GUÐRÚN EVA SKAPAR AF LIST. Skaparinn
Guðrún Eva Mínervudóttir. Skaparinn. Reykjavík: JPV útgáfa 2008, 280 bls.
Guðrún Eva sendi kornung frá sér sínar fyrstu bækur, Sóley sólu fegri, sem gefin var út í tíu eintökum, og smásagnasafnið Á meðan hann horfir á þig ertu María mey sem vakti verðskuldaða athygli árið 1998. Í raun má segja að ferill Guðrúnar Evu sé ævintýri líkastur, hún hefur styrkt stöðu sína með hverri bók og með skáldsögunum Yosoy (2005) og Skaparanum sem hún sendir frá sér 2008 ætti engum að dyljast að hér eigum við höfund sem áreiðanlega á eftir að vekja alþjóðlega athygli, verði rétt haldið á spöðunum.
Freistandi er að grípa til hugtaksins frumleiki til að lýsa skáldskaparheimi Guðrúnar Evu enda óhætt að segja að efniviður sagna hennar sé ólíkur flestu því skrifað er á Íslandi í dag. Þó eru sögur hennar rótfastar í „íslenskum veruleika“ en hún þenur ummál þess veruleika með því að skrifa um jaðarmenningu og afkima mannlífsins sem ekki eru daglega fyrir sjónum okkar. Þó er það ekki þessi óvenjulega nálgun á veruleikann sem er aðall skáldsagna Guðrúnar Evu heldur einfaldlega hversu frábært vald hún hefur á stíl og frásagnarhætti. Við bætist að á bak við söguþræði Guðrúnar Evu skynjar lesandinn þétta og áleitna tilvistarlega hugsun sem grundvölluð er á heimspekilegri íhugun og þar er hún í fremur fámennum flokki íslenskra samtímahöfunda, nefna mætti höfunda á borð við Álfrúnu Gunnlaugsdóttur, Jón Kalman Stefánsson, Vigdísi Grímsdóttur og Bjarna Bjarnason.
Í Skaparanum er tvær aðalpersónur: Sveinn; einmana, einhleypur maður um fertugt sem framfleytir sér með því að búa til kynlífsdúkkur af fullkomnustu gerð, og Lóa; útivinnandi, fráskilin móðir tveggja stúlkna sem er á barmi taugaáfalls vegna fjölskylduerfiðleika. Sveinn og Lóa hittast af tilviljun og á þeim fáu vordögum sem frásögnin spannar dragast þau inn í líf hvors annars og kynnast betur en þau í raun kæra sig um. Ýmis konar misskilningur gerir samskipti þeirra erfið en smám saman öðlast þau skilning á aðstæðum hvors annars þó fulllangt væri gengið að kalla þau vini. Sjónarhorn frásagnarinnar skipist nokkuð jafnt á milli þessa tveggja aðalpersóna og lesandinn fær lýsingu á sömu atburðum fyrst frá sjónarhóli annarrar persónunnar og síðan hinnar sem upplifir atburðarásina á ólíkan hátt. Við kynnumst þeim Sveini og Lóu því bæði innan frá og frá sjónarhóli mótleikarans, sem bæði dýpkar persónulýsingarnar og eykur skilning lesandans á aðstæðum þeirra.
Frásögnin grípur lesandann allt frá fyrstu síðu enda er atburðarásin bæði margbreytileg og spennandi og lýsingin á lífi þeirra Sveins og Lóu hlýtur að vekja - ef ekki samúð, þá a.m.k. áhuga flestra lesenda. Lýsingin á sambandi Lóu við unglingsdóttur sína Margréti, sem er lífhættulega veik af lystarstoli, er afar áhrifarík og sjúkdómnum lýst af ágengum skilningi án þess að hér sé að nokkru leyti verið að velta sér upp úr algengum og oft grunnhyggnum skýringum á ástæðum hans. Eins fer Guðrún Eva afar vel með þann hluta söguefnisins sem snýr að framleiðslu Sveins á kynlífsdúkkunum og hvergi er hægt að saka hana um klámfengna úrvinnslu, þótt efnið bjóði léttilega upp á slíkt.
Það sem upp úr stendur er hvernig Guðrúnu Evu tekst á aðdáunarverðan hátt að vekja upp hugleiðingar um skuggahliðar tilverunnar; um tilfinningalega firringu og einsemd; um „tilfinningar manneskjunnar á ögurstundu,“ eins og svo ágætlega er að orði komist á baksíðu bókarinnar; og ekki síst um það hversu mikilvægt það er að reyna að brjótast í gegnum múra einsemdar til að lifa af og sigrast á örvæntingunni sem leynst getur undir þunnri skel hversdags(veru)leikans.
Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 23. október 2008