SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir27. apríl 2019

HVERS VEGNA GLEYMDU ÞEIR BJÖRGU? Björg. Ævisaga...

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Björg. Ævisaga Bjargar C. Þorláksson. Reykjavík: JPV útgáfa 2001

 

Ævisögur hafa lengi verið með vinsælasta lestrarefni Íslendinga og kunna að vera á því margvíslegar skýringar sem ekki verða tíundaðar hérna. Vinsældir þessarar bókmenntategundar ættu þó varla að koma nokkrum á óvart; góð ævisaga getur falið í sér heillandi fróðleik um mannlíf og menningu misfjarlægrar fortíðar auk heillandi og athyglisverðrar persónulýsingar, þegar vel tekst til. En meðal íslenskra ævisagna er margur misjafn sauðurinn og hnignun þessa bókmenntaforms hefur verið áberandi á síðastliðnum áratugum hérlendis sem erlendis, ekki síst í útþynntu formi þeirra í svokölluðum viðtalsbókum. Það er hins vegar engum blöðum um það að fletta að á undanförnum árum hefur átt sér stað ákveðin endurreisn í íslenskri ævisagnaritun, sem meðal annars má merkja af því að nokkur slík verk hafa hlotið verðskulduð bókmenntaverðlaun og annars konar viðurkenningar. Nefna má bækur á borð við ævisögu Snorra á Húsafelli eftir Þórunni Valdimarsdóttur, ævisögu Guðmundu Elíasdóttur eftir Ingólf Margeirsson, ævisögu Guðmundar Böðvarssonar eftir Silju Aðalsteinsdóttur, ævisögu Halldóru Briem eftir Steinunni Jóhannesdóttur, ævisögu Einars Benediktssonar eftir Guðjón Friðriksson og ævisögu Jónasar Hallgrímssonar eftir Pál Valsson. Ævisaga Bjargar C. Þorláksson eftir Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur skipar sér tvímælalaust í flokk slíkra úrvalsævisagna og er að henni mikill fengur.

Björg Caritas Þorláksson er án efa meðal merkustu Íslendinga. Samtíð hennar þekkti hana sem menntuðustu konu Íslands og merkan fræðimann, en sú staðreynd skapaði henni hvorki starf, auð né völd, og nafn hennar féll óverðskuldað í gleymsku og hefur að mestu legið í þagnargildi þar til nú að Sigríður Dúna lyftir því aftur til lífs af eftirtektarverðri alúð og traustri fræðimennsku.

Hún „fæddist í hríðarbyl í torfbæ norður í Húnaþingi árið 1874“ og var skírð Björg Karítas Þorláksdóttir. Síðar tók hún sér nafn eiginmanns síns (Sigfúss) Blöndal; breytti stafsetningu millinafnsins í Caritas; skrifaði undir dulnefninu Björn Simon; og tók að lokum aftur föðurnafn sitt í breyttri mynd: Þorláksson, eftir skilnað frá eiginmanninum. Sigríður Dúna leggur út af þessum nafnabreytingum í bók sinni og segir þær vitna um sjálfssköpun konunnar sem umbreytti fleygum orðum Sókratesar, „Maður, lærðu að þekkja sjálfan þig,“ og skrifaði í einu rita sinna: „Maður, lærðu að skapa sjálfan þig.“

Sjálfssköpun er leiðarstefið í verki Sigríðar Dúnu. Hún leitast við að sýna hvernig óbreytt íslensk sveitastúlka braust til mennta af mikilli einurð, þrá, elju og sköpunarþrá, þrátt fyrir margvíslegt mótlæti, persónulegt og samfélagslegt, þar til hún varði doktorsritgerð sína, „um lífeðlisfræðilegan grundvöll þriggja eðlishvata; næringarhvatar, hreyfihvatar og kynhvatar,“ með glæsibrag við Parísarháskóla árið 1926. Leiðin að takmarkinu var bæði löng og ströng en vörðuð framúrskarandi námsárangri og miklum afköstum á sviði fræða, greinaskrifa, skáldskapar og þýðinga – að ógleymdri íslensk-dönsku orðabókinni sem hún vann að í félagi við eiginmann sinn í tvo áratugi og er æ síðan við hann kennd. En barnlaust hjónabandið og stopul fræðaskrif fullnægðu ekki þrá þessarar merku konu eftir lífsfyllingu og þroska andans og þegar hún var komin á fimmtugsaldur tók hún til við nám og sjálfssköpun að nýju með áðurgreindum árangri.

En líf Bjargar C. Þorláksson var síður en svo samfelld sigurganga. Hún þurfti að glíma við veikindi líkamleg og andleg (á síðari hluta ævinnar), en sárast hefur vafalaust verið að glíma við þær skorður sem kynferði hennar setti henni, fordóma menntamanna- og vísindasamfélagsins gagnvart konum sem fóru inn á „þeirra svið“ og þrátt fyrir sína ótvíræðu hæfileika sáu ráðamenn Háskóla Íslands aldrei ástæðu til að búa henni starfsvettvang við hæfi hér heima, né heiðra hana á viðeigandi hátt. Sú yfirsjón varð frænda hennar, Jóni Dúasyni, tilefni til að spyrja í bréfi til Guðmundar Finnbogasonar, þáverandi landsbókavarðar: „Hvers vegna gleymduð þið Björgu?“ „Í þau ellefu hundruð ár sem Ísland hefur staðið,“ segir Jón, „hafa Íslendingar aldrei eignast konu sem kemst í námunda við Björgu hvað lærdóm snertir og því miður verður líklegast bið á að svo verði á næstunni.“ Hann bendir á að Háskóli Íslands hafi sæmt Sigfús heiðursdoktorsnafnbót fyrir orðabókina og Bókmenntafélagið gert hann að heiðursfélaga, sem sé ágætt, en spyr hvers vegna hafi verið gengið fram hjá Björgu við þessar útnefningar. [...] Jón segir Íslendinga aldrei hafa sýnt Björgu vísindalega viðurkenningu og þó að hún verði ekkert minni í framtíðinni fyrir það að hafa verið höfð í öskustónni þá sé þetta þvílík hneisa að ekki megi við una. Jón vill láta kjósa Björgu heiðursfélaga í Bókmenntafélaginu og útnefna hana heiðursprófessor við Háskóla Íslands áður en það verður um seinan (322–324).

Það var um seinan; Björg dó skömmu eftir að frændi hennar ritar þetta bréf, sárþjáð af brjóstakrabbameini 23. febrúar 1934.

Þótt lífsferill og sjálfssköpun Bjargar sé það söguefni sem hvað mest heillandi er að lesa um í verki Sigríðar Dúnu er ekki síður athyglisvert að fræðast um það samfélag sem hún lifði í heima og erlendis. Sögusviðin eru mörg; Björg vex upp í lítt þróuðu íslensku bændasamfélagi nítjándu aldarinnar en átti framsýna og góða foreldra; hún bjó í rúma tvo áratugi í Kaupmannahöfn og dvaldi langdvölum í Þýskalandi og Frakklandi. Frakkland var hennar heimaland á síðari hluta ævinnar, þar leið henni vel enda var það þar sem henni gáfust bestu tækifærin til sjálfstæðis og fræðistarfa. Það þarf ekki að fjölyrða um hversu umbreytingarsama tíma Björg lifði; þetta voru tímar hraðra þjóðfélagsbreytinga og framfara, en einnig tími fyrri heimsstyrjaldarinnar og þeirra hörmunga sem stríðið leiddi yfir Evrópu.

Öllu þessu kemur Sigríður Dúna vel á framfæri og í bókarlok gerir hún skilmerkilega grein fyrir vinnubrögðum sínum og rannsóknarvinnunni á bak við verkið. Með ævisögu Bjargar C. Þorláksson hefur Sigríður Dúna skilað verki sem hún getur verið stolt af og fróðlegt verður að sjá framhaldið, en í ráði er að gefa út greinasafn Sigríðar Dúnu og fleiri fræðikvenna þar sem farið verður nánar í saumana á fræðum doktors Bjargar. Ég bíð spennt eftir því verki.

 

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 28. nóv. 2001

Myndin af Sigríði Dúnu er tekin af vef Alþingis