Á VALDI OFBELDIS OG ÓTTA. Hulduslóð
Hér er birtur gamall ritdómur um bók Lizu Marklund og Mariu Eriksson sem kom út í íslenskri þýðingu 2005. Hulduslóð hefur ýmsa snertifleti við bók Gerðar Kristnýjar og Thelmu Ásdísardóttur, Myndin af pabba, sem kom út sama ár, bæði hvað varðar aðferð og efni - að breyttu breytanda. Báðar fjalla þær um ofbeldi í garð kvenna af hendi nákominna aðila. Því miður er þetta söguefni ekkert á undanhaldi, það er í daglegri umfjöllun í fréttum, á einn eða annan hátt, hérlendis sem erlendis.
Liza Marklund (og María Eriksson). Hulduslóð. Reykjavík: Íslensk þýðing: Anna Ragnhildur Ingólfsdóttir
Lizu Marklund þekkja aðdáendur sakamálasagna hérlendis sem erlendis. Þessi snjalla sænska blaða- og skáldkona sótti okkur Íslendinga heim síðastliðið haust enda bækur hennar mjög vinsælar hér. Áður hafa komið út á íslensku fimm skáldsögur eftir Marklund, allar í þýðingu Önnu Ragnhildar Ingólfsdóttur, en bókin sem hér um ræðir er hins vegar ekki skáldsaga.
Hulduslóð er þó sakamálasaga, líkt og aðrar bækur Marklund, en hún lýsir reynslu sænskrar konu, Mariu Eriksson, og fjölskyldu hennar af gegndarlausum ofsóknum og ofbeldi sem þau sæta af hálfu fyrrverandi unnusta og barnsföður Miu (eins og hún er kölluð). Heimilisofbeldi kemur reyndar víða við sögu í verkum Marklund, enda hefur hún beitt sér sérstaklega í þessum „málaflokki“, ekki aðeins með því að skrifa um það sannar og skáldaðar sögur heldur einnig með því að fjalla rækilega um efnið í blaðagreinum sem og í sjónvarpsþáttum.
Liza Marklund var þekktur blaðamaður og samfélagsgagnrýnandi þegar hún sneri sér að bókaskrifum og reyndar var Hulduslóð (Gömda), sem kom út á sænsku 1995, hennar fyrsta bók. Í formála að bókinni segir Marklund frá því hvernig Mia leitaði til hennar árið 1992, eftir að hún hafði farið huldu höfði ásamt fjölskyldu sinni í rúm tvö ár. Upp frá því fylgdist Marklund náið með fjölskyldunni og var oft á tíðum eini tengiliður hennar við umheiminn. Til að gera langa sögu stutta þá leiddu þessi kynni til þeirrar ákvörðunar Marklund að skrifa bók um sögu Miu, til að vekja athygli á þessu útbreidda ofbeldisvandamáli. Hún vildi sýna svart á hvítu hversu alvarlegar afleiðingar það getur haft í för með sér, bæði fyrir börn og fullorðna, að búa við ofbeldi og stöðugan ótta og síðast en ekki síst vildi hún benda á hversu gjörsamlega úrræðalaust „velferðarsamfélagið“ er að takast á við þennan vanda.
Hulduslóð er byggð upp sem spennusaga, bókin hefst á „Inngangi“ þar sem lýst er í hnotskurn martröð Miu, bæði í bókstaflegri og óeiginlegri merkingu orðsins. Þar er dregin upp óhugnanleg mynd af ofbeldismanni sem einskis svífst og fórnarlambi hans, sem er á mörkum sálræns niðurbrots. Eftir þessa sláandi svipmynd hefst fyrsti hluti bókarinnar sem nefnist „Skelfingu lostin“. Þar er gefin stutt innsýn í líf Miu eftir að hún hefur gifst sænskum manni og eignast með honum annað barn sitt. Unnustinn fyrrverandi (faðir eldra barns Miu) ofsækir fjölskylduna og hótar að taka barnið (sem hann hefur aldrei skeytt neitt um) og senda það til Líbanon.
Annar hluti nefnist „Ógnað“. Þar er farið til baka í tíma og lýst lífi ofur venjulegrar ungrar sænskrar konu sem auk þess að starfa í banka vinnur sem sjálfboðaliði við að aðstoða erlenda flóttamenn í Svíþjóð. Í gegnum það starf kynnist hún ungum erlendum manni sem við fyrstu kynni virðist bæði fallegur og ljúfur sem lamb. Hún verður ástfangin en fyrr en varir kvikna ýmsar blikur á lofti sem benda til þess að ekki sé allt með felldu í fari unnustans og að afstaða hans til kvenna verði ekki aðeins skýrð með uppruna hans í ólíkum menningarheimi. Þetta er langlengsti hluti bókarinnar, enda er hér sagt frá sambandi Miu og ofbeldismannsins allt frá byrjun og þar til hún loksins orkar að slíta því þegar henni finnst ekki aðeins sínu lífi heldur einnig lífi barnsins ógnað.
Frásögnin af hinu stigvaxandi ofbeldi sem Mia er beitt er vissuleg skelfileg og erfitt fyrir þá sem aldrei hafa þurft að þola ofbeldi að setja sig í hennar spor. Af hverju fór hún ekki fyrr, af hverju lætur hún bjóða sér þetta? eru spurningar sem sífellt knýja á, en eflaust eru slíkar spurningar ekki réttmætar. Enda kemur í ljós að ofbeldismaðurinn lætur ekki af iðju sinni þótt búið sé að slíta sambandinu og læsa hann úti, þvert á móti tvíeflist hann, knúinn áfram af hatri, höfnun, heimsku og karlrembu.
Þriðji hluti nefnist „Ofsóknir“ og þar er því lýst hvernig ofbeldismaðurinn og vinir hans sitja stöðugt um fjölskyldu Miu og virðist tilgangur þeirra hreinlega vera að myrða þau. Engin úrræði virðast duga, nálgunarbann á ofbeldismanninn og stuttar fangelsisdvalir hans hafa ekkert að segja, þannig að eina úrræðið er flótti.
Fjórði og síðasti hluti nefnist „Í felum“ og í raun er það áhrifamesti hluti bókarinnar og sá hluti þar sem það kemur gleggst í ljós hversu góður penni Liza Marklund er. Hér er lýst á afar sláandi hátt hvernig það að búa við stöðugan ótta og það að þurfa að lifa í felum getur brotið manneskjuna niður. Hrikalegt er að lesa um hvernig barn Miu og ofbeldismannsins hættir að borða og tala og hverfur inn í sig þar til það er við dauðans dyr af sorg og ótta. Einnig er lýsingin á Miu sjálfri og bágu sálarástandi hennar mjög áhrifarík.
Af Hulduslóð má margt læra. Ég tel að bókin eigi erindi til fjölmargra lesendahópa, ekki síst til þeirra sem þurfa að taka á málefnum ofbeldisþolenda og flóttamanna á einhvern hátt. Liza Marklund skrifaði framhald á sögu Miu, Asyl, sem kom út árið 2004 í Svíþjóð og mun vera von á íslenskri þýðingu þeirrar bókar í haust. Eflaust munu margir bíða spenntir eftir að sjá hvernig Miu og fjölskyldu hennar hefur reitt af undanfarinn áratug.
Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 4. maí 2005