SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir12. mars 2018

STÓRRÓMAN UM LISTAKONU II. Óreiða á striga

Óreiða á striga (2007)

Saga listakonunnar Karitasar sem átti í óblíðum átökum við þær systur skyldu og sköpunarþrá og sögð er í skáldsögu Kristínar Marju Baldursdóttur Karitas, án titils vakti bæði aðdáun og samúð lesenda, jafnt innlendra sem erlendra. Bókin var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2006 og hlaut mikið lof í fjölmiðlum á Norðurlöndum auk þess sem hún hefur fengið afar góðar viðtökur í Þýskalandi. Óhætt er að segja að margir hafi beðið spenntir eftir framhaldinu sem Kristín Marja sendi frá sér síðastliðið haust og kallast Óreiða á striga. Óreiða á striga er mikil bók, bæði að vöxtum og efni. Verkið telur 541 síður og samanlagt eru bækurnar tvær tæpar 1100 síður. Enda er verkefni höfundar metnaðarfullt því Kristín Marja segir hér ekki bara sögu einnar íslenskrar listakonu heldur má segja að í bókunum bregði hún upp sögu íslenskra kvenna á tuttugustu öld enda lifir aðalpersónan öldina alla, er fædd í aldarbyrjun og deyr í aldarlok. Karlpersónur koma að sjálfsögðu einnig við sögu en það er líf kvenfólksins sem er viðfangsefnið og konur eru ætíð í miðju frásagnarinnar. Þetta stórvirki Kristínar Marju er mjög vel heppnað; hér er um að ræða breiða epíska skáldsögu, eins og þær gerast bestar, en um leið leikur höfundur sé að forminu á nýstárlegan hátt, til að mynda með lýsingum á listaverkum Karitasar. Eins og vænta má koma fjölmargar persónur við sögu og frásögnin berst víða um heim. Sagan logar af frásagnargleði og húmor um leið og tekist er á við alvarleg vandamál sem konur hafa þurft – og þurfa enn – að glíma við í karlmiðjuðu samfélagi.

 

Ólík frásagnaraðferð

Þótt Óreiða á striga sé framhald á Karitas án titils hefur hvor bók sín sérkenni og Kristín Marja virðist meðvituð um að ljá bókunum hvorri sinn karakter. Þannig breytir hún frá þriðju persónu frásögn fyrri bókarinnar til fyrstu persónu frásagnar í síðari bókinni sem hefur mikið að segja fyrir upplifun lesandans. Í stað þess að sjá Karitas utan frá sjáum við nú heiminn með hennar augum og erum beintengd við tilfinningar hennar. Þetta er henni ekki alltaf í hag, samúð lesandans getur minnkað þegar persónueinkenni sem túlka má sem óbilgirni, eigingirni og þvermóðska koma fram frá „fyrstu hendi“. En aðferðin færir aðalpersónuna að sjálfsögðu nær lesandanum; við kynnumst Karitas með öllum hennar kostum og göllum og fylgjum henni á leiðarenda. Í fyrri bókinni var frásögnin fleyguð með lýsingum á listaverkum Karitasar sem voru einu textabrotin þar sem hennar eigið sjónarhorn kom fram. Þessu snýr höfundur nú við, enn er meginfrásögnin fleyguð með lýsingum af listaverkum Karitasar en það er ekki lengur hún sjálf sem lýsir hugmyndum sínum og aðferð heldur virðist textinn nú skrifaður af listfræðingi sem lýsir verkunum og reynir um leið að tengja þau við líf listakonunnar. Lesandinn hefur sjálfur fylgst með tilurð listaverkanna í meginfrásögninni og ekki koma lýsingar listfræðingsins alltaf alveg heim og saman við það sem lesandi veit. Kannski er höfundur hérna í aðra röndina að benda á að fræðingarnir geta átt það til að oftúlka og mistúlka með rýni sinni og leita jafnvel langt yfir skammt í útskýringum sínum. Sem dæmi um má nefna hvítu málverkin sem Karitas sýnir á fyrstu sýningu sinni í París þar sem myndefnið er sótt í hvítan þvott á snúru og form hinnar „mjúku hvilftar“ legsins. Listgagnrýnendur sýningarinnar sjá hins vegar jökullandslag og kynferðislegar tilvísanir í verkunum, sem þeir eru mjög hrifnir af.

Reykjavík-París

Óreiða á striga deilist niður í fjóra hluta. Fyrsti hlutinn gerist á miðjum fimmta áratugnum og Karitas sem komin er á miðjan fimmtugsaldur býr ein á Eyrarbakka og málar myndir fyrir væntanlega sýningu í Reykjavík og síðan ætlar hún til Parísar að njóta listalífsins. Hún er „gift kona án eiginmanns, móðir án barna“ og hefur loksins nægan tíma til að sinna listsköpun sinni eða allt þar til sonur hennar, Sumarliði, kemur í heimsókn með dóttur sína Silfá og minnir hana á skyldur hennar sem ömmu. Barnsmóðir Sumarliða hefur stungið af og sjálfur hefur hann fengið skipsrúm og barnið skilur hann eftir hjá Karitas án samþykkis hennar. Nauðug viljug er Karitas enn og aftur lent í uppeldis og umönnunarhlutverkinu en hún lætur það ekki koma í veg fyrir áætlanir sínar og heldur með barnið til Parísar. Karitas binst barninu að sjálfsögðu sterkum böndum og þessum fyrsta hluta lýkur með áhrifamiklu risi þegar karlmennirnir í lífi Karitasar, eiginmaður hennar, sonur og elskhugi, bregðast henni illa.

New York - Reykjavík

Í upphafi annars hluta er Karitas aftur komin til Íslands til að vera við jarðarför móður sinnar. Mörg ár hafa liðið frá lokum fyrsta hluta og Karitas hefur búið í New York og hlotið mikla viðurkenningu sem listamaður. Þegar bróðir hennar býður henni gott húsnæði á Laugaveginum, stóra íbúð og vinnuloft, ákveður hún að dvelja heima um hríð og áður en varir hefur safnast að henni litrík kvennahjörð: Pía, drykkfelld vinkona frá árum áður; sonardóttirin Silfá; Karlína gömul frænka Sigmars (eiginmanns Karitasar) sem hafði verið henni innan handar á barneignarárunum fyrir austan og er í Reykjavík að leita sér lækninga og síðast en ekki síst hin þýskættaða Herma Reimer, fyrrverandi mágkona Karitasar, sem hún fær til að stjórna heimilishaldinu þegar allt er að fara úr böndunum. Í lýsingunni á þessu kvennasambýli á Laugaveginum á sjöunda áratugnum fer Kristín Marja á flug í gamansemi eins og yfirleitt þegar hún stefnir saman mörgum kvenpersónum. Hún hefur gaman af að ýkja og stækka persónurnar og samskipti þeirra og því mætti allt eins lýsa sem svo að karnivalið og melódramað væru þau módel sem hún tæki mið af. Hvort tveggja er vandmeðfarið en Kristín Marja hefur góð tök á þessum frásagnarstíl og fer beinlínis á kostum þegar hún lýsir samskiptum kvennanna. Átakamikið kvennasambýlið tekur sinn toll af orku Karitasar um leið og það er henni innblástur við listsköpunina eða kannski væri réttara að segja að hún notaði listina til útrásar þegar kvennafansinn lætur sem hæst. Lýsingin á verki Karitasar „Skrækir“ frá 1964 hefst þannig: „Gargandi hænur á priki er síðasta myndin í röð ádeiluverka um hlutskipti kvenna og örlög sem Karitas vann á sjöunda áratugnum. Á prikunum sem eru skökk og skæld í lausu lofti og vísa skáhallt hvert á annað sitja hænur saman í hópum, sumar hauslausar, aðrar með mikla brúska á hausnum sem í hanga hárrúllur. Á þeim hauslausu hanga rúllurnar í fjöðrum vængjanna. Mikil ólga ríkir í búinu, hænurnar gogga hver í aðra og þær hauslausu nota vængina til að berja á þeirri sem næst situr. Sumar eru því að falli komnar. Fyrir neðan prikin er litríkur hani sem étur allt fóðrið í makindum“ (348). Hinir ýktu drættir sem Kristín Marja notar í persónulýsingum sínum og gefa mörgum kvenpersónum hennar sterk einkenni virka reyndar ekki eins vel þegar hún lýsir karlmönnum. Ástæðan er sú að mynd þeirra er einsleitari, hún nostrar ekki við karllýsingar á sama hátt og hún nostrar við kvenlýsingarnar. Þetta gerir karlmennina í lífi Karitasar að dálítið óljósum og svarthvítum verum. Þeir eru allir ótrúlega hávaxnir, fjallmyndarlegir og hafa mjög sterk áhrif á konur en nokkuð skortir á dýptina í lýsingum á þeim. Síðastnefnda atriðið teygir þá, að mínu mati, fulllangt í átt til melódramatískra ástarsagna sem bækurnar um Karitas eiga að öðru leyti fátt sameiginlegt með. Einnig verður að nefna að Kristín Marja fer fulllangt með persónu Bjarghildar, systur Karitasar, sem í fyrri bókinni var bráðskemmtilegur kvenskörungur og frekja en er hreinlega illa innrætt og einhliða í þeirri síðari.

Til Rómar

Annar hluti Óreiðu á striga endar á áhrifamiklu risi, líkt og sá fyrsti. Frásögnin af þeim atburðum sem því tengist er með myrkari þáttum bókarinnar og fer höfundur vel með það efni. Þriðji hlutinn gerist í Róm í upphafi áttunda áratugarins en þangað er Karitas komin í fylgd Hermu vinkonu sinnar og Bjarghildar systur sinnar sem er í pílagrímsför og vill fá fyrirgefningu páfans fyrir allar sínar syndir – þó ekki sé hún kaþólsk. Þær systur, sem báðar eru komnar yfir sjötugt, upplifa borgina á mjög ólíkan máta og gefur það höfundi tilefni til margra kómískra kafla. Karitas reynist sjálf eiga persónulegt erindi að rækja í Róm því hún vill kynna sér ávexti af framhjáhaldi eiginmannsins sem þar búa. Karitas hefur hvorki viljað búa með Sigmari né skilja við hann og hann aldrei sóst eftir skilnaði, þvert á móti dúkkar hann upp með vissu millibili og óskar eftir því að þau búi saman. Þó Karitas gefi upp þá ástæðu að hún vilji ekki skilja við hann vegna þess að þá fái hún helming eigna hans, sem hún kæri sig ekki um, og vilji ekki búa með honum því þá lendi hún óhjákvæmilega í þjónustuhlutverkinu, ber hún alla tíð miklar tilfinningar til hans. Samband þeirra er haltu mér slepptu mér samband ævina á enda.

Í lokahluta bókarinnar er Karitas alkomin heim í faðm íslenskrar náttúru eftir áratuga fjarvistir í París og New York þar sem hún hefur skapað sér nafn sem mikill listamaður. Þau Sigmar eiga saman skamman en góðan tíma áður en hann deyr en Karitas lifir fram undir aldarlok og verður tæplega hundrað ára gömul. Endalokum hennar er lýst á fallegan máta og kallast á við þekktar lýsingar á dauða aðalkvenpersóna kvennabókmennta (nefna mætti The Awakening eftir Kate Chopin). Það er reyndar eitt einkenni á þessu verki Kristínar Marju að í því má finna ótal vísanir til þekktra kvenhetja íslenskra og erlendra bókmennta sem skiljanlegt er að höfundur vilji tengja verk sitt við. Saga Karitasar er tvímælalaust með bestu „stórrómönum“ sem komið hafa út á Íslandi í háa herrans tíð því höfundi er einkar lagið að draga upp margþætta og breiða samfélagslýsingu sem myndar sannfærandi bakgrunn fyrir eina athyglisverðustu persónusögu íslenskra samtímabókmennta. Saga Karitasar veitir okkur góða innsýn í líf og kjör listakvenna á síðustu öld, og þótt Karitas nái að öðlast frægð og frama í list sinni þá er það henni oftast dýrkeypt. Í þessu verki hefur Kristínu Marju tekist ætlunarverk sitt með sóma; að gera sögu íslenskra kvenna skil á svo eftirminnilegan hátt að aðdáun vekur.

Ritdómurinn birtist í Tímariti Máls og menningar 1. hefti, 2008.