FEGURÐ MEÐ STÓRUM STÖFUM. Ungfrú Ísland
Auður Ava Ólafsdóttir. Ungfrú Ísland. Reykjavík: Benedikt 2018, 240 bls.
ÞAÐ eru engin smáræðis tákn sem dregin eru upp fyrir lesanda Ungfrú Íslands á fyrstu síðum bókarinnar og vísa til aðalpersónunnar. Þegar hún er í móðurkviði hnitar örn á flugi hringi yfir móðurinni – líklega kvenfuglinn, assan, sem flýgur svo aftur yfir bæinn daginn sem stúlkan fæðist. Dýralæknirinn sem tekur á móti henni lyftir barninu upp og mælir „Lux mundi. Ljós heimsins“ og í þeim orðum felast auðvitað mikil fyrirheit um leið og þau vísa til helsta skálds íslenskra bókmennta Ólafs Kárasonar ljósvíkings. Faðirinn gefur henni nafn eldfjalls, Hekla, og tekur þar með ráðin af móðurinni sem hafði hugsað sér annað nafn á barnið. Val föðurins er tilkomið vegna ástríðu hans fyrir eldfjöllum og eldgosum en vísar auðvitað líka til orða Jónasar Hallgrímssonar: „Ekki er heldur kyrrt eða dautt í innyflum jarðarinnar, því þar geisar jafnan geigvænlegasta og aflmesta höfuðskepnan, en það er eldurinn“, eins og segir í tilvitnun sem fer á undan kaflanum sem lýsir fæðingu Heklu. Af þessu má lesanda vera ljóst að mikið býr í stúlkunni sem fæðist í íslenskri sveit – í túnfæti Laxdælu - árið 1942 en sagan snýst síðan um að sýna svart á hvítu hversu erfitt er fyrir konu af þeirri kynslóð að fá að rækta sínu miklu hæfileika og njóta ávaxta þeirra.
Blundandi eldfjall
Það liggur beinast við að líkja frásagnarhætti Auðar Övu í þessari bók við blundandi eldfjall. Frásögnin er yfirveguð, róleg á yfirborðinu, virðist áreynslulaus og streymir áfram hnökralaus og heillandi. En ljóst er að undir niðri býr kraumandi eldur, höfundi liggur margt á hjarta, ekki síst staða kvenna og annarra jaðarhópa í samfélagi karlrembu og fordóma. Þá er líka viðeigandi að bókin endi á stuttum kafla með yfirskriftinni „Líkami jarðar“ þar sem jarðskjálfti ríður yfir og „opnast hefur rifa á jörðina“. Þau jarðarumbrot má vafalaust túlka á margskonar máta. Kannski vísa þau til þess að kvika sköpunargáfu Heklu sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið en einnig má geta sér til um að þau kallist á við samfélagsleg umbrot sem eru í farvatninu á síðari hluta tuttugustu aldar, á þeim tíma þegar frásögninni lýkur.
Ljóslifandi sögusvið
Rúmlega tvítug kemur Hekla úr sveitinni til borgarinnar með „sérleyfisrútu“ sem er átta klukkustundir á leiðinni til Reykjavíkur úr Dölunum. Á þeim fáu síðum sem lýsa ferðalaginu er dregin upp hnitmiðuð mynd af horfnum tíma, sögusviðið lifnar með lýsingum á óhefluðum malarvegum, reykjandi karlmönnum í rútunni og bílveiku barni. Ekið er framhjá bændum sem grafa skurði og ræsa fram mýrar, sem og hvalveiðistöðinni þar sem hvalskurðarmenn, löðrandi í lýsi „fletta af hvalnum rengi og spiki“ (30). Þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur endurlifa stemninguna sem fylgdi því að keyra um Hvalfjörð fyrir tíma jarðganga og það sama er að segja um Reykjavíkurlýsingarnar þar lífið á sjöunda áratug liðinnar aldar sprettur upp af síðunum.
Hlutskipti skálda
Tveimur andstæðum myndum af skáldum er laumað inn í frásögnina af rútuferðinni, þar sem Hekla situr og les Ulysses eftir James Joyce með orðabók að vopni. „Bjó ekki skáldkona á þessum bæ? Niðaði ekki einmitt í æðum hennar þessi kolgráa, straumþunga á, full af sandi og leðju“ (26) veltir Hekla fyrir sér og rýnir út um bílrúðuna. „Það bitnaði á kúnum, sagði fólk, því þegar hún sat við að skrifa um ástalíf og harmræn örlög sveitunga sinna, upptekin við að breyta sauðalitum í sólarlag á Breiðafirði, gleymdi hún að mjólka“. Það var svo „mikið óyndi í henni að eitt ljósbjart vorkvöldið hvarf hún ofan í silfurgráan hylinn í ánni [...] Hún fannst í silungsneti við brúna, vængstýft skáld var dregið á land í gegnsósa pilsi, með lykkjufall á sokkum, maginn fullur af vatni. – Hún eyðilagði netið, sagði bóndinn sem átti lögnina. Ég lagði fyrir silung en möskvarnir voru ekki gerðir fyrir skáldkonu. / Örlög hennar voru í senn víti til varnaðar og eina fyrirmynd mín að kvenkynsrithöfundi. / Annars voru skáld karlkyns“, segir Hekla og: „Ég lærði af því að segja engum hvað ég hugðist fyrir“ (27). Hin skáldamyndin sem laumast inn í frásögnina er vísun til Nóbelskáldsins sem keyrir annað hvort á „Buick, fjögurra dyra, árgerð 1954 [...] [m]eð firnagóðu fjaðrakerfi og öflugri miðstöð“ nema hann sé „kominn á grænan Lincoln“ (31). Ólík eru hlutskipti skálda.
Þéttar persónulýsingar
Líkt og segja má um sögusvið bókarinnar eru persónulýsingar hennar afar þéttar, áhugaverðar og sannfærandi. Segja má að aðalpersónur bókarinnar séu þrjár, auk Heklu eru það æskufélagarnir úr Dölunum: besta vinkonan, Ísey, og besti vinurinn, Jón John. Það er merkilegt að Hekla sjálf, sem segir söguna í fyrstu persónu lengst af frásagnarinnar, er sú persóna sem óræðust er og erfiðast að átta sig á. Vafalaust er það með vilja gert. Þótt sagan hverfist um hana, um möguleika hennar í samfélagi sem sér hana bara sem líkama en hefur lítinn áhuga á andlegum verðleikum, þá er hún fjarlæg persóna. Skýringin á því kann að vera að hún opnar ekki á tilfinningar sínar, líkt og Ísey og Jón John, en geta má sér til um að fyrir þær fái hún útrás í skrifum sínum, sem lesandi hefur engan aðgang að. Öðru máli gegnir um Ísey og Jón John; bæði birtast þau ljóslifandi með sín sterku einstaklingseinkenni, veikleika og styrkleika. Bæði mega þau líka kallast fulltrúar fyrir hvort sinn hóp.
Húsmóðirin
Ísey er heimavinnandi húsmóðir sem elskar sinn mann og börn, en berst hetjulega við draumana og gegn hæfileikum sem hún þarf að bæla en ræður illa við. Stórkostleg er lýsingin á henni þegar þær vinkonur hittast eftir langan aðskilnað og hún talar flaumósa, full tilfinninga og andstæðna:
Ég er svo glöð að sjá þig, Hekla. Segðu mér hvað þú ert að lesa. Ég get ekkert lesið. Mig langar svo til að lesa. Ég má þakka fyrir ef ég næ að lesa tvö ljóð áður en ég sofna [...] Það er svo mikil vinna að vera ein með lítið barn, Hekla. Við erum saman alla vikuna, allan daginn og líka á nóttunni á meðan Lýður er í brúarvinnunni fyrir austan. Ég vissi ekki að það væri svona dásamlegt að vera móðir. Að eignast barn er besta reynsla lífs míns. Ég er svo hamingjusöm. Það vantar ekkert í líf mitt. Bréfin þín hafa haldið í mér lífinu. Ég er svo einmana. Mér finnst ég stundum svo slæm móðir [...] (34-35)
Og ræðan heldur áfram og veitir okkur djúpa innsýn inn í drauma og þrár Íseyjar og þær skorður sem henni eru settar í hlutverki sínu sem eiginkona og móðir. Hún er skáld – líkt og Hekla – en ólíkt Heklu nærir hún ekki meðvitað með sér drauma um að þroska þá gáfu sína, hún getur bara ekki annað því allt verður henni að texta eða ljóði; hún er búin að skrifa sögu, leikrit, ljóð áður en hún veit af. Hún skrifar í dagbók („sem er þó ekki beinlínis dagbók“ (80)) sem hún felur í skúringarfötunni fyrir eiginmanninum, sem „myndi ekki skilja að ég eyddi tíma í að skrifa um það sem er ekki eða um það sem er liðið“ (42). Lýsingar hennar á hversdegi sínum, sem og næturdraumum, ólga af skáldskap: „Mér finnst best að skrifa í dagbókina í morgunskímunni. Á meðan útlínur heimsins eru enn óljósar. Það getur alveg tekið upp undir sex, sjö blaðsíður að birta hjá mér. Ég ímynda mér að það sé ekki ósvipað og hjá þessum Joyce“ (44).
Um nætur dreymir Ísey drauma sem hún óttast að boði henni mikinn barnafjölda (45, 82, 129, 209) og þegar hún verður ólétt í annað sinn fyllist hún örvæntingu, þrátt fyrir hamingjuna:
Finnst þér það ekki hræðilegt? Mér finnst það hræðilegt. Ég er svo hamingjusöm. Ég hef enga matarlyst. Ég var búin að hlakka svo til að fá nýsoðið slátur en ég held engu niðri. Þetta var ekki skipulagt en það verður gott fyrir Þorgerði að fá leikfélaga. Lýður er hamingjusamur. (95)
Það var svo þröngt um mig heima, bæjarfjallið lá ofan í túngirðingunni, mig langaði burtu. Ég varð ástfangin. Ég varð ólétt. Næsta sumar verð ég ein með tvö smábörn í kjallara í Norðurmýri. Tuttugu og tveggja ára. (96)
Homminn
Besti vinur Heklu, Davíð Jón John Stefánsson Johnsson, er fallegur, viðkvæmur ungur maður, sjómaður sem kvelst af sjóveiki, en þó ennfremur vegna þess að hann er „hómósexulisti“ sem níðst er á um borð, „alltaf verið að reyna karlmennskuna“ (47). Á þessum tíma voru „kynvillingar [...] vaktaðir af lögreglunni“ (49) og flestir „sem sækja í stráka [...] eru kvæntir fjölskyldufeður og bara hómósexúalistar um helgar“ (59). Jón John er fullur vanlíðunar og sjálfsfyrirlitningar. Hann samsamar sig Hallgrími Péturssyni, sem einnig þjáist, tengir kannski við „holdsveiki“ skáldsins. Jón John er hrifinn af fötum, kaupir tískufatnað á Heklu þegar hann er í siglingum og á saumavél sem hann lærði á strax í æsku. Hann dreymir um að komast í burtu og fá vinnu við búningagerð. Hann veit að í útlöndum er fleiri eins og hann og lætur sig dreyma „um heim þar sem er rúm fyrir alla“ (70).
Leyndarmálin jafngildu
Þegar Hekla og Jón John voru unglingar í Dölunum trúðu þau hvort öðru fyrir leyndarmálum sínum sem á þeim tíma voru jafngild. Þannig dregur höfundur hliðstæðu með þeim draumi konu að verða rithöfundur og samkynhneigðri þrá karlmannsins:
Þá segi ég honum það.
Að ég skrifi.
Á hverjum degi.
Fyrst hafi ég skrifað um veðrið eins og faðir minn og um birtubrigði yfir jöklinum handan við fjörðinn, ég hafi lýst því hvernig hvítt ský lá eins og ullarreyfi yfir jöklinum, síðan hafi bæst við fók, atburðir og staðir.
Mér finnst eins og margt gerist í einu, eins og ég sjái margar myndir og finni margar tilfinningar samtímis, eins og ég sé stödd á nýjum upphafspunkti og það sé fyrsti dagur í heimi og allt sé nýtt og hreint, segi ég við vin minn. Eins og á vormorgni í Dölunum sem lónar yfir Breiðafirðinum lyftist og raknar upp. Þá held ég á tónsprotanum og segi heiminum að hann megi verða til.
Á móti trúði fallegasti strákurinn í Dölunum mér fyrir því að hann elskaði stráka.
Við geymum leyndarmál hvort annars.
Það var jafngilt. (63)
Skáldskapurinn í hversdeginum
Baráttan sem vinkona Heklu, Ísey, heyr við sköpunarþrána speglar að sjálfsögðu þrá Heklu sjálfrar en munurinn er að Hekla er ekki fangi aðstæðna sinna, líkt og Ísey, og er staðráðin í að láta ekki buga sig – jafnvel þótt hún fái verk sín ekki útgefin og „enginn [sé] að bíða eftir skáldsögu eftir Heklu Gottskálksdóttur“ (69). Hekla gæti eflaust tekið undir orð Íseyjar þegar sú síðarnefnda hefur skynjað fegurðina í gegn um gat á sængurveri:
Mér fannst ég geta snert himininn með pennanum. Mér fannst ég standa skammt frá sjálfri mér og skilja það sem gerðist eins og það kæmi fyrir annan. Á eftir fór ég inn og skrifaði ljóð. Um sængurverið. Mér fannst ég hafa búið til fegurð. Ekki FEGURÐ með stórum stöfum eins og skáldin búa til, heldur með smáu letri, fegurð. Síðan hristi ég höfuðið yfir vitleysunni í mér. Elífðin er ekki í mínu sjónmáli. (104-105)
Óður til skáldskaparins
Öðrum þræði er Ungfrú Ísland óður til skáldskaparins og bóka, hún gerist á tímum þegar bókabúðir voru út um allt í miðbæ Reykjavíkur. Hekla „gengur framhjá útstillingargluggum Bókabúðar Snæbjarnar og Bókabúðar Braga Brynjólfssonar í Hafnarstræti á hverjum degi“ (38). „Í Hafnarstræti er einnig Bókabúð Norðra [...] Í Austurstræti er bókabúð Ísafoldar og bókabúðin Kron í Bankastræti, á Laugavegi bókaverslanir Máls og menningar, Bókhlaðan og Bókabúð Helgafells. Bókabúð Lárusar Blöndal er á Skólavörðustíg“ (84). Þetta er rúnturinn hennar Heklu. Þá á hún líka bókasafnskort á Bæjarbókasafninu í Þingholtsstræti þar sem hún er fastagestur (hún „skýst þangað líka stundum í hádeginu og [nær] þá að lesa eina ljóðabók“ (86). Hekla les og skrifar allar sínar lausu stundir, upplifir umhverfi sitt á skapandi hátt, skynjar FEGURÐINA – með stórum stöfum. Textinn úir og grúir að beinum og óbeinum tilvísunum til skáldskapar og reyndar einnig til myndlistar og jafnvel tónlistar. Það er listin sem fyllir líf hennar og gefur því gildi.
Fegurð, húmor, sársauki
Margt fleira mætti segja um þessa mögnuð skáldsögu Auðar Övu, sem er sú sterkasta sem hún hefur hingað til sent frá sér. Þótt grunntónn sögunnar sé sársauki þá setur frábær húmor líka sterkan svip á frásögnina, ekki síst þegar lýst er karlasamfélagi, hvort sem það eru matargestir á Borginni eða skáldahópurinn sem heldur til á Mokka og öðrum kaffihúsum þar sem listamenn hópast saman. Þá er lýsing á fegurðarsamkeppni sem „þurfti að fresta [...] þrisvar vegna rigningar og roks“ alveg kostuleg. Sú sem lýsir er fyrrverandi þátttakandi: „Við vorum í sundbol uppi á trépalli. Það voru bleytupollar á sviðinu og einni stúlkunni skrikaði fótur og sneri ökklann. Við þurftum að styðja hver aðra. Ég kvefaðist og á eftir fékk ég blöðrubólgu" (100).
Sögulok eru að mörgu leyti óvænt. Hvort Hekla sigrar eða tapar verður hver lesandi að gera upp við sig. Það er þó ljóst að hún lifir draum sinn, að minnsta kosti að einhverju leyti: Skapar heima og miðlar fegurð:
Ég held á tónsprotanum.
Ég get kveikt á stjörnu á svartri hvelfingunni.
Ég get líka slökkt á henni.
Heimurinn er mín uppfinning. (140)