SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir22. nóvember 2018

Á LEIKSVIÐI LÍFSINS. Í huganum ráðgeri morð

Ljóðabókin Í huganum ráðgeri morð eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur telur 76 blaðsíður og er fremur sjaldgæft núorðið að sjá svo langa og efnismikla bók í þessum flokki. Eyrún Ósk hefur þegar getið sér gott orð á sviði bókmennta, hún hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa (2016) og hefur áður sent frá sér fjórar skáldsögur, barnabók, unglingabók og þrjár ljóðabækur. Þá á hún að baki feril sem leikari og leikstjóri, hefur skrifað leikrit og birt greinar. Eyrún Ósk hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir skrif sín og önnur störf.

Í huganum ráðgeri morð eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur

Heildarhugsun

Strax á fyrstu síðum þessarar bókar verður líka ljóst að hér er enginn viðvaningur á ferð og sú vissa styrkist við áframhaldandi lestur. Sterk heildarhugsun liggur að baki bókarinnar, hér er unnið með leikhúsið sem ramma, persónur og leikendur birtast í ólíkum hlutverkum á sviðinu og kljást við spurninguna: „Að vera eða ekki vera“ (9) og aðrar spurningar sem snerta jafnt hversdagslífið og tilvist mannsins. Framarlega í bókinni er texti með yfirskriftinni „1. þáttur“ þar sem kynntar eru til sögunnar persónurnar „Slétt yfirborð“ og „Botnlaus örvænting“ (14) og í vissum skilningi má segja að þær takist á bókina á enda. Það er þó ekki frítt við að sú síðarnefnda hafi yfirhöndina, dökkur tónn ríkir í mörgum ljóðanna þótt húmorinn sé aldrei langt undan.

Tjaldið frá

Bókin skiptist í fjóra hluta sem eru afmarkaðir með fyrirsögnunum Tjaldið frá, Gríman fellur, Dregin niður í svart og Bylting og óstýrilátir draumar. Í fyrsta hluta birtast endurteknar myndir af leikhúsi sem brennur, af vofum sem reika um sviðið, af tómeygum áhorfendum og þögn. Vísað er til Lorca: „Þú verður að tortíma leikhúsinu / eða lifa og hrærast í því“ (6) og ljóðveran veltir fyrir sér hvort hún eigi að „Standa á sviðinu / keik / brenna með leikhúsinu / deyja ella / hverfa inn í vitundarleysið“ (9). Bakvið þrána eftir að brenna leikhúsið til grunna liggur að sjálfsögðu von um að rísa úr öskunni (5) og skapa eitthvað nýtt.

Sköpunarþráin og óttinn við endurtekninguna eru þemu sem lúra víða í undirtexta ljóðanna sem og staða kvenna. Ort er um Sigrúnu „fósturdóttur / Sigurðar bónda“ sem er „húsleg / hjartahrein / og leggur sálina / í saumaskapinn / á meðan hún bíður / þolinmóð / örlaga sinna“ og Staðar-Gunnu „sem gerir uppreisn / gegn handavinnunni / byltingu gegn staðalímyndum / og reynir / að hafa áhrif / á framtíð sína“. „Hún keyrir söguna áfram“ (18) ályktar ljóðveran sem sjálfa langar jafnt til „að eignast fleiri börn“ og „gera plan“, sem og að „miða áfram“ og „marka spor“ (19). Þetta er hin eilífa togstreita kvenna:

 

Hugsa um Nóru
um brúðuheimilið
og berst við að ná andanum
á helvítis sviðinu. (20)

 

Gríman fellur

Í kaflanum Gríman fellur er ort um ástar-haturs-samband skáldsins og gagnrýnandans. Ort er um heimsþekkta listamenn sem voru vanmetnir af vanhæfum gagnrýnendum sem báru ekki kennsl á snilldina. En það er kannski óskastaðan að vera vanmetinn af samtíma sínum og skáldið spyr:

 

Er til of mikils mælst
að fá að vera
hæfilega
vanmetinn
listamaður?
 
Kannski ekki ofsóttur
hataður
eða brenndur á báli
 
[...]
 
Bara svona örlítið misskilinn
án skelfilegra afleiðinga
eða óþæginda
og fjárhagslegs tjóns. (32)
 

Háð ljóðmælanda beinist í báðar áttir, til skáldsins og gagnrýnandans en það er þó tilhugsunin um þann síðarnefnda sem fær ljóðmælanda til að „ráðgera morð“ (36) – eins og segir í bókartitli:

 

Nornapotturinn
á sviðinu
í 1. þætti Macbeth
sýður bein
gagnrýnandans
frammi fyrir
grunlausum áhorfendum
þriðju sýningar
 
„ljótt er fagurt, fagurt er ljótt ...“
 
blygðast mín ögn,
harma hefnigirnina,
lofa bótum og betrun
 
og þó. (37)
 

Dregin niður í svart

Í þriðja hluta, Dregin niður í svart, er áfram unnið með myndmál úr leikhúsheimi en hér er ort um ótta skáldsins við afhjúpun og getuleysi, óttann við að opinbera „myrkar kenndir / og leyndarmál“ (53), eða þá „afhjúpun / að lesandinn komi auga / á tilgerðina“ (55). Jafnframt er ort um óttann við áhrif og þrána eftir að skapa: „dreymir hljómkviður / og stjörnur / þrái eitthvað stærra, / meira, mikilfenglegra“ (58).

 
 

Bylting og óstýrilátir draumar

Upphafsljóð síðasta hlutans, Bylting og óstýrilátir draumar, hefst á kröftugu ljóði sem í mínum huga kallast skemmtilega á við upphafsljóðið í nýrri ljóðabók Lindu Vilhjálmsdóttur, Smáa letrið. Linda yrkir um konur sem kallaðar eru á sviðið: „allar fjallkonur landsins“ og þær streyma „misvænar / niður á völlinn“ frá örófi alda fram til nútímans „druslurnar // stífmálaðar / í of flegnum blússum // of þröngum / og of stuttum pilsum“ og í lok ljóðsins „stígum við fram // allar fjallkonur landsins / fullvalda og sjálfstæðar“. Ljóð Eyrúnar Óskar er svona:

 

Gætið að
þær koma
 
brjótast út
af tjaldinu
af sviðinu
úr handritinu
úr hugarsmíðum
 
gjalda
líku
líkt
 
stíga ekki
til hliðar
fyrir hann
bíða ekki
þolinmóðar
fyrir hann
lækka ekki
róminn
fyrir hann
fórna ekki
sér
fyrir hann
 
ýta honum til hliðar
kasta honum fyrir róða
 
hertaka söguna
gera hana að sinni
brýna hnífa
skerpa klær
hefja upp raust
heimta blóð
 
þið öll sem brugðust
varið ykkur
vitið til
þær koma. (66-67)

 

Síðar yrkir skáldið um það að „skora gyðjuna á hólm“, hún beitir bellibrögðum, vanhelgar formið, forsmáir orðið og gerir uppreisn:

 

fokk fegurð
fokk kvenleika
 
fokk kynþokka
fokk tilætlunarsemi
fokk skynsemi
fokk velsæmd
fokk varkárni
fokk ráðvendni
fokk forpokum
 
[...] (69)
 

Kraftmikið ljóðmál

Það er kraftur í þessum ljóðum Eyrúnar Óskar, sterk heildarhugsun og áhrifamikið myndmál. Í huganum ráðgeri morð er bók sem óhætt er að mæla með og á öruggan samastað í þeim stóra flokki áhugaverðra ljóðabóka sem bókmenntaunnendum er boðið upp á þetta haustið.