SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir24. mars 2019

FIRNASTERKT BYRJANDAVERK. Kvika

Þóra Hjörleifsdóttir. Kvika. Reykjavík: Mál og menning 2019

„Hann er búinn að flysja mig eins og lauk. Ég er orðin að engu, umkringd skæni og mig svíður í augun.“ Þannig kemst Lilja, sögumaður skáldsögunnar Kviku að orði og vísar þar til kærasta síns. Í þessari fyrstu skáldsögu sinni lýsir Þóra Hjörleifsdóttir baneitruðu sambandi ungrar konu við karlmann sem hún telur sér trú um að hún elski. Og segja má að Þóra flysji í frásöginni hvert lagið af öðru utan af sambandi sem er dauðanum merkt frá upphafi. Frásögnin bregður upp hnitmiðaðri og óhugnanlegri mynd af því hvernig unga konan lætur vaða yfir sig á skítugum skónum og um leið hvernig kvarnast smátt og smátt úr sjálfsmynd hennar þar til ekki stendur steinn yfir steini.

Kærastinn hefur nákvæmlega ekkert við sig, annað en það að vera snoppufríður. Hann er eilífðarstúdent, óábyrgur, sjálfselskur og svikull. Hann kann sig ekki innan um annað fólk, sinnir ekki börnunum tveimur sem hann á og gengur stöðugt lengra og lengra yfir mörk Lilju, ekki síst í kynlífinu sem lýst er í smáatriðum á gróteskan hátt. En Lilju þykir spennandi hvað hann á margar bækur, sem hann sést þó aldrei lesa því hann hangir í tölvunni á milli þess sem hann horfir á dvd-myndir og fer út að skemmta sér. Þá finnst henni einnig spennandi að hann sé grænmetisæta, eins og hún, þau eru „saman í kjötlausa lífstílnum“ (12) og „honum finnst stelpur sem borða kjöt bara vera frekar ógeðslegar“ (12).

Fyrsti kafli bókarinnar ber yfirskriftina „Klamydía“ og þótt þar sé vísað til þess að Lilja smitaði kærastann í upphafi sambands þeirra af klamydíu en ekki hann hana, er freistandi er að halda því fram að hann sé í raun eins og kynsjúkdómur í lífi hennar. Sambandið virðist byggjast aðallega á kynlífi (þótt hann sæki það einnig til annarra kvenna) og í sambandinu veikist Lilja. Hann gat farið á tíu daga lyfjakúr og læknast - en engin lækning virðist vera á næsta leyti fyrir hana.

Þótt lesandi eigi bágt með að skilja hvers vegna Lilja forðar sér ekki úr sambandinu sem fyrst er lýsingin á niðurbroti hennar mjög sannfærandi og óhuganleg. Eftir sífelldar niðurlægingar og svik kærastans er hún rúin sjálfstrausti, fer að skaða sjálfa sig og sekkur í djúpt þunglyndi. Hún þarf á aðstoð geðlæknis að halda og hverfur inn í „lyfjasorg“ sem bætir ekki ástandið.

Sagan er sögð í stuttum köflum, vel skrifuðum og áhrifaríkum. Frásögnin er hrá og beinskeytt og andrúmsloftið sterkt. Þá dregur frásögnin vel fram hið tvöfalda siðgæði sem ríkir í samskiptum kynjanna þegar kemur að kynlífi. Hann má stunda kynlíf með öllum þeim konum sem honum sýnist en þolir ekki að hún hafi sofið hjá mörgum öðrum, orð eins og drusla og lauslát koma Lilju í hug um sjálfa sig - ekki um hann. En bókin birtir mjög firrt viðhorf gagnvart kynlífi almennt og vonandi sér ekki margt ungt fólk kynlíf tveggja einstaklinga í þessu ljósi: „tveir kjötskrokkar að hnoðast í leit að fullnægingu sem gæti fengið þá til að gleyma í smástund hvað líf þeirra væri innihaldslaust“ (27).

Snemma í sögunni segir Lilja: „[...] ég væri tilbúin að yfirgefa sjálfa mig til að elska þennan mann“ (32). Frásögnin sýnir einmitt það ferli, hvernig hún yfirgefur sjálfa sig, glatar sjálfsmyndinni fullkomlega. Sögulokin eru síðan einkar hrollvekjandi og lesandi situr eftir með óbragð í munni. Nema þá hann kjósi að sjá von í því hvernig frásögnin endar, það er opið til túlkunar geri ég ráð fyrir.

Kvika er firnasterkt byrjendaverk og óhætt að mæla með bókinni, ekki síst fyrir ungar konur því lesturinn gæti haft forvarnargildi og forðað einhverjum frá því að lenda í og viðhalda baneitruðum samböndum.