SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 1. júlí 2021

BARIST VIÐ SÁLARÞJÓF OG SÁLARMORÐINGJA

Þórunn Stefánsdóttir. Konan í köflótta stólnum. Reykjavík: JPV 2001

NÝLEGA var skýrt frá því í fréttum að Íslendingar ættu Norðurlandamet í neyslu á svokölluðum gleðipillum. Þá mun það vera staðreynd að stór hluti landsmanna þjáist af þunglyndi á einhverju skeiði ævinnar, aðrir geðrænir sjúkdómar eru sömuleiðis algengir og tala þeirra sem gera tilraun til sjálfsvígs er há. Eigi að síður veigra menn sér ennþá við að ræða þessi málefni opinberlega og vel mætti í þessu sambandi tala um eitt af síðustu „tabúum“ samtímans. Ýmsir hafa þó reynt að rjúfa þagnarmúrinn á síðastliðnum árum og tekist það með áhrifaríkum hætti. Hér má til dæmis nefna skáldsögu Einars Más Guðmundssonar Engla alheimsins og samnefnda kvikmynd þeirra Friðriks Þórs Friðrikssonar. Þessi tvö listaverk hafa vafalaust stuðlað að auknum skilningi á geðrænum sjúkdómum og opnað umræðuna á jákvæðan hátt.

Konan í köflótta stólnum eftir Þórunni Stefánsdóttur, JPV útgáfa 2001.

Þórunn Stefánsdóttir hefur háð erfiða baráttu við þunglyndi um árabil og í bókinni Konan í köflótta stólnum lýsir hún reynslu sinni af sjúkdómnum og þeirri löngu glímu sem hún háði við hann með dyggri aðstoð sálfræðings og fjölskyldu sinnar. Tilgangur Þórunnar með því að skrifa þessa bók er öðrum þræði að stuðla að opinni og heiðarlegri umræðu um geðræna sjúkdóma og einnig vill hún segja sögu sína til að hvetja þá fjölmörgu sem deila reynslu hennar til að gefast ekki upp í baráttunni fyrir lífinu. Eins og hún bendir á í upphafi frásagnarinnar þá eru félagar í þunglyndis-„klúbbnum“ margir og sjúkdómurinn „er í besta falli sálarþjófur og í versta falli sálarmorðingi. En það eru ýmsar leiðir færar til þess að koma þeim arma þjófi og morðingja undir lás og slá þar sem hann á heima“ (9).

Í bókinni lýsir Þórunn þeirri leið sem hún fór til að takast á við þunglyndið. Leiðin reyndist löng og ströng og Þórunn líkir hægum bata sínum við ferðalag. Titill bókarinnar er dreginn af „farkosti“ ferðalagsins, köflótta stólnum á læknastofu geðlæknisins sem var „fararstjóri“ Þórunnar og eftir eftir langa ferð „sem lá um eigin huga og sál“ tókst henni að komast á leiðarenda. Ferðalagið hóf Þórunn eftir áralanga þjáningu og tilraun til sjálfsvígs og meðferðarformið sem hún gekkst undir var sálgreining hjá geðlækni, en hjá honum þurfti hún að mæta þrisvar sinnum í viku, í 45 mínútur í senn, fyrstu árin. Meðferðin var því bæði tímafrek og dýr (og ekki niðurgreidd af ríkinu líkt og þegar um líkamlega sjúkdóma er að ræða) en Þórunn ákvað að takast ferðina á hendur þótt hún þyrfti að greiða fyrir hana nær öll mánaðarlaun sín.

Sálgreiningaraðferðin sem geðlæknir Þórunnar beitti á rætur að rekja til Freuds. Greining læknisins byggist á frjálsum hugrenningatengslum sjúklingsins, draumum hans og bernskuminningum. Margar lýsingar eru til á þessari aðferð, í ritum Freuds til að mynda, en sjaldséðara er að lesa lýsingu á henni frá sjónarhóli sjúklings, það eitt og sér gefur frásögninni mikið vægi. Lesandi getur líka tekið undir með lækninum þegar hann segir við Þórunni: „Þunglyndi þitt er óvenju myndrænt og fallegt“ því einmitt þannig eru lýsingar hennar á jafnvel svörtustu hliðum sjúkdómsins. Hún kallar þunglyndið „svörtu holuna“ og barátta hennar snýst um að reyna að komast upp úr holunni og að þreyja vistina í henni þegar uppgangan reynist henni um megn. Þá lýsir hún baráttu andstæðra afla í sál sinni sem baráttu viðkvæms fiðrildis og stórrar, eldrauðrar köngulóar sem reynir að veiða fiðrildið í vef sinn.

Frásögn Þórunnar af læknismeðferðinni er mjög einlæg og lesandinn fær á tilfinninguna að fátt sé dregið undan; hún lýsir sigrum jafnt sem ósigrum og á hreinskilinn hátt lýsir hún því hvernig tilfinningar hennar í garð læknisins sveiflast frá trúnaðartrausti og trú á að hann geti hjálpað og til mikillar reiði og fyrirlitningar í hans garð. Ferðin var farin með hléum og takmarkið virtist á stundum óralangt í burtu.

Þá er lýsing Þórunnar á því hvaða áhrif sjúkdómurinn hefur á fjölskyldulífið mjög hreinskilin. Engum dylst hversu erfitt getur verið fyrir aðstandendur þunglyndissjúklinga að halda fjölskyldulífinu í sæmilegu horfi á meðan sjúkdómurinn herjar á og ekki er annað hægt en að dást að því hvernig fjölskylda Þórunnar studdi við bakið á henni í gegnum alla erfiðleikana.

Konan í köflótta stólnum er bók sem á brýnt erindi við lesendur og geta margir mikið af henni lært, bæði þeir sem þekkja sjúkdóminn af eigin raun og ekki síður hinir sem eru svo heppnir að teljast ekki til klúbbfélaga. Lesendum bókarinnar dylst heldur ekki að höfundur hennar er mjög vel ritfær því frásögn Þórunnar er vel upp byggð, lifandi og trúverðug. Lesandinn dregst inn í frásögnina og fylgist spenntur með því hvernig hún nær smám saman tökum á tilverunni og fagnar með henni að leiðarlokum.

Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu, 14. nóv. 2001