SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 8. maí 2021

SPUNNIÐ AF FORNUM ÞRÆÐI. Haustgríma

Iðunn Steinsdóttir. Haustgríma. Reykjavík: Iðunn 2000.

 

Í fyrsta kafla Droplaugarsona sögu segir frá Katli sem hefur viðurnefnið þrymur. Hann ferðast ásamt bróður sínum Graut-Atla til Jamtalands og dvelur þar hjá höfðingja að nafni Véþormur. Þar fellir hann hug til ambáttarinnar Arneiðar og kaupir hana fyrir hálft hundrað silfurs. Skömmu síðar vísar Arneiður honum á digran silfursjóð sem hún hefur fundið grafinn í jörðu. Býður hann henni þá frelsi en hún kýs að fylgja honum til Íslands og giftast honum. Setjast þau að fyrir vestan Lagarfljót og nefna bæ sinn Arneiðarstaði. Þau eignast soninn Þiðranda og segir fátt af þeim eftir það.

Þessi kafli úr íslenskri fornsögu verður Iðunni Steinsdóttur að söguefni í skáldsögu hennar Haustgríma. Iðunn spinnur framan við söguna, svo að segja, aðalpersóna hennar er fyrrnefnd Arneiður og örlög hennar allt frá því að hún er ung jarlsdóttir, „tignasta mær á Suðureyjum“, og hefur verið föstnuð ungum manni frá nærliggjandi eyju og þar til víkingar ráðast á eyjuna, ræna, myrða og hneppa fólk í þrældóm. Arneiður lendir ásamt móður sinni Ólöfu (sem heitir Sigríður í fornsögunni) á heimili Véþorms þar sem hún um síðir er keypt af áðurnefndum Katli.

Þessi aðferð, að taka aukapersónu úr tiltekinni sögu og gera hana að aðalpersónu í nýrri sögu, er alþekkt í bókmenntasögunni og getur verið mjög gjöful þegar vel tekst til. Nýja sagan tekur eldri söguna inn í sig, ef svo má að orði komast, og heimur hennar stækkar þar sem hún vísar langt út fyrir sinn eigin texta. Í því tilviki sem hér um ræðir er það ekki aðeins Droplaugarsona saga sem myndar tilvísunarheim sögunnar, heldur í raun stór hluti hins íslenska fornbókaarfs, aðrar Íslendingasögur og t.a.m. Völuspá.

Þegar þau Ketill og Arneiður koma til Íslands, sem er undir lok sögu Iðunnar, er vísað til 57. erindis Völuspár á eftirfarandi hátt:

Arnsúgur bærði seglið, það dimmdi í lofti og vænghafið skyggði á sólu þegar hafórninn tók dýfu niður að skipinu, steig aftur til himins og stefndi til fjalls. Arneiður fylgdi honum með augunum. Hún hafði séð heim allan brenna en sá nú iðjagræna jörð rísa úr ægi, þar sem fossar féllu og fiskur vakti í vötnum. (bls. 146)

Erindi Völuspár hljóðar svo:

Sér hún upp koma

öðru sinni

jörð úr ægi.

Falla forsar,

flýgur örn yfir,

sá er á fjalli

fiska veiðir.

Slík óbein vísun sett í nýtt samhengi er gott dæmi um það sem kallað er textatengsl í bókmenntafræðunum. Ýmis slík textatengsl liggja til grundvallar Haustgrímu Iðunnar Steinsdóttur. Höfundur vinnur í raun út frá heimi allra Íslendingasagna þótt það séu aðeins „fáeinar línur úr fornum sögum“ sem eru henni söguuppspretta, eins og segir á bókarkápu. En í slíkum textatengslum felst einnig að um úrvinnslu og umsköpun er að ræða. Þetta mætti einnig orða þannig að í Haustgrímu er um nýja sýn á gamalt efni að ræða.

Sýn Iðunnar Steinsdóttur og umbreyting felst fyrst og fremst í því að hér er fylgt sjónarhorni fórnarlamba víkinganna, og þá sérstaklega kvennanna sem hnepptar eru í þrældóm og þurfa að þola nauðganir og annað harðræði. Víkingaferðirnar hafa ekki lengur yfir sér það yfirbragð hreysti og manndóms sem við þekkjum úr fornum frásögnum, heldur er þvert á móti um að ræða frásögn af mannlegri grimmd og illvirkjum út frá sjónarhóli þeirra sem fyrir barðinu á ofbeldinu verða.

Úrvinnsla Iðunnar á hinu forna söguefni er vönduð. Hún hefur góð tök á frásögninni og þótt samúðin sé tvímælalaust með þeim sem minna mega sín þá tekst henni að mestu leyti að forðast einfaldanir að því leyti að það er ljóst að það er uppbygging og eðli hins heiðna samfélags fremur en illt innræti þeirra sem ofbeldinu beita sem á sök á harmleik frásagnarinnar. Í sögunni takast á heiðin og kristin gildi og persónur sýna í flestum tilvikum á sér fleiri en eina hlið. Undantekningin frá þeirri reglu er þó persóna aðalillvirkja sögunnar, Herfinns, sem á sér engar málsbætur.

Stundum er fullmikið sagt, eins og til dæmis þegar táknsaga af fuglum, sem sagan hefst á, er útskýrð fyrir lesanda síðar í sögunni. Hér hefði lesandi verið fullfær um að tengja og túlka táknin sjálfur. Gott dæmi um andstæðu við slíka oftúlkun er sagan af Niðbjörgu og örlögum hennar. Þar er meira gefið í skyn en sagt beint út í skáletruðum ljóðrænum texta sem lesandi verður að ráða í sjálfur.

Haustgríma er stutt en áhrifarík saga spunnin af fornum bókmenntaarfi út frá sjónarhóli nútímamanneskju. Þegar vel tekst til þá valda slíkar sögur því að við lesum fornsögurnar á nýjan hátt því við höfum fengið nýtt sjónarhorn sem fyllir upp í eyður eldri textans. Ég er viss um að þeir sem lesa Haustgrímu lesi frásagnir af víkingaferðum á annan hátt en áður.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 22. nóv. 2000