SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir29. apríl 2019

ENGIN VENJULEG ÆVISAGA. Engin venjuleg kona

Þórunn Valdimarsdóttir. Engin venjuleg kona. Reykjavík: JPV 2000

 

Engin venjuleg kona hefur undirtitilinn „Um litríkt líf Sigrúnar Jónsdóttur kirkjulistakonu“. Hér er á ferðinni ævisaga sem lögð er Sigrúnu sjálfri í munn, því nokkurs konar sjálfsævisaga, þótt höfundur hennar sé Þórunn [Jarla] Valdimarsdóttir sagnfræðingur og rithöfundur.

Þórunn skrifar stuttan inngang þar sem hún leggur út af listinni að vefa í líkingamáli. Það er mjög viðeigandi þar sem „viðfangsefnið“ – Sigrún Jónsdóttir – er mikill meistari í vefnaðarlist og Þórunn sjálf er meistari textagerðar og þetta tvennt er náskylt eins og uppruni orðsins „texti“ (textere = að vefa) bendir á. Í innganginum lýsir Þórunn aðferð sinni við samningu þessarar bókar. Hún segir:

Ævisaga eins og þessi gengur út á að rekja nokkra þræði í lífsvefnum. Sigrún Jónsdóttir talaði inn á fjórtán segulbandsspólur fyrir mig; auk þess hafði ég áttatíu blaðsíðna texta sem séra Jakob Ágúst Hjálmarsson dómkirkjuprestur skráði eftir Sigrúnu og dálítið efni sem hún skrifaði sjálf. Ég færi í stílinn, túlka og sem útleggingar. Sannleikurinn í þessu er eins og minnið sjálft sem svo auðveldlega glepur en er þó hreint í sjálfu sér (bls. 7.)

 

Aftan við texta Þórunnar er 32 síðna viðauki um listastörf Sigrúnar Jónsdóttur eftir séra Jakob Ágúst Hjálmarsson, ásamt skrám um sýningar hennar, verðlaun sem henni hafa hlotnast fyrir listaverk sín, svo og listi yfir þann kirkjuskrúða sem hún hefur unnið fyrir kirkjur á Íslandi og nokkur verk í erlendum kirkjum. Þar eru einnig birtar litmyndir af kirkjuskrúða sem Sigrún hefur hannað og unnið og útskýrir séra Jakob Ágúst þá táknfræði sem að baki hönnuninni býr. Mikill fengur er að þessum viðauka og sérstaklega áhugavert að sjá með eigin augum þau listaverk sem Sigrún hefur lýst framar í bókinni; hönnun þeirra, svita og tárum sem vinnan við mörg þeirra krafðist. Þá gefa útskýringar séra Jakobs Ágústs mikla innsýn inn í táknmál kristninnar svo og inn í listræna hugsun Sigrúnar.

Það er ekki ofsagt að líf Sigrúnar Jónsdóttur hefur verið litríkt, eins og segir í undirtitli bókarinnar. Hún lýsir ævi sinni allt frá bernskuárunum í Vík í Mýrdal til dagsins í dag, svo að segja, því frásögninni lýkur við þau árþúsundamót sem nýlega eru gengin í garð. Sigrún hefur lifað tímana tvenna og þrenna, hún á að baki þrjú hjónabönd, hefur komið fimm börnum til manns og hefur sinnt listsköpun sinni af ástríðu í áratugi. Listin og ástin eru tveir gildustu þræðirnir í lífssögu Sigrúnar og fyrir hvort tveggja hefur hún fært stórar fórnir. Hún lýsir lífi sínu og lífsskoðun af hreinskilni og lífsviðhorf hennar einkennist af jákvæðri sýn og krafti þótt oft hafi á móti blásið. Sigrún lýsir erfiðum veikindum sem hún hefur sigrast á; hún segir frá umtali og slúðri sem hún hefur orðið fyrir án nokkurrar beiskju og virðist lagið að sjá kómísku hliðarnar á hverju máli.

Þórunn skiptir frásögn Sigrúnar niður í þrjá hluta sem nefnast: Ræturnar, Stofninn og Krónan. Fyrirsagnirnar vísa til trés (lífstrésins) og er það líkingamál skemmtilega útfært í textanum. Eins og við er að búast er texti Þórunnar mjög vandaður, læsilegur og skemmtilegur. Frásögnin er í alla staði lifandi og heldur lesanda allt frá upphafi til enda. Frásögnin öll ber því vitni að söguritari (Þórunn) og sögukona (Sigrún) hafa náð vel saman og líklega hugsa þær á svipuðum nótum um lífið og tilveruna. Þær eru báðar vel læsar á táknmál; jafnt hefðbundið táknmál listarinnar svo og hið einstaklingsbundna táknmál sem tilveran býr yfir fyrir hvern þann sem kann að lesa, tengja saman og túlka viðburði hversdagsins og setja í stærra samhengi. Það er á þessu sviði textans þar sem samvinna söguritara og sögukonu ber frjóastan ávöxt, þótt alla jafna sé erfitt að greina hvar ritari tekur við af sögukonu – og öfugt.

Í lífshlaupi Sigrúnar Jónsdóttur er fólgin mikil saga sem vísar lagt út fyrir hið einstaklingsbundna. Ólíkir heimar bernskunnar og fullorðinsáranna geyma sögu þjóðar sem hefur lifað mikla umbreytingatíma á tuttugustu öldinni. Sagan af tilurð listakonunnar er sérlega áhugaverð með tilliti til sögu íslenskrar kirkjulistar svo og með tilliti til kvennasögu. Og þótt saga Sigrúnar Jónsdóttur sé vissulega saga óvenjulegrar konu sem sker sig úr fjöldanum á margvíslegan hátt, þá er hér líka um að ræða frásögn sem margir ættu að geta tengt við sína eigin reynslu og sótt í kraft og hvatningu. Þær Sigrún Jónsdóttir og Þórunn Valdimarsdóttir geta báðar verið stoltar af þessari skemmtilegu og athyglisverðu bók.

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu, 7. janúar 2001.

 

 

Tengt efni