SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir17. apríl 2019

ÓÐUR TIL LISTARINNAR

Vigdís Grímsdóttir: Kaldaljós. Reykjavík: Mál og menning 1987.

Í smásagnasafni Vigdísar Grímsdóttur Eldi og regni sem kom út 1985 er smásagan: „Og himinhátt fjallið í hvítum klæðum“. Þar segir frá dreng/listamanni úr litlu þorpi sem hefur farið burt að nema fiðluleik, en er kominn aftur heim til að spila fyrir fólkið sitt. Saman við lýsingarnar á fiðluleiknum fléttast minningar listamannsins um hörmulegan atburð; þegar fjallið sem umlykur þorpið braust úr snjófjötrum sínum og ruddist miskunnarlaust yfir hús og menn. Þessi saga er nokkurs konar fyrirboði skáldsögunnar Kaldaljóss sem Vigdís hefur nú sent frá sér. Ytri rammi sögunnar er sá sami; drengurinn/listamaðurinn, snjóflóðið, samruni listarinnar og náttúrunnar / náttúruhamfaranna, hið hreinsandi/frelsandi eðli listsköpunarinnar.

Í Kaldaljósi er list drengsins myndlistin en ekki tónlistin og frásögnin er löng og ítarleg, en grundvallarhugmyndin er sú sama. Í víðum skilningi má tala um Kaldaljós sem þroskasögu listamanns. Frásögnin fylgir aðalpersónunni, Grími Hermundarsyni, frá barnsaldri fram á fullorðinsaldur, þegar hann hefur numið list sína og að vissu leyti náð því takmarki sem honum var mikilvægast. Hinn ytri rammi sögunnar er því rammi hefðbundinnar þroskasögu listamanns, en þó sker Kaldaljós sig frá slíkum sögum á margvíslegan hátt.

Það sem gerir söguna einstaka meðal annarra þroskasagna er fyrst og fremst persónulýsing Gríms Hermundarsonar. Grímur er andstæða hinnar „intellektúal“ listamannstýpu sem algengast er að hitta fyrir í slíkum þroskasögum. Hann er tengdur náttúrunni og ímyndunaraflinu, skynjun hans á umhverfinu og „veruleikanum“ nær langt undir yfirborð hlutanna, í list hans brjótast fram „dulrænir“ kraftar og fyrirboðar. "Snertitrú finnst honum fátœkleg af því að hann veit að á sumu er ekki hœgt að snerta . . . Misskilningur snertitrúarmanna er versti skilningur í heimi" (8—9.) Þessi orð standa í fyrsta kafla bókarinnar og gefa tóninn fyrir söguna í heild.

Saman við frásögnina af lífi og hugsunum Gríms fléttast ýmsir dularfullir og óútskýranlegir hlutir. Veröld Gríms er hinn íslenski „veruleiki“ með öllum þeim „óveruleika“ sem hann býr yfir; hjátrú, draumum, fyrirboðum o.s.frv. Nátengd náttúrueðlinu í persónu Gríms er barnsleg einlægni sem fylgir honum söguna á enda, hann tapar aldrei „barninu“ í sjálfum sér nema ef vera skyldi á því tímabili í lífi hans sem frásögnin spannar ekki beinlínis, árin eftir snjóflóðið. Þessir tveir þættir í persónulýsingu Gríms; náttúrueðlið og einlægnin, gefa sögunni allri óvenjulegt yfirbragð hlýju og væntumþykju, sem skilar sér ennfremur í frábærlega fallegum og ljóðrænum stíl höfundar.

Sagan er í tveimur hlutum. Fyrri hlutinn segir frá barnæsku Gríms og lífi hans í litlu sjávarþorpi. Lýst er innilegu sambandi hans við foreldra sína og systurina; Gottínu, sambandi hans við góðu nornina; Álfrúnu, og ást hans á ungri ófrískri konu; Önnu. Frásögnin snýst þó aðallega um hugsanir hans og tilfinningar, upplifun hans á umhverfi og náttúru, þar sem fjallið Tindur er sem upphaf og endir alls, faðmur sem umlykur heim Gríms, miðpunkturinn í öllum teikningum hans og að lokum óbein orsök hins óhugnanlega harmleiks í lífi Gríms, þegar það svipti hann öllu því fólki sem hann elskaði. Þessi hluti bókarinnar endar í áhrifamiklu risi, snjóflóðinu, sem þrátt fyrir vandlega undirbyggingu kemur lesanda í opna skjöldu og veldur „sjokki".

Síðari hlutinn hefst þegar tíu ár eru liðin frá snjóflóðinu. Hlutarnir tveir eru tengdir saman með ljóði sem lýsir í fáum, hnitmiðuðum orðum því ástandi sem Grímur hefur búið við þessi tíu „týndu“ ár:

 

Og öskur hans hljóðna
verða í hjartanu söknuður
nístandi angist
hatur
og þögn.
Og þráin að elska andlit lífsins
horfin í vatn, fjall og mold
uns lifna á ný Ijós, litir og ást (217)
 
 

Eins og síðasta ljóðlínan segir fyrir um lifnar Grímur þó við aftur. Það rennur upp fyrir honum ljós. Í tíu löng ár hefur hann verið ákveðinn í að hugsa ekki til baka, „festast í minninganeti tímans og hamast þar einsog hálfdauöur fiskur“ (221), heldur lifa í gleymsku og þögn, og hætta að teikna. Þessu tímabili svartnættis er, eins og áður segir, ekki lýst nema í stuttu máli og einstaka svipmyndir frá því skjóta öðru hvoru upp kollinum í hugsunum Gríms.

Seinni hluti sögunnar hefst á þeim tíma þegar ljósið er að renna upp fyrir Grími, á endurfœðingu hans. Hann segir frá myndlistarnámi Gríms í Reykjavík, sambandi hans við þrjár konur: litla stúlku; Svövu, gamla konu; Huldu, og Bergljótu; ástina hans. Hér má sjá hringbyggingu verksins, en sú hugsun að lífið gangi í hring, atburðir endurtaki sig (í lítið breyttri mynd), er gegnumgangandi í allri sögunni (og raunar er það lífsskilningur sem Álfrún miðlar Grími). Samband Gríms við konurnar þrjár er sem endurómur af liðinni tíð: Álfrún/Hulda, Gottína/Svava og Anna/Bergljót. Líf Gríms sjálfs er einnig hringferli; frá sakleysi og gleði æskuáranna, í gegnum svartnætti sorgarinnar, og aftur til ljóssins, sakleysisins og gleðinnar í seinni hlutanum. Þessi hringhugsun er nátengd þeirri tímahugmynd sem fram kemur í sögunni, hefðbundnum skilningi á tíma er varpað fyrir róða, tíminn er frekar eitthvað sem býr innra með manninum og ekki verður auðveldlega útskýrt eða niðurnjörvað. (Athyglisvert er að svipaða tímahugmynd er að finna í Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur.) Seinni hlutinn endar einnig á áhrifamiklu og vel undirbyggðu risi. Í gegnum list sína nær Grímur að endurskapa og endurupplifa fortíðina og þannig endurheimta fólkið sitt, ástina og ljósið.

Andstæðurnar gott og illt, ljós og skuggi eru gegnumgangandi í allri frásögninni. Þær birtast í mönnunum jafnt sem náttúrunni og tengjast fyrrnefndri hringhugsun sögunnar. Eins og hin lífgefandi og deyðandi náttúra sýnir andstætt eðli sitt í rás frásagnarinnar upplifir Grímur sömu andstæður í sjálfum sér. Tími sorgarinnar var einnig tími vonskuverka og fólsku. Grímur á til fleiri þætti í skapgerð sinni en barnslega einlægni og góðmennsku. Hin svarta hlið í skapgerð hans er þó á vissan hátt fjarlæg í sögunni og markast það líklega af því að einungis er sagt frá fólskuverkum hans sem liðnum glöpum frömdum í bældri örvæntingu sorgarinnar.

Sem andstæðu við dauðann má segja að höfundur stilli upp ástinni. Ástin er lífgefandi og sambönd Gríms við allar konurnar í sögunni einkennast af ást. Og náskyld ástinni er erótíkin og texti Vigdísar er þrunginn erótík, bæði í lýsingum á samskiptum manna og í náttúrulýsingum hennar. Flestöll sambönd Gríms við konur eru erótísk; samband hans og Gottínu, hans og Önnu, hans og Álfrúnar ekki síður en samband hans og Bergljótar. (Ég vona að engum detti í hug að texti Vigdísar sé klæminn; því fer víðsfjarri.)

Kaldaljós er óður til listarinnar. Listin leysir úr læðingi krafta í manninum og náttúrunni sem gefa lífinu aukið gildi um leíð og hún er lífgefandi í sjálfu sér; bjargar mönnum úr lífsháska. Þannig frelsar hún Grím undan ofurþunga harmleiksins, færir honum aftur gleðina, ljósið og ástina, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Þessi skáldsaga Vigdísar er án efa eitt athyglisverðasta skáldverk sem jólabókaflóðið færir okkur í ár. Texti hennar er magnaður og töfrum hlaðinn, sagan er í hæsta máta óvenjuleg, bæði í efni og formi. Vigdísi tekst á frábæran hátt að galdra fram magnað samband lesanda við verkið; lesturinn kallar fram þessi sjaldgæfu tilfinningaviðbrögð hjá lesandanum sem bera vitni um að hér er ósvikið listaverk á ferðinni.

 

Ritdómurinn birtist í Helgarpóstinum, 3. des. 1987