílssjúkdómar, ungbarnadauði og fleira

Sjötti kaflinn fjallar, eins og yfirskriftin ber með sér, um Þróun lækninga á Íslandi (147-184) og koma við sögu bæði lærðir læknar og alþýðulæknar, skottulæknar og bartskerar, grasalæknar og græðarar. Nefndir eru þekktir einstaklingar úr þessum hópum, bæði karlar og konur. Í sjöunda kafla skrifar Ólína um Sjúkdóma og samfélag (185-211) og víkur að almennum lifnaðar- og heilbrigðisþáttum, sem og húsakynnum og hreinlæti, hallærum og hungursóttum, pestum og plágum. Þá fjallar hún um lífsstílssjúkdóma sem "hafa fylgt manninum frá ómunatíð" (205) sem og um hinn geigvænlega ungbarnadauða sem "var nánast landlægur á Íslandi á 18. og 19. öld" (207) og var vísast til "vanþekking við umhirðu barna, einkum næringu þeirra," sem átti hlut að máli (208, vísað til doktorsritgerðar Ólafar Garðarsdóttur, Saving the Child).

Töfratrú - fyrr og nú

Lokakafli bókarinnar (að undanskildum viðaukum) nefnist Stiklað á stærstu steinum (213-219) og þar rekur Ólína helstu vörður í þeim köflum sem á undan fóru. Undir lok kaflans skrifar hún - og tengir þar við orð sín í inngangi:

Okkur hættir þó til að ræða um heilbrigðis- og læknavísindin eins og þau séu einn þekkingargrunnur og hver sá sem stígur fram í þeirra nafni talar eins og hann hafi sjálf vísindin á valdi sínu. Í því er fólgin hættuleg hugvilla, ekki ósvipuð þeirri sem réð gangi villutrúarkenninga fyrri tíma. Við þurfum að skilja að vísindin eru töfrar þeirra tíma sem við lifum og trú þeirra einnig. (219)

Ljóst er að mikil heimildavinna liggur að baki bókar Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur. Bókin er vel upp byggð og skrifuð á lipru og læsilegu máli þótt hvergi sé slegið af fræðilegum kröfum. Ólína er menntuð bæði í íslenskum bókmenntum og þjóðfræðum og fléttar hún vel saman þessar tvær fræðigreinar í textanum, auk þess sem hún sækir fróðleik til sagnfræði og menningarsögu. Lífgrös og leyndir dómar er eigulegur gripur, aðgengilegt verk og fróðlegt. Þetta er bók sem bæði þeir sem leggja stund á heilbrigðisvísindi og fróðleiksfús almenningur ætti að hafa gaman af að lesa. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og er vel að þeim heiðri komin.