SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 8. nóvember 2020

ASK VEIT ÉG STANDA. Undir Yggdrasil

Vilborg Davíðsdóttir. Undir Yggdrasil, Mál og menning 2020, 327 bls.

 

Þegar Vilborg Davíðsdóttir sendi frá sér lokabindið af þríleiknum um Auði djúpúðgu, voru margir lesendur líklega fullir löngunar eftir að heyra meira af lífi þessarar merkilegu konu sem var „afbragð annarra kvenna“. Enda var af nógu að taka því síðustu bókinni lauk ári eftir að Auður djúpúðga nam land á Íslandi og enn til nægt sögulegt efni að moða úr.

Þessi 800 síðna sagnabálkur um fyrstu landsnámskonu Íslands er merkilegt verk í íslenskum bókmenntum og hefur hlotið afar góðar viðtökur. Aðdáendur bókanna urðu því væntanlega himinlifandi að uppgötva að Vilborg sækir í sama knérunn í nýjasta verki sínu, Undir Yggdrasil, því aðalpersóna bókarinnar er sonardóttir Auðar, Þorgerður Þorsteinsdóttir.

Bókin hefst á erindum úr Völuspá sem lýsa askinum Yggdrasil, lífstrénu sem örlaganornirnar Urður, Verðandi og Skuld gæta. Yggdrasill á eftir að koma mjög við sögu og þeir örlagaþræðir sem nornirnar spinna sögupersónum eru oft og tíðum mjög óvægnir og grimmir. Á undan meginfrásögninni fer stuttur kafli, „Mæðgur“, þar sem aðalpersónan er kynnt til sögu og lýst fallegum samskiptum hennar og sjö vetra dóttur hennar, Þorkötlu Kollsdóttur. Þessir tveir „fortextar“ að meginfrásögninni gefa tóninn fyrir framhaldið og vekja grun um yfirvofandi hættu í huga lesandans, enda gefið upp á baksíðu bókarinnar að harmþrungnir atburðir tengist sjö ára „tátlunni“.

Meginkaflar skáldsögunnar eru fimm og yfirskriftir þeirra staðsetja frásögnina í tíma og rúmi. Sögutíminn nær frá miðsumri 894 til einmánaðar 902 og frásögnin ferðast á milli þriggja landa: Íslands, Noregs og Jamtalands, en Þorgerður sest að á síðastnefnda staðnum með seinni eiginmanni sínum, Herjólfi Eyvindarsyni. Í fyrsta huta er sagt frá fæðingu Þorkötlu, dóttur Þorgerðar og fyrri eiginmanns hennar, Kolls Veðrar-Grímssonar, og þar koma fram átök á milli heiðinna og kristinna siða og viðhorfa. Þorgerður hallast að heiðnum sið, hrífst af völvunni Gullbrá og vill læra listir hennar, en Auður amma hennar er kristin og hefur andúð á öllum heiðnum siðvenjum. Þótt Þorgerður læri ekki seið af Gullbrá á hún síðar eftir að nema þau fræði af seinni tengdamóður sinni, Finnu, í Jamtalanda. Mögnuð lýsing er á því þegar Þorgerður fremur sinn fyrsta seið og ferðast til undirheima þar sem hún nemur margt um atburði í fortíð og framtíð.

Þorgerður er óhamingjusöm í fyrra hjónabandi sínu, enda Kollur mun eldri en hún og sýnir henni lítinn áhuga. Höfundur leikur sér að þeirri hugmynd að Kollur hafi frekar hneigst til karla og er það þema hugvitsamlega ofið saman við frásögnina og vel með farið.

Líkt og þríleikurinn um Auði djúpúðgu er Undir Yggdrasil mikil kvennasaga enda yfirlýstur tilgangur Vilborgar að reyna að ná utan um það líf sem konurnar lifðu á landnámstíma. Mikið er lagt í lýsingar á störfum kvenna, hugsunum þeirra og kjörum. En það er þó fyrst og fremst sagan af örlögum dótturinnar, Þorkötlu, sem knýr frásögnina áfram. Hér verður ekki gefið upp hvernig öll sú flétta er saman sett en má þó geta þess að sögu Þorkötlu má tengja öllum þeim fjölda sagna sem komið hafa upp á yfirborðið undanfarin ár um ofbeldi gegn konum og stúlkubörnum.

Líkt og gildir um þríleikinn um Auði liggur mikil og vönduð heimildarvinna á bak við Undir Yggdrasil. Í eftirmála gerir Vilborg grein fyrir helstu heimildum sínum og lýsir hvernig hún nýtir úr þeim þræði sem hún spinnur saman í skáldsögunni. Þar er gildasti þráðurinn úr Laxdælu þar sem fram kemur að Þorgerður afræður að halda burt frá Íslandi „með fjárhlut sinn“ eftir að hún varð ekkja og er engin ástæða „gefin önnur en sú að hún festir ekki yndi á Íslandi“. Þorgerður siglir til Noregs með kaupskipi og eins og Vilborg bendir á finnast varla „nokkur dæmi þess í sagnabókmenntum að einhleyp kona ferðist á milli landa án fylgdar náins ættingja af karlkyni, ef frá er talin Auður djúpúðga.“ Sonardótturinni kippir greinilega í kynið.

Í Laxdælu kemur líka fram að Þorgerður giftist aftur, manni að nafni Herjólfur, „og takast með þeim góðar ástir“. Vilborg sækir einnig ýmis atriði til Landnámu, Njálu, Eyrbyggju, Egils sögu, Eiríks sögu rauða og Víglundar sögu, og auk þess til fornkvæða, þjóðsagna og sagnaþátta. Síðast en ekki síst er mjög skemmtilegt að sjá hvernig Vilborg nýtir sér rannsóknir fræðimanna á sviði fornbókmennta og fornleifafræði til að renna frekari stoðum undir skáldsöguna. 

Þannig á verkið til að mynda í samtali við rannsóknir Bergsveins Birgissonar sem hann gerir grein fyrir (og nýtir líka sjálfur til skáldskapar) í bók sinni Leitin að svarta víkingnum (2016). Einnig er sótt til rannsókna Gísla Sigurðssonar um tengsl norræna goðsagna og þeirra teikna sem birtast himinhvolfinu og lesa má um í bók hans Leiftur á horfinni öld (2013). Þessi vinnubrögð Vilborgar er til fyrirmyndar og auka mjög trúverðugleika þess heims sem skáldsagan lýsir.

Víst er að aðdáendur þríleiks Vilborgar verða ekki fyrir vonbrigðum með Undir Yggdrasil, bókin ber öll bestu einkenni höfundar síns; hún er afbragðs vel skrifuð, frásögnin haganlega saman fléttuð og spennandi frá upphafi til enda. Vilborg sýnir hugmyndaauðgi þegar hún skáldar í eyðurnar og tekst vel að tengja við málefni sem brenna á samtímanum. Hún leyfir sér einnig meiri fantasíu en í Auðarbókunum og vafalaust kunna margir vel að meta það. Stíll bókarinnar er mjög fallegur og auðveldur aflestrar þrátt fyrir að Vilborg sé óspör á sjalfdgæf orð úr fornu máli sem prýða textann. Ef eitthvað er hefur Vilborg náð enn betri tökum en áður á frásagnarhætti sínum, varla snurðu á honum að finna.

 

Sjá nánar um sagnaheim Vilborgar Davíðsdóttur:

Soffía Auður Birgisdóttir, „Afbragð annarra kvenna.“ Um þríleik Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu. Tímarit Máls og menningar, 2. hefti 2019.

ÞH. „Tekist á við upprunann.“ Viðtal við Vilborgu Davíðsdóttur. Bændablaðið 17. desember 2009.