SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir21. nóvember 2019

LJÓÐ SEM LÍKNA. Stökkbrigði

Hanna Óladóttir. Stökkbrigði. Reykjavík: Mál og menning 2019, 42 bls.

 

Sennilega er ekki til sárari reynsla en að missa börn sín, ekki síst ef þau eru rétt að hefja lofandi lífsferil. Slík reynsla býr að baki fyrstu ljóðabókar Hönnu Óladóttur, Stökkbrigði, sem upplifði slíkan heimsendi, ekki aðeins einu sinni heldur tvisvar, eins og ort er um í ljóði sem ber titilinn:

Endalok

Við þúsaldarlok

var heimsendir í nánd
Rifist var um
hvort hann yrði
2000 eða 2001
Fyllið baðkör af vatni
hamstrið dósamat
forðist lyftur og skurðstofur!
Það breytti engu fyrir mig
heimurinn hrundi samt
bæði 2000
og 2001
 
 
 
Nú tæpum tveimur áratugum síðar er kannski nægur tíminn liðinn svo hægt sé að orða sorgina í ljóðum sem líkna, líta tilbaka og reyna að öðlast einhvers konar sátt í gegnum skáldskapinn.
 

Titill ljóðabókarinnar vísar til meins, sem lýst er í ljóði sem ber sömu yfirskrift:

 
Stökkbrigði
 
Í innsta kjarna
leynist
mein
sem aldrei framar
verður leyst úr læðingi
Enginn getur erft það
 

Stökkbrigði skiptist í tvo hluta sem samtals geyma 30 ljóð. Fremst stendur ljóð sem myndar nokkurs konar aðfaraorð að því sem á eftir kemur og kallast „Ljóðmóðir“. Orðið vísar auðvitað til orðsins „ljósmóðir“ og miðlar þeirri hugsun hvernig skáldskapurinn getur verið farvegur og hjálp fyrir annars ólýsanlegar tilfinningar og sorg, hjálpað þeim í heiminn í formi ljóðmáls:

 

Ljóðmóðir góða
skáldalindin tæra
margræð
óræð
draumræð
leyfðu mér að hvíla
í fanginu þínu hlýja
hlusta
skynja
finna
 

Lesandi fylgist með hinni sáru reynslu ljóðverunnar í nokkurs konar tímaröð, ort er um barnadauða sem „orð úr fortíðinni / eins og torfbæir og roðskór“, hefur öllu heilli minnkað til muna á undanfarinni öld, en: „Það eru þessi 0,4%“ sem enn þarf að horfast í augu við. Þrjú ljóð bókarinnar bera yfirskriftina „Fæðing“ með mismunandi númerum I, II og III. Í „Fæðing III: Sængurgjöf“ bíður ljóðmælandi eftir börnum þótt hún þurfi ekki að þola hríðir og ber ekki ör þótt keisaraskurður komi við sögu, í síðustu línu ljóðsins segir: „Sælla er að þiggja en gefa“ og má ætla að hér sé ort um það að eignast börn að gjöf, með ættleiðingu. Í kjölfarið kemur ljóð um hamingjuna sem á sér þó skuggahlið:

 

Hamingja
 
Við horfum á þau
tvo litla glókolla
tvö lítil hjörtu sem slá í takt
í bjargarleysi þeirra
felst björgun okkar
í kærleikanum
í lífinu
og við reyndum
að halda óttanum
í skefjum

 

Í upphafi annars hluta ljóðabókarinnar setur ljóðveran fram óskalista og á honum eru: „kærleikur / bjartsýni / hugrekki / yfirvegun /sátt“. Af ljóðunum sem eftir fylgja verður þó ljóst að baráttunni er ekki lokið sorgin og þungbærar hugsanir eru fylgifiskar sem erfitt er að stjórna. Í tveimur mögnuðum ljóðum, „Grimmd“ og „Stund sannleikans“ lýsir ljóðmælandinn hver erfiðasti andstæðingurinn getur verið:

 

Grimmd
 
Gagnrýnin dynur á mér
vantrúin á getu mína
niðrandi athugasemdirnar
Ég er
blóðrisa
undan svipuhöggunum
Hugurinn fyllist vonleysi
svartnættið hvolfist yfir
engin lausn í sjónmáli
uns
ég legg frá mér svipuna
 
Stund sannleikans
 
Eftir skylmingar
liðinna ára
er komið að
lokauppgjörinu
Ég hef króað mótherjann af
hann lætur sverðið falla
og biðst vægðar
Um leið og hann reynir
að taka grímuna niður
keyri ég sverðið 
djúpt í hjarta hans
Undrandi
finn ég
skerandi
sársauka
í eigin brjósti

 

Síðustu ljóð bókarinnar bera vitni um einhvers konar sátt, ekki síst sátt ljóðverunnar við sjálfa sig. Í lokalínum síðasta ljóðsins segir: „Ég geng inn í gleðina / kærleikann / kraftinn“ og lesandinn fagnar því að atriðin á óskalistanum sem nefndur var áður virðast hafa komið til skáldsins.

Stökkbrigði er áhrifarík ljóðabók þar sem lýst er löngu bataferli í kjölfar reynslu sem líklega er ólýsanleg nema í gegnum skáldskapinn. Svo mögnuð getur ljóðlistin verið.

 

 

Tengt efni