SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 7. apríl 2018

NJÁLA NÝRRA TÍMA. Kalt er annars blóð

Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir. Kalt er annars blóð. Reykjavík:

ÞAÐ var spennandi að sjá hvar Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir [Þórunn Jarla] myndi bera niður að lokinni hinni miklu ævisögu Matthíasar Jochumssonar sem kom út í fyrra [2006]. Að það skyldi vera innan glæpasagnageirans þarf kannski ekki að koma á óvart, sé tekið mið af tíðarandanum, en að sjálfsögðu er glæpasaga Þórunnar, Kalt er annars blóð. Skáldsaga um glæp, engin „venjulegur“ reyfari. Ferill Þórunnar er glæsilegur; á síðastliðnum tveimur áratugum hefur hún sent frá sér jöfnum höndum fræðirit og skáldskap og hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir ritstörf sín. Ef eitthvað einkennir skrif hennar framar öðru er það nýsköpun og tilraunir með form og í þessari skáldsögu bregður Þórunn á skemmtilegan leik með formið, togar það og teygir í allar áttir og spinnur margra þræði í einu eins og meisturum einum er lagið.

 

Hér er sögð saga blóðugra glæpa úr samtímanum og áður en yfir lýkur hafa líkin hrannast upp og drápin tengjast heimi fíkniefna og handrukkara og alls konar ástarflækjur blandast inn í málin. Aðalpersónur eru margar og sjónarhornið síbreytilegt, sagan er jafnvel sögð út frá sjónarhorni hrafns sem flýgur yfir sögusviðið og er mjög skemmtilegt innskot í frásögnina. Sögusviðið er jafnframt breytilegt: Reykjavík, Kollafjörður, Egilsstaðir, austfirskar heiðar og Gotland og bæta má einum „staðnum“ við sem er heimur bókmenntanna. Sagan er full af tilvísunum í íslenskar bókmenntir en það er þó eitt verk sem er burðarvirki frásagnarinnar: Brennu-Njáls saga.

Með þessari bók bætist Þórunn í þann fjölmenna hóp sem Jón Karl Helgason bókmenntafræðingar kallar „höfunda Njálu“, þ.e.a.s. þá höfunda sem hafa á einn eða annan hátt „endurritað“ Njáls sögu í formi þýðinga, ljóða, leikrita, barnasagna, myndasagna - og svo mætti lengi telja. Þórunn notar Njáls sögu sem n.k. viðmið sögu sinnar; margar persónur bera sömu nöfn og þekktar persónur Njálu (Hrútur, Unnur Marðardóttir) eða sem líkjast þeim (t.d. pörin Gunnar Halldórsson og Halla Harðardóttir, Níels og Begga). Atburðarásin er einnig að miklu leyti sniðin að atburðarás Njálu, oft með mjög skemmtilegum snúningum. En skáldsaga Þórunnar er þó ekki rígbundin fornsögunni því hér er fyrst og fremst um samtímasögu að ræða. Margir kaflar skáldsögu Þórunnar hafa engar tengingar við Njálu og það er áreiðanlega hægt að njóta bókarinnar án þess að vera með hugann við Njálu.

Það sem gerir svona bókmenntaleik einna áhugaverðastan er sú staðreynd að ef hann er vel lukkaður er hægt að sjá eldra verkið í nýju ljósi (sbr. áhrif Gerplu á túlkun á Fóstbræðra sögu) og við lestur skáldsögu Þórunnar er lesandinn minntur á að í þessari frægustu Íslendingasögu allra tíma er ekki bara fjallað um átök kristni og heiðni, vinskap, heiður og hefnd heldur einnig um ástarflækjur, kynlíf, getuleysi, afbrýðisemi, útlitsdýrkun, átök milli kynja o.fl. o.fl. Sem glæpasaga er Kalt er annars blóð vel lukkuð en hér er fyrst og fremst um bráðskemmtilega samtímasögu að ræða þar sem lesandinn fær meira fyrir sinn snúð en oftast þegar lesnar eru sögur um glæp.

 

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 29. nóvember 2007

 

Tengt efni