SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir21. desember 2021

GAMALT OG GOTT FYRIR ALLA FJÖLSKYLDUNNA

Skuggahliðin jólanna. Ritstjórar Eva María Jónsdóttir og Rósa Þorsteinsdóttir. Reykjavík: Bjartur 2019, 52 bls.

Eva María Jónsdóttir og Rósa Þorsteinsdóttir hafa tekið saman skemmtilega bók sem hefur að geyma kvæði og sögur sem varðveitt er í þjóðfræðasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Árnastofnun. Efnið finnst hljóðritað eftir nafngreindu fólki á liðinni öld og er bókin "ætluð foreldrum og börnum að lesa saman sér til skemmtunar og fróðleiks", eins og stendur á baksíðu bókarkápunnar.

Nú kynni einhver að halda að hér væri um 'eldgamalt og úrelt" efni að ræða, en því fer fjarri. Hér má finna kvæði og þulur sem fólk á miðjum aldri kann margt hvert utanað ennþá og sögur sem öll börn ættu að hafa gaman af enn í dag. Við sögu koma tröll og huldufólk, Grýla og jólasveinarnir, börn, jólakötturinn og önnur dýr.

Allt efni bókarinnar tengist jólunum 'í gamla daga' á einn eða annan hátt. Hér birtist önnur mynd af jólunum en nútímabörn þekkja helst; nútímajól sem hafa með tímanum "fengið aukinn andblæ glyss og skrauts, ofgnóttar, gamans og skemmtanahalds", eins og segir í formála bókarinnar. Í formálanum er jólahátíðin einnig sett í annað samhengi en sem hátíð kristinni manna, því ljóst er að hún "hefur alltaf tengst sólhvörfunum, skammdeginu og voninni um hina rísandi sól". Og tímamótum ljóss og myrkurs "færast mörkin milli hins raunverulega og yfirnáttúrlega til eða mást jafnvel alveg út", segir þar og: "Jólin eru þess vegna örlagaþrunginn tími þar sem vættir, sem alla jafna láta menn í friði, fara á stjá". Yfirbragð efnisins er því dulúðugt og töfrum slungið - og öll börn elska slíkt söguefni og að láta hrollinn hríslast niður bakið þar sem þau liggja örugg undir sænginni eða í faðmi foreldra.

Áreiðanlega hafa börnin gaman af öllum skrýtnu nöfnunum á gömlu jólasveinunum og öðrum börnum Grýlu: "Nípa, Típa, Næja, Tæja, Nútur, Fútur, Nafar, Tafar, Láni, Gráni, Leppur, Skreppur, Loki, Poki, Leppatuska, Langleggur og Leiðindaskjóða, Völustallur og Bóla". (Þegar ég lærði þessa nafnaþulu var talað um "Völustakk og Bólu).

Hér er líka að finna hina skemmtilegu Gilsbakkaþulu, sem margir kunna eflaust byrjunina á en varla alla í heild sinni: "Kátt er á jólunum, koma þau senn ..."

Bókina prýða skemmtilegar teikningar eftir Óskar Jónasson og auka þær vafalaust ánægju þeirra sem lesa og skoða bókina saman. Það er óhætt að mæla með þessari bók fyrir allar fjölskyldur að glugga í yfir hátíðirnar.