SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir30. nóvember 2018

ALLT SEM SKIPTIR MÁLI. Hugástir

I

Þegar ritferill Steinunnar Sigurðardóttur er skoðaður vekur athygli að verk hennar eru innan allra bókmenntagreina; hún skrifar ljóð, smásögur, skáldsögur, leikrit (fyrir sjónvarp) auk þess sem hún hefur skrifað barnasögu, viðtalsbók og fengist við þýðingar. En Steinunn hóf feril sinn sem ljóðskáld og hinn ljóðræni strengur er til staðar í flestum verkum hennar og setur til að mynda sterkan svip sinn á skáldsögur hennar Tímaþjófinn og Ástin fiskanna.

Fyrsta bók Steinunnar var ljóðabókin Sífellur sem kom út árið 1969. Í kjölfarið sigldi ljóðabókin Þar og þá (1971) og átta árum síðar kom þriðja ljóðabókin, Verksummerki (1979). Á níunda áratugnum sneri Steinunn sér að smásagnagerð og skrifaði tvö leikrit fyrir sjónvarp, en eina ljóðabók gaf hún út 1987, Kartöfluprinsessuna. Fimm árum síðar kemur Kúaskítur og norðurljós (1991) og tæpur áratugur líður á milli hennar og Hugásta sem kom út 1999. Hugástir er sem sagt sjötta ljóðabók Steinunnar en hún hefur einnig gefið út fimm skáldsögur, auk fleiri verka, síðastliðin fimmtán ár. Á þessum þrjátíu árum sem ritferill hennar spannar hefur hún fest sig rækilega í sessi sem einn af athyglisverðustu samtímahöfundum okkar.

II

Steinunn Sigurðardóttir hefur ótvíræða sérstöðu í íslenskum bókmenntum og erfitt að skipa henni í flokk með öðrum höfundum. Vissulega er hún hluti af hópi ungra ljóðskálda sem ef til vill má kenna við 68-kynslóðina og sem fram komu á ofanverðum sjöunda áratugnum og byrjun þess áttunda. Þetta er kynslóðin sem kom á eftir kynslóð atómskáldanna og módernistanna - kynslóð sem leitaði nýrra leiða eftir róttæka höfnun hefðbundinnar ljóðlistar; eftir uppbrot formsins og innleiðingu hins torráðna myndmáls og svartsýnnar heimssýnar eftirstríðs- og kaldastríðsáranna; og í andstöðu við bylgju nýraunsæislegrar þjóðfélagsádeilu. Þetta er kynslóðin sem leiddi húmorinn aftur til hásætis í íslenskum bókmenntum, enda oft kölluð „fyndna kynslóðin“. Sérstaða Steinunnar í þessum hópi fólst kannski fyrst og fremst í þeirri staðreynd að hún var eina konan í hópnum og hin kankvísa kvenlega rödd sem talar í fyrstu ljóðabókum Steinunnar sker sig því sannarlega úr karlakórnum (þótt ég sé alls ekki að halda því fram að sá kór hafi verið einradda!).

Sú umbylting ljóðformsins og það hefðarandóf sem atómskáldin áttu stærstan þátt í að innleiða í íslenska ljóðlist er að sjálfsögðu enn til staðar í verkum næstu kynslóðar (og kynslóða – það er engin leið til baka) en það sem einkenndi hið „frjálsa form“ sporgöngumanna atómskáldanna og gerir þau ólík atómskáldunum var - auk húmorsins - útleitnari og frásagnarkenndari ljóð, ásamt írónískri sýn á einstaklinginn, mannlífið og heiminn. Þunglyndið sem seinni heimstyrjöldin og kalda stríðið færði kynslóð hinna fyrstu íslensku módernista er víkjandi hjá næstu kynslóð íslenskra módernista og ljóð þeirra bera þess merki.

Steinunn er mikill meistari íroníunnar. Hún vefur henni listilega inn í sín frásagnarkenndu ljóð og sínar ljóðrænu sögur og af engum hefur hún lært meira hvað þetta varðar en Halldóri Laxness (enda úir og grúir af beinum og óbeinum tilvitnunum í Laxness í verkum hennar). Úlfhildur Dagsdóttir hefur lýst leið Steinunnar um skáldskapinn sem leið frá íróníu til paródíu (sjá Norræna kvennabókmenntasögu, IV. bindi) og er það snjöll lýsing. Ég mundi vilja bæta við „lýrískri melankólíu“, ekki endilega aftan við lýsingu Úlfhildar, heldur sem sívaxandi þátt í texta Steinunnar allt frá Verksummerkjum.

En hver er þá munurinn á eftirstríðsáraþunglyndinu og hinni ljóðrænu melankólíu Steinunnar? Svarið er að hún er einkalegri - ekki tengd ástandi heimsins svona almennt! - öllu heldur tengist hún persónulegri reynslu, aðskilnaði og þrá, ástinni og (í seinni tíð) dauðanum.

Í Verksummerkjum er meðal annars að finna þetta ljóð:

 

Það fer ekki sem var

það er og það sem meira er

það verður.

 

 

Þetta ljóð gæti allt eins staðið sem einkunnarorð fyrir skáldsöguna Tímaþjófinn þar sem hin ljóðræna melankólía springur fullþroska út í einstökum texta sem spunninn er úr (og skilyrtur af) þrá, aðskilnaði og söknuði. Húmorinn, írónían og ljóðræn melankólían setja sterkan svip á mörg þeirra verka sem á eftir koma (Kartöfluprinsessuna, Kúaskít og Norðurljós, Ástin fiskanna, Hanami og Hugástir). í verkum Steinunnar mætast húmorískt raunsæi, beitt íronía og ljóðræn melankólía og þessi „Laxnesska" blanda hefur markað henni sérstöðu og gerir enn.

III

Sem ljóðskáld hefur Steinunn vaxið með hverri bók. Þótt sá glettnislegi tónn sem sleginn var í fyrstu bókunum sé aldrei langt undan þá hafa ljóð hennar dýpkað og skírskotun þeirra víkkað, um leið og myndmálið verður æ sterkara og persónulegra. Að mínu mati hefur Steinunn náð að skapa sér einstakan ljóðheim þar sem margræðni tungumálsins verður sífellt beittari og markvissari. Hún er mikill meistari ljóðabálkanna (ég minni á hina frábæru ljóðabálka „Á suðurleið með myndasmið og stelpu“ og „Kartöfluprinsessuna“ í samnefndri ljóðabók og „Sjálfsmyndir á sýningu“ úr Kúaskítur og Norðurljós). Í Hugástum er einmitt um nokkra slíka bálka að ræða, þar sem ljóðin raðast saman í órjúfanlega og áhrifaríka heild.

Hugástir skiptist í fimm hluta. í fyrsta hlutanum sem nefnist „Nokkrar gusur um dauðann og fleira“ eru fjögur ljóð án titils sem öll fjalla á einn eða annan hátt um ævina og dauðann. Innra samhengi þessara ljóða er sterkt og segja má að hér sé um ljóðabálk í fjórum hlutum að ræða. Fjallað er um ævi mannsins sem:

 

gengur fram í hviðum,

hvimleiðum stundum, stendur svo í stað,

oft þegar síst skyldi, einmitt þegar við vildum að hún

geystist áfram.

Svo geysist hún áfram þegar við vildum að hún stæði í stað.

 

„Allt sem skiptir máli kemur [...] í hviðum“, segir ljóðmælandi: „Timburmenn, ástríðan, ergelsið.“ Og dauðinn getur hvenær sem er gert „árás sem er bæði sú fyrsta og síðasta“. Þetta fyrsta ljóð bókarinnar sýnir glöggt hversu góð tök Steinunn hefur á ljóðforminu, hún byggir það markvisst upp með endurtekningum, andstæðum og upphafsklifunum, hendingar ljóðsins tengjast hver annarri í órjúfanlegu samhengi óvæntra myndlíkinga. Lokalínurnar sýna þetta vel:

 

Hverfur allt, og allt sem kom í hviðum.

Hverfur hugást, sú ódrepandi, vertu sæl.

Hverfur hugsun um upphaf. Timburmenn. Klístur.

 

Annað ljóð þessa bálks fjallar um ástina (sem „er mest á morgnana [...] áður en dagurinn tvístrar“), örvæntinguna (sem „er sárust síðdegis“) og dauðann (sem „er mestur að morgni, fyrir dögun, eftir langa nótt“). Dauðinn er einnig yrkisefni þriðja ljóðs sem er afar falleg lýsing á þeim einkaheimi sem hverfur með sérhverjum einstaklingi. í fjórða ljóðinu lítur ljóðmælandi yfir ævina alla og setur fram þá kenningu að lífið gangi út á að ná sér: „eftir fæðinguna, upphafsöskrið [...] óhamingjusama æsku [...] göngutúr, magapest, dauðsföll, húsbyggingu, kelirí, kvef, símtal, uppvask, geðveiki, vinnudag, fullnægingu [...] ástarsorg. Ekkert er eins vonlaust og það [...]“. Og að lokum endar „litla lífið [...] Löngu áður en maðurinn nær sér / eftir símtalið, fullnægingu, kvef.“

Annar hluti ber sömu yfirskrift og bókin, það er „Hugástir“, og þar er að finna sex ljóð án titils sem aftur tengjast í gegnum yrkisefnið sem hér er ástin, þótt ekki sé hún oft nefnd á nafn í ljóðunum en er engu að síður sú tilfinning sem ort er út frá. Hvert ljóð bregður upp hárfínni mynd af tilfinningasambandi ljóðmælanda og einhvers sem ávarpaður er í annarri persónu: af ég-þú-sambandi sem tjáð er varlega en af dýpt sem snertir lesanda.

Þriðji hluti kallast „Ljóð utan af landi“ og samanstendur hann af sex ljóðum. Hér hefur hvert ljóð sinn titil og stendur sér þótt hinn sameiginlegi þráður, sem fram kemur í yfirskriftinni, sé til staðar. í þessum hluta skiptast á stuttar hnitmiðaðar náttúrumyndir þar sem höfundur leikur sér með margræðni tungumálsins og ljóðin fá því oft óvæntar skírskotanir („Hrútagirðingin“, „Stjarnan og fossinn“ og „Til sendibílstjórans“) og lengri frásagnarkenndari ljóð sem segja miklar sögur („Enginn í eyðidal“, „Návígi“ og „Ljósmynd handa syni“).

Fjórði hluti nefnist „Tvennur“ og hér er að finna fimm tvennur, alls tíu ljóð. Segja má að í hverri tvennu sé um að ræða tilbrigði við sama stef. Þessi ljóð bera höfundi sínum glöggt vitni, húmorinn og íronían ráða ríkjum, t.d. í tvennunni „Gamlar konur“ þar sem sagðar eru miklar sögur í stuttum og hnitmiðuðum texta. Í tvennunni um Heklu fer Steinunn á miklum kostum:

 

HEKLA I

 

Hekla framanverð er meyprinsessa

spengileg, grimm, á köflum banvæn.

 

Þessa hlið þekkir það

dauðlegt fólk sem skröltir á hringvegi.

 

Önnur Hekla blasir við görpum

sem hætta sér inn á hálendistómið:

 

Óþekkjanleg stútungskerling

breið og brussuleg aftanfyrir.

 

Verðlaun ofurhugans, segja hringsvegsmenn.

 

Fimmti og síðasti hluti bókarinnar ber yfirskriftina „Brotnar borgir“ og í honum er níu ljóð án titils. Hér yrkir höfundur um nafngreindar erlendar borgir (Sarajevo, Prag, Nanterre og Barcelona) en einnig um hugarborgir af ýmsu tagi. Þessi hluti minnir á síðasta kafla Kúaskíts og norðurljósa sem kallast „Ferðalög“. Í ljóðunum kallast innra líf ljóðmælandans á við hina ytri lýsingu á borgum með mikla sögu, fortíð og brostna drauma í farteskinu. Þessi ljóð eru á margan hátt margræðari og torráðnari en þau sem á undan koma og þurfa nákvæmari lestur svo merkingarheimar þeirra ljúkist upp. Hér er ofið saman á áhrifaríkan hátt minningum, tilfinningum, mannlífsmyndum og umhverfi og útkoman er oft á tíðum snilldarleg.

Hugástir er frábær ljóðabók, rökrétt framhald fyrri ljóðabóka Steinunnar sem heldur sífellt áfram að fága og hnitmiða ljóðmálið. Sérstaka athygli vekur markviss bygging ljóðanna og innra samhengi þeirra. Steinunn hefur afar góð tök á hrynjandi sem kemur gleggst í ljós þegar ljóðin eru lesin upphátt – sem ég mæli með að lesendur geri.

 

Ritdómurinn birtist í Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2000.