STÓRRÓMAN UM LISTAKONU I. Karitas án titils
Karítas, án titilis (2004)
Í upphafi skáldsögunnar Karitas án titils er dregin upp mynd af sturlaðri konu sem klifrar upp á bæjarburst í afskekktri vestfirskri sveit, situr þar klofvega með útrétta arma, fer með formælingar og gólar. Hin galna er vinnukona á heimili ekkjunnar Steinunnar Ólafsdóttur og barnanna hennar sex. Ekkjan umber „tryllingsköst“ vinnukonunnar, sem ber við himinn eins og kross á húsinu, veit að hún á sorgir sem stundum bera hana ofurliði. Sýnin brennir sig inn í vitund yngstu heimasætunnar, Karitasar, sem hefur teiknihæfileika og dregur upp myndina undir fyrirsögninni: „Karitas án titils, 1915 Blýantsteikning“. Þessi áhrifaríka mynd ber í sér forboða um það sem koma skal og gefur tóninn fyrir frásögn sem ber öll aðalmerki höfundar síns. Karitas án titils er fjörlega skrifuð saga, full af ógleymanlegum persónum og miklum örlögum; saga sem lýsir lífsbaráttu íslenskrar alþýðufjölskyldu á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar af fáséðri ástríðu og frásagnargleði. Í bakgrunni frásagnarinnar eru stórviðburðir heima og erlendis, í forgrunni er hlutskipi íslenskrar listakonu á tíma sem kunni ekki að tengja saman konur og listsköpun.
Skortur á stórrómönum
Í greinarkorni sem Kristín Marja Baldursdóttir skrifaði á bókmenntavef Borgarbókasafnsins veltir hún því fyrir sér „hvort auknar vinsældir ævisagna hin síðari ár megi rekja til skorts á stórrómönum.“ Það má til sanns vegar færa að meðal íslenskra nútímabókmennta er ekki að finna margar skáldsögur sem gætu fallið undir skilgreininguna „stórróman“, það er að segja skáldsögur sem spanna hundraðir blaðsíðna og hafa að geyma miklar örlagasögur margra persóna, jafnvel margra kynslóða. Slíkar skáldsögur voru aðall nítjándu aldar bókmennta: Dickens og Dostojevskíj, Balzac og Brontë, Selma Lagerlöf og Jón Trausti og svo mætti lengi telja. Þetta var lesefni fyrir þá sem lásu af ástríðu og gátu legið yfir bók svangir og kaldir þar til yfir lauk, eins og Kristín Marja kemst að orði. Kannski er Kristín Marja að reyna að endurvekja þessa hefð með þessari skáldsögu sinni. Bókin telur 447 blaðsíður og sagan um Karitas, móður hennar, systur og bræður er vissulega þeirrar tegundar sem maður liggur yfir og gleypir í sig; þetta er bók fyrir þá sem geta af sannri lestarástríðu lifað sig inn í örlög skáldaðra persóna og glaðst og grátið með þeim líkt og um nákomna ættingja væri að ræða. Er ég þá að halda því fram að Karitas án titils sé nítjándu aldar stórróman? Að sjálfsögðu ekki. Þótt hægt sé að tengja skáldsöguna við þetta blómaskeið stóru skáldsögunnar þá er bæði efnið og aðferðin sprottin upp úr okkar tíma enda aldrei hægt að endurvekja gamlar hefðir, þótt góðar séu, án þess að samtíminn setji sitt mark á þær. En Kristín Marja nýtir sér hið besta úr hefð hinna stóru rómana um leið og skáldsagan sver sig í ætt við hennar fyrri verk með frásagnarstíl sínum og ekki síst hinum litríka kvennafans sem lifnar á síðum hennar.
Á Akureyri
Karítas án titils skiptist í þrjá hluta. Sá fyrsti segir frá ekkjunni og sex barna móðurinni Steinunni Ólafsdóttur sem árið 1915 tekur sig upp af búi sínu á Vestfjörðum og flytur alla fjölskylduna norður á Akureyri í þeim tilgangi að koma börnum sínum til mennta. Með fátt annað í farteskinu en óbilandi hugrekki siglir hún með börnin – Ólaf, Pál, Halldóru, Bjarghildi, Karitas og Pétur – suðurleiðin, hringinn í kringum landið því hafísinn lokar norðurleiðinni. Með ötulli hjálp barna sinna tekst fátækri ekkjunni ætlunarverkið, en allir þurfa að leggja sitt af mörkum svo fjölskyldan eigi í sig og á og vinna börnin erfiðisvinnu ekki síður en hinir fullorðnu. Aðal lífsbjörg fjölskyldunnar er prjónavél húsfreyjunnar en elstu synirnir taka hvaða karlmannsvinnu sem býðst og eldri dæturnar ráða sig í vist hjá heldra fólki bæjarins. Allir sem vettlingi geta valdið vinna í síldinni fyrsta sumarið og móðirin geymir launin, raðar aurunum í stafla á kvöldin og engu má eyða svo hægt verði að ná saman endum um veturinn. Við baráttuna við fátæktina bætist svo baráttan við veðrið og áhrifaríkar eru lýsingarnar á frostavetrinum mikla árið 1918 þegar hafís lá upp að ströndum Norðurlands langt fram á sumar. Meðan eldri börnin vinna úti sér yngsta systirin Karitas um heimilið, þvær, eldar og lítur eftir litla bróður sínum Pétri. Karitas hefur munninn fyrir neðan nefið og reynist búa yfir miklum fortölumætti þegar kemur að því að tala við ráðamenn þorpsins, og útvegar fjölskyldunni bæði mannsæmandi húsnæði til að búa í og kol til upphitunar yfir veturinn.
Kaupmannahöfn - Siglufjörður
Þegar þessum fyrsta hluta sögunnar lýkur hefur ekkjan komið sonum sínum í gagnfræðaskóla, elsta dóttirin, Halldóra, er útlærð ljósmóðir, sú næsta, Bjarghildur er kvennaskólagengin og sú yngsta, Karitas er á leiðinni í Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn, kostuð af efnaðri frú í bænum sem hefur uppgötvað hæfileika hennar. Þegar annar hluti skáldsögunnar hefst hafa liðið fimm ár og Karitas er snúin aftur, útlærð í myndlist, og hyggst setja upp sýningu á verkum sínum í Reykjavík. En örlögin hafa ætlað henni annað hlutverk, hún fer í síldina á Siglufirði til að vinna sér inn peninga fyrir sýningunni, kynnist þar „fallegasta manninum á Íslandi“ og verður ólétt. Og án þess að hún komi nokkrum vörnum við er hún flutt austur á land þar sem hún verður að hokra við lítil efni meðan maður hennar, Sigmar, dvelur langdvölum burt frá heimilinu og á sjónum. Við tekur mikil þrautaganga ungu listakonunnar sem verður að lúta í lægra haldi fyrir því hlutverki sem náttúran hefur ætlað konum. Lýsing Kristínar Marju á hægu en öruggu sálrænu niðurbroti listakonunnar sem heyr sína glímu þar sem á takast kvenhlutverk og listþráin er gríðarlega áhrifarík og lýkur þessum hluta á risi sem hlýtur að senda hroll niður eftir bakinu á hverjum lesanda – og kallast á við upphafsmynd bókarinnar sem áður er lýst.
Í Öræfasveit
Þriðji og síðasti hluti bókarinnar gerist í Öræfasveit þar sem Karitas hefur verið komið fyrir með tvo syni sína í umsjár góðrar konu. Karitas hefur horft á eftir einu barni í gröfina og annað fóstrar Bjarghildur systir hennar, hreppstjórafrú í Skagafirði. Eiginmaðurinn er á bak og burt. Þegar þriðji hluti hefst hafa enn liðið mörg ár og Karitas hefur náð sér aftur á kjöl. En baráttan er síður en svo að baki og þegar eiginmaðurinn snýr aftur eftir þrettán ára fjarvistir fer aftur að hitna í kolunum. Hér verður ekki upplýst nánar um sögulok til að spilla ekki lestraránægju þeirra sem eiga eftir að lesa bókin, enda óvíst hvort um eiginleg sögulok sé að ræða. Ég fyrir mína parta vona svo sannarlega að Kristín Marja eigi eftir að skrifa framhald af skáldsögunni; að hér sé aðeins um að ræða fyrsta bindi stórrómansins um Karitas.
Skemmtilegar kvenlýsingar
Þótt hér hafi verið gefið yfirlit um efni skáldsögunnar er erfitt að koma í orð í hverju galdur hennar er helst fólginn. Hér á eftir verður þó gerð tilraun til að drepa á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi má benda á að fáir samtímahöfundar slá Kristínu Marju við þegar kemur að kvenlýsingum. Það varð strax ljóst í fyrstu skáldsögu hennar Mávahlátri (1995): unglingsstúlkan Agga og amma hennar og frænkur, ekki síst sú sem kom frá „Amríku“, Freyja, líða lesendum seint úr minni og ekki furða að bókin hafi bæði verið kvikmynduð og sett á svið, slíkt aðdráttarafl hafa konur Kristínar Marju. Það sama gildir um konurnar í Karitas án titils. Kvenhetjur Íslendingasagna koma upp í hugann aftur og aftur. Elsta systirin Halldór hryggbraut mestu hetjuna á Íslandi, hann Sumarliða, því hann sýndi henni of mikið fálæti framan af. Elskaði hún hann þó út af lífnu. Bjarghildur hreppstjórafrú er með skemmtilegustu kvenlýsingum allra íslenskra samtímabókmennta samanlagðra. Hún er síður en svo nokkur engill – jafnvel djöfulleg á köflum – en hefur ráð undir rifi hverju. Konurnar á Austfjörðum, sem allar heita karlmannsnöfnum, Högna, Kára, Karlína, Guðjóna, Sigurlína, Erlendína, Magnúsína og Eiríka (og minnir á að þær búa í samfélagi sem allt snýst um karlmenn), standa saman þegar þörf er á þótt þær sýni hvor annari fálæti dags daglega. Konurnar í Öræfasveitinni, sem allar bera nöfn kvenhetjanna úr Íslendingasögunum, taka við Karitas þegar hún hefur misst lífsviljann og hjúkra henni til lífs aftur. Allar bera þessar konur svo sterk persónueinkenni að þær verða ljóslifandi fyrir hugskotssjónum lesandans, og eru þó ekki allar konurnar sem við sögu koma upp taldar.
Vinna kvenna
Í öðru lagi má nefna að lýsingar höfundar á vinnu kvenna sem eru meðal athyglisverðustu þátta bókarinnar. Kristín Marja lýsir síldarsöltun og saumaskap, matargerð og þvottum, svo fátt eitt sé talið, af frábærri næmi og fjörleika og lýsingarnar taka stundum á sig allt að því goðsagnakenndan blæ. Svo er til að mynda farið um lýsingarnar á haustverkum Bjarghildar, sem er húsfreyja á myndarbúi í Skagafirði. Bjarghildur ber nafn með rentu og stjórnar sínu vinnufólki af list og eru lýsingarnar á sultugerð, víngerð og sláturgerð hreint óborganlegar. Beinast liggur við að tala um „kvenlegt sjónarhorn“ í þessu sambandi og nefna má einnig lýsingar á áhrifum salts á hendur síldarsöltunarkvenna, lýsingar á því þegar konur undirbúa komu barns í heiminn, og svo mætti lengi telja. Síðast en ekki síst eru lýsingarnar á listsköpun Karitasar. Myndir hennar fleyga með jöfnu millibili frásögnina og eru einu staðirnir í bókinni þar sem við fáum sjónarhorn hennar beint. Meginfrásögnin er hins vegar í þriðju persónu en víða er lýst listsköpun Karitasar, sem ætíð endurspeglar líðan hennar, oft á óhlutbundinn hátt enda er hún módernisti sem þráir „óreiðuna“ – sem mætir litlum skilningi samferðamannanna.
List kvenna
Víða í frásögninni koma verk þekktra íslenskra listakvenna upp í hugann, til að mynda þegar verið er að lýsa vinnu kvenna. Ekki veit ég hvort Kristín Marja er að beinlínis að vísa til þessara verka (ég nefni til dæmis málverk Kristínar Jónsdóttur) en ekki þykir mér það ólíklegt, enda væri það fullkomlega í anda bókarinnar sem á kannski það erindi framar öðru að vekja athygli á hlutskipi íslenskra listakvenna fyrr á tímum. Þótt vissulega haft margt breyst til batnaðar í þeim efnum á okkar tímum, vekur það mann engu síður til umhugsunar um mat á listsköpun íslenskra kvenna að þessi skáldsaga sem hér er til umræðu komst hvergi á blað þegar verið var að tilnefna íslenskar bækur ársins 2004 til verðlauna.
Ritdómurinn birtist í Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2005.