SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir15. maí 2019

Í HVERJU ER HAMINGJAN FÓLGIN? Í Mánaljósi

Kirstín Helga Gunnarsdóttir. Í Mánaljósi. Ævintýri Silfurbergsþríburanna. Reykjavík: Mál og menning 2001

 

Kristín Helga Gunnarsdóttir sendi frá sér sína fyrstu barnabók, Elsku besta Binna mín árið 1997 og á skömmum tíma festi hún sig rækilega í sessi í hópi vinsælustu barnabókahöfunda okkar. Kristín Helga skrifar kannski einna helst fyrir stálpaða krakka sem geta lesið sjálf (7–12 ára) en yngri börn geta vissulega haft gaman af bókum hennar, t.d. var dóttir mín ekki nema fjögurra ára þegar hún komst fyrst í kynni við Binnu sem hún tók strax ástfóstri við. Bækurnar tvær um Binnu hafa notið mikilla vinsælda og árið 2000 hlaut Kristín Helga Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir bókina Mói hrekkjusvín.

Í Mánaljósi hefur undirtitilinn „Ævintýri Silfurbergsþríburanna“. Það eru 12 ára gamlir þríburar, Íris Ína, Ísabella og Júlíus, sem eru aðalpersónur sögunnar og spannar frásögnin af ævintýrum þeirra rúmlega hálft ár en aðallega segir frá einu sumri sem þau eyða í Kaupmannahöfn. Þetta er tími mikilla átaka og umbyltinga í lífi þríburanna. Í upphafi sögunnar eru þau fremur óhamingjusöm börn forríkra hjóna sem ausa yfir þau efnislegum gæðum en hafa engan tíma og takmarkaða ástúð að veita. Þau njóta hins vegar ástar og umhyggju filippeyskrar vinnukonu, Rósalindu, sem býr hjá þeim á veturna en hjá fjölskyldu sinni á Filippseyjum á sumrin. Silfurbergsþríburarnir búa í hvítri höll við Gullvogastræti, eiga stór sérherbergi, flott húsgögn og allar hugsanlegar græjur.

Í bókarlok eru þau hins vegar allsæl börn fráskilinna foreldra, flutt í gamalt blátt bárujárnshús með móður sinni og vinnukonunni og eiga hvert sitt litla kvistherbergið með aðeins nauðsynlegustu húsgögnum. En hamingja þríburanna er ekki tengd ofgnótt eða skorti á steinsteypu og hlutum, heldur því að þau hafa fengið nýja sýn á lífið og tilveruna í Kaupmannahöfn svo og því að móðir þeirra hefur snúið baki við efnishyggjunni og minnkað við sig vinnu til að geta verið meira með börnum sínum.

Margar litríkar persónur koma við sögu í þessari bók. Þríburarnir, sem hafa hver sín persónueinkenni, eru sendir hálfnauðugir til sumardvalar hjá ömmusystur sinni, Emilíu Sólborgu, svo að foreldrarnir geti gengið frá skilnaði sínum, sölu og skiptingu eigna, og unnið sína vinnu og yfirvinnu án þess að börnin séu að flækjast fyrir. Emilía frænka býr í Friðarbæ, sem er hverfi í Kaupmannahöfn þar sem búa gamlir hippar og alls kyns furðufuglar (fyrirmyndin Kristjanía er auðþekkjanleg). Húsið sem Emilía býr í heitir Mánaljós og þar býr með henni fjöldi litríkra einstaklinga, fólk og dýr.

Emilía er litskrúðugust þeirra allra; hún er jógakennari, í góðu sambandi við yfirnáttúruleg öfl og geislar af manngæsku og hamingju. Hjá henni læra þríburarnir að setja andleg verðmæti ofar hinum efnislegu, auk þess sem þau kynnast bæði jákvæðum og neikvæðum hliðum hins fjölskrúðuga mannlífs í Friðarbæ. Þau lenda í ýmsum óvæntum ævintýrum og snúa aftur heim til Íslands reynslunni ríkari og í mun meira jafnvægi en þegar þau fóru að heiman.

Kristín Helga skrifar fjörlegan stíl og er leikin í að búa til aukafléttur inn í meginfrásögn sína þannig að frásögnin er alltaf lifandi og heldur athygli lesandans. Hún notar sterkar andstæður í persónusköpun og stillir upp ólíkum lífsgildum á afdráttarlausan máta. Annars vegar eru það Silfurbergshjónin sem tilheyra hópi sívinnandi, stressaðra uppa, sem virðast lifa fyrir efnisleg gæði en hafa tapað áttum í mannlegum samskiptum. Hins vegar hreinræktaðir hippar sem njóta lífsins í hópi góðra vina en hafa snúið baki við efnislegum gæðum. Það er alveg á hreinu hvorum megin samúð höfundarins liggur, enda er það velferð barnanna sem málið snýst um og börn þurfa jú fremur á ást og tíma en peningum og dóti að halda.

Faðir þríburanna, Svanur Silfurberg, er eiginlega sú persóna sem neikvæðust er í bókinni; hann virðist ekkert læra af skipbroti hjónabandsins og heldur ótrauður áfram sínu efnishyggjubrölti með nýju konunni, Fríðu fegurðardrottningu. Móðir þeirra, Sigurlína, tekur hins vegar jákvæðum breytingum í rás sögunnar, svo og móðuramma þeirra, Karólína, sem fer í meðferð og breytist mjög til batnaðar.

Í Mánaljósi er bók sem ætluð er eldri lesendum en fyrri bækur Kristínar Helgu og er það vel til fundið hjá henni að skrifa nú fyrir aðeins eldri lesendahóp, því með því móti ætti hún að halda í sinn „gamla“ aðdáendahóp. Þau börn sem hrifust af Binnu, til að mynda, eru að sjálfsögðu orðin eldri og þroskaðri nú og geta tekist á við flóknari viðfangsefni en fjallað er um í Binnubókunum. Því þrátt fyrir að andstæðurnar séu hreinar og klárar og persónulýsingar stundum nokkuð svart-hvítar þá er fjallað um alvarleg málefni í þessari bók; málefni sem snerta gildi og verðmætamat, hamingju og óhamingju, líf og dauða. Systkinin Íris Ína, Ísabella og Júlíus eru einnig hvert af sínu taginu en vegna fjölda aukapersóna í sögunni fá þau hvert og eitt ekki mikið rými í frásögninni. Gaman væri því að fá að kynnast þeim betur síðar.

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 20. des. 2001

 

Tengt efni