MARGFELDI MERKINGAR. Frelsi
Við höfum margfaldað frelsið
„Frelsi“ er eitt þessara stóru orða – kannski það stærsta – sem ekki verður skilgreint í eitt skipti fyrir öll því merking þess breytist í sífellu eftir því í hvaða samhengi það er notað (og misnotað), hvar og hvenær. Engu að síður hefur hugtakið „frelsi“ einhvern kjarna sem allir bera kennsl á þótt „við höfum margfaldað frelsið“, eins og segir í aðfaraljóði bókar Lindu Vilhjálmsdóttir, og í mörgum tilvikum vegið að kjarnanum og svipt orðið merkingu. Skáldið fæst við margfeldi og margræðni þessa hála hugtaks en að lestri loknum leita á lesandann áleitnar spurningar því ljóst er að ljóðin spretta upp af grundvallar andstæðunni: frelsi og helsi og eru margvíslegir þræðir spunnir um það stef.
Þetta er stór og mikill titill. Sjálf bókin er þó lítil og látlaus með ljósri kápu og án baksíðutexta en á framhliðinni er fínleg mynd af árhringjum á tré, ásamt titli og nafni höfundar. Myndina af árhringjunum mætti allt eins túlka sem hringiðu því þessi litla bók reynist geyma mikla hringiðu; mikinn og magnaðan skáldskap. Hér er ort af öryggi um þær ógöngur sem ýmis mannleg samfélög hafa ratað í, heima og erlendis. Ort er um siðferðislegt hrun, hugmyndalegt skipsbrot, vanhæfa leiðtoga og leiðitaman lýð. Ort er um einangrun og útilokun, andvaraleysi í nútímanum og vá í framtíðinni. Í heild er verkið áhrifamikill reiðilestur og ádeilukvæði. Skáldinu tekst ágætlega að beisla reiðina og hemja predikunartóninn sem slíkur efniviður kallar á með því að beita húmor og íróníu. Írónían, sem er eitt sterkasta stílbragð bókarinnar, beinist að okkur öllum, persónufornafnið „við“ er mikið notað og enginn fær vikist undan hvassri ádeilunni.
margfaldað allt nema gæskuna
Ljóðabókin er byggð upp á þremur merktum hlutum, I, II og III, en á undan fer það sem ég kalla aðfaraljóð hér að ofan og hefst á orðunum: „á milli / himins og jarðar / er allt // eins og þar stendur skrifað“. Aðfaraljóðið, sem skipt er niður á tíu síður, hefur yfir sér bæði trúar- og heimspekilegan blæ – nokkuð svartsýnan því við höfum „margfaldað allt / milli himins og jarðar // nema gæskuna“. Hér eru kynnt til sögunnar stef sem eiga eftir að hljóma í því sem á eftir fer og er á mjög knappan og meitlaðan hátt vísað til frelsis í mismunandi samhengi. Lokalínur ljóðsins eru ófagrar: „við höfum margfaldað / frelsið til að grafa okkur // lifandi / í túninu heima. Þess má geta að þetta ljóð birtist fyrst í þriðja hefti Tímarits Máls og menningar árið 2008. Á þeim árum sem síðan hafa liðið hefur Linda Vilhjálmsdóttir ekki sent frá sér ljóðabók – og reyndar ekki síðan árið 2006 þegar ljóðabálkurinn Frostfiðrildi kom út – og þykir mörgum löng sú ‚þögn‘ en hafi ljóðabálkurinn Frelsi verið að malla í henni allan þann tíma verður aðeins ályktað að þess hafi hann þurft og afraksturinn er framúrskarandi og biðarinnar virði.
Innan skjólveggsins
Lokaorð aðfaraljóðsins ‚túnið heima‘ leiða okkur inn á sögusvið I. hluta þar sem upphafslínan hljómar sem beint framhald: „og okkar forhertu bein / mega meyrna í garðinum /innan við skjólvegginn enn um sinn“. Áframhaldið sýnir að hér vinnur skáldið meðal annars með frasann að „græða og grilla“ sem vísar til íslenska gróðærisins og síðar hrunsins og skjólveggurinn verður tákn fyrir innilokun eða öllu heldur útilokun; hann er skil á milli þeirra sem eiga og hafa og vilja fyrst og fremst hafa það gott en hugsa sem minnst til hinna sem búa handan við vegginn með takmarkaðan eða engan aðgang að gæðunum:
mæður og dæturnorðan við gasgrilliðfeður og synir þar sunnan viðog síðasta máltíðin bíðurguðlegri tíma og göfugrikvöldgestaSíðar í ljóðinu er spurt:hvað varð umgarðyrkjumeistarann mjúkmálasem lofaði gullregni grillveislumog séreignasælu með okkar nánustuhvað varð um þjónustufulltrúannsem kom með hellurnar pallinn og pottanaog bauð okkur hræbillegt gasgrillog girðingarefni á raðgreiðslum
Við viljum eiga „náðuga daga í sólstól með vínglas / í hendi og snarkandi skrokkana á eldinum / marga milljarða náðugra / daga á skjólsælum pallinum“ en vályndir tímar nálgast og kannski „ráðlegra / að fresta veislunni tímabundið til að gæta / hagsmuna frænda okkar kunningja og skyldra aðila.“
Á snilldarlegan hátt margfaldar skáldið merkinguna þegar orðið „gas“ – sem „okkur er uppálagt / að skrúfa niður í“ – vísar ekki bara til grillsins og ofgnóttarinnar heldur einnig til loftlagsbreytinga sem vofa yfir þótt við þumbumst við og vísum alfarið á bug „þeim orðrómi að við bruðlum með gas / umfram aðra“. Ljóðmælandi hefur
[...] rökstuddan grunum að sjö vikna fastan sé framundanog eftir það sjö öskugrá ársem munu þrútna og margaldast
Þeir sem reyna að sporna við þróuninni í sínum eigin ranni fá ekki síður hæðnislegar athugasemdir frá skáldinu en hinir sem bruðla með gasið:
þótt lattekynslóðin þykist þess umkominað frelsa heiminn frá gróðurhúsaáhrifummeð því að skríða aftur inn í moldarkofanaog velta sér upp úr sjálfbærum skítnumeru hugmyndir okkar um afkomu aðrarenda stöndum við mannfólkið ennþá í lappirnarþrátt fyrir allt
Og við sorpinu sem ógnar lífríki til lands og sjávar bregðumst við með því að nota „sótthreinsuð sorporð / eins og förgun urðun losun og gereyðing“.
Við aðskilnaðarmúrinn
Eins og sést af ýmsum þeim ljóðlínum sem vitnað er til hér að ofan notar skáldið biblíuvísanir óspart og hefur bálkurinn í heild trúarlega vídd sem tengir alla hluta hans saman. II. hluti gerist í ‚fyrirheitna landi‘ gyðinga og á hinum hernumdu svæðum Palestínu þar sem orðið ‚frelsi‘ tekur á sig óhugnanlegar mótmyndir. Ferðalangar fara um „rangala kristindómsins“ við „ærandi geltið / í hungruðum hundum í árásarham“ og ganga „gegnum / pílagrímahafið á via dolorosa / milli vopnaðra hermenna og krossbera / framhjá víggirtum kirkjum og eftirlitsmyndavélum“. Í vöggu kristindómsins:
sitja jarðneskir herskarar um brauðhúsinog hvert einasta mannsbarnsem þar lítur dagsins ljósfer sjálfkrafa á sakaskrágrunað um óunnið hryðjuverk
Í þessum hluta ljóðabálksins er aðskilnaðarmúr – sem kallast á við skjólvegginn í I. hluta – sem skilur að „gyðinga / sem halda sig innan við skothelt gler / í lofræstum bílum og búrum“ og araba „sem hanga tímunum saman í þröngri stíu / úti á berangri í sólinni“ og eiga í eilífu stríði „um einkaréttinn á að heiðra forföðurinn / um einkaréttinn á að lifa í friði í landinu helga“; „víglínan liggur þvert gegnum daglegt líf“ og „hvorugur hikar við að fórna syni hins“. Á milli ferðast pílagrímar og aðrir ferðalangar sem sumir „þurfa að ljúga á sig trú í rannsóknarréttinum“ og bíða þolinmóðir þar til „vígbúinn umferðarvörður / [veifi] rútunni í gegn með hríðskotabyssunni“. Í slíku umhverfi fær hugtakið ‚frelsi‘ á sig allt annan blæ en það ‚frelsi‘ í fjármálum og fjárfestingum sem var fyrsta boðorðið í grillveislunni miklu fyrir hrun. Enda gefur palestínskt skáld lítið fyrir frelsið sem íslenska skáldið tjáir því að sé yrkisefni sitt, þótt skáldkonan íslenska þori „ekki fyrir [sitt] litla líf að nefna það þarna / að [hún] væri að skrifa um fleirtölufrelsið heima hjá [sér]“. Sá palestínski fullyrðir að „það skipti ekki málið hvort menn væru frjálsir / ef þeir kynnu ekki að fara með frelsið“ og líst mun betur á yrkisefni samferðakonunnar „um hið sífellda stríð sem geisar í huganum“.
Ljóðmælandinn ferðast um „musterishæðina síonfjall og hauskúpuhæðina“ þar sem sjá má „konur með slæður og karla með hatta og kollhúfur // ferðamenn með derhúfur og þyrnikórónur / og unglinga með volduga hermannahjálma / í grágrænum felulit. Og við sjálfan grátmúrinn „er mannkynið / klofið sundur í tvær ójafnar fylkingar // plássfreka karla / og konur sem mega náðarsamlegast gráta // og biðja / í sínu afmarkaða kerlingarhorni. Í síðustu ljóðlínunum má sjá annað þema sem glöggt má greina má í ljóðabókinni; misjafnan hlut kvenna og karla. Ég minni á að „mæður og dætur“ stóðu „norðan við gasgrillið“ en „feður og synir þar sunnan við“ undir skjólveggnum heima – kerlingarhornin eru víða. Einna sterkast hjómar þetta þema í lok II. hluta þar sem ljóðmælandi er staddur „á miðri musterishæðinni / undir hornsteini heimsins / sem er rammaður inn í marmara og gull“. Þar sem stendur „galopin gröf eða pyttur / þar sem sálir feðranna marsera hring / eftir hring við einn eilífðar sorgarsálm“. Síðan fylgir löng nafnaruna ættfeðra gyðinga og kristinna manna og spámanna kristinna og múslima sem þar standa með „nokkrum nafngreindum englum af karlkyni / ásamt persneskum keisurum rómverskum landstjórum / hellenskum kóngum kalífum krossförum soldánum / og útvöldum nútíma harðstjórum liðnum og lífs“. Þessum hluta lýkur á hendingunum:
enn sofa mennirnirá verðinum í getsemanegarðinumog konurnar sitja uppi með ávöxtinnog ríflega ábót á kaleikinn
Ísland í dag
III. hluti hefst á sterkri ádeilu og aftur erum við komin á heimaslóðir og hér bindur skáldið alla þrjá hlutana og sín helstu þemu listilega saman með vísun til trúarbragða, íslenskrar pólitíkur og loftslagsmálanna. Hér er lýst ‚Íslandi í dag‘ enda kosningar í nánd:
enn sem fyrrer gefið í skyn að okkur sé hollastað meðtaka fagnaðarerindið möglunarlaustog helst lofsyngja frelsiðþar sem krjúpum við gráturnará fjögurra ára frestióbundin og megum velja umað bryðja sólarsellur eða álþynnurnæsta góðæristímabilog skola þeim niðurmeð olíubrák úr ófundnum lindumeða hlandvolgum heimskautasjó
Í þessum hluta er reiðilestur skáldsins áhrifaríkastur og deilt bæði á leiðtoga og lýð; okkur er hollast „að hlusta í andakt / þegar markaðsmarrið í ráðherrakjálkunum / rennur saman við arðbært brakið í bráðnandi ísnum / á norðurslóð og einnig „að hlusta ekki / á hlakkið í hrægammaflokknum / meðan synirnir metta mannfjöldann / með leiðréttingum og mótvægisaðgerðum“. Lýðurinn á að „gegna þeirri borgalegu skyldu / að vera í stuði þegar spurt er“ og
láta sig ekki vantaá leikinn í höllina á völlinní stemminguna í þéttsetna stúkunaekki vanta í pollagallannog lopapeysuna í þjóðsönginná þjóðhátíð með símann í hægrihina í hjartastaðog bjórbrúsann hangandi um hálsinnekki vanta á brennuna í neyðarmóttökuna
Höfundareinkenni og þróun
Frelsi er sjötta ljóðabók Lindu Vilhjálmsdóttur og spannar ferill hennar rúman aldarfjórðung. Fyrstu ljóð sín birti Linda í blöðum og tímaritum á níunda áratugnum en fyrsta bók, Bláþráður kom út árið 1990, síðan komu Klakabörnin 1992, Valsar úr síðustu siglingu 1996, Öll fallegu orðin 2000 og Frostfiðrildin 2006. Þegar bækurnar allar eru lesnar saman koma bæði fram sterk höfundareinkenni sem og athyglisverð þróun. Eftirtektarvert er hversu fjölbreytt yrkisefni Lindu eru og síst af öllu hægt að saka hana um að endurtaka sig. Í Bláþræði og Klakabörnum vöktu athygli meitlaðar náttúrumyndir, myndvísi og húmor og tvennt það síðarnefnda hefur einkennt ljóðagerð hennar æ síðan, ásamt íróníu sem sjaldnast er langt undan en einnig má nefna þunga, blúsaða undiröldu sem víða bregður fyrir. Næstu þrjár ljóðabækur Lindu, sem og sú sem hér er um fjallað, má skilgreina sem ljóðabálka þar sem hver bók um sig myndar heild og öll ljóðin tengjast þeirri ‚frásögn‘ sem bækurnar miðla, hver fyrir sig: Öll fallegu orðin hnitast um ást, missi og sálarstríð og mætti lýsa sem sálumessu yfir elskhuga. Frostfiðrildin lýsa ferð eiginmanns skáldsins yfir jökul og ótta ljóðmælandans sem situr eftir heima og ímyndar sér allt hið versta. Valsar úr síðustu siglingu segja frá ferðalagi ljóðmælanda með skipi frá Íslandi til Frakklands og ljóðin eru spunnin um sjómannslífið og siglinguna. Eins og tíðkast í ferðasögum er lýst bæði ytra og innra ferðlagi; lífinu um borð og lífinu hið innra.
Af þessu má sjá að yrkisefni Lindu er fjölbreytileg og segja má að í hverri bók sýni hún á sér nýja hlið. Með hinum pólitíska þunga sem einkennir Frelsi slær Linda síðan enn nýjan tón og tengir sig við alþjóðlega strauma, eins og til að mynda við hið fræga ljóð Frelsi (Liberté) sem Poul Éluard samdi árið 1942 þegar Frakkland var hernumið að þýskum nasistum. Einnig má minna á ýmsar erlendar frelsishreyfingar í Bandaríkjunum, Indlandi og Suður-Ameríku, svo fáeinar séu nefndar, þar sem orðið ‚frelsi‘ var þrungið merkingu. Ef til vill er Linda Vilhjálmsdóttir að reyna að endurheimta orðið ‚frelsi‘ – að ‚frelsa‘ það undan þeirri merkingarleysu og misnotkun sem hugtakið hefur sætt í vestrænum samfélögum á undanförnum áratugum þar sem jafnvel má segja að endaskipti hafi átt sér stað á merkingu: boðað hefur verið frelsi hins sterka til að kúga hinn veika og raka til sín sem mestu af gæðunum. Þetta mætti einnig orða á þann hátt að nýkapítalísk frjálshyggja hafi réttlætt ranglæti með misnotkun á orðinu ‚frelsi‘.
Í Klakabörnum er að finna ljóðið „Farvel í lokin“ þar sem Linda Vilhjálmsdóttir sendir kveðju til vinar síns og segir meðal annars: „Ég er kvenkynsskáld og næstum því orðin norn“. Við lestur á Frelsi leitar sú hugsun á hvort nornin sú sé vöknuð að fullu í skáldinu því það er eitthvað við ljóðmælanda þessara ljóða sem minnir á norn, eða öllu heldur völvu, sem mælir fram sinn seið. Það er eitthvað við kraftinn og ógnvænlega heimsýn þessa magnaða ljóðabálks sem vekur upp hugrenningartengsl við Völuspá. Munurinn er þó sá að Völuspá býður upp á von í lokin því völvan sér „upp koma / öðru sinni / jörð úr ægi / iðjagræna“. Slík von er ekki til staðar í Frelsi sem endar á þessum hendingum:
og líðum aðgerðarlausum útfjólubláan veraldarvefinní síðupplýstu veldi feðrannameðan mannsbörnin aðlagaststingandi kulda brennandi hitaog stækkandi skömmtumaf loftleysi
Ef skáldskapur á borð við þennan megnar ekki að hreyfa við lesendum sínum, vekja þá og hvetja til aðgerða er líklega fátt til ráða.
Ritdómurinn birtist fyrst í Tímariit Máls og menningar, 3. hefti 2016