GLÖTUÐ TÆKIFÆRI. Huldukonur í íslenskri myndlist
Hrafnhildur Schram. Huldukonur í íslenskri myndlist. Reykjavík: Mál og menning 2005.
Hrafnhildur Schram listfræðingur hefur um margra ára skeið rannsakað hlut kvenna í íslenskri myndlist og afrakstur þeirra rannsókna er meðal annars bók sú sem hér er fjallað um. Um að ræða fallega bók í stóru broti sem er prentuð á þykkan og vandaðan pappír með læsilegu letri og prýdd fjölda ljósmynda. Framan á bókarkápu er mynd af málverki eftir Kristínu Þorvaldsdóttur (1870-1944) sem sýnir virðulega konu af borgarastétt sitja við flygil í vel búinni stássstofu, við vegg sem þakinn er portrettmyndum af körlum. Á bak við hana standa málaratrönur þar sem á hvílir stórt málverk af Beethoven sem virðist beina sjónum sínum strangur á svip að konunni við flygilinn. Málverkið sýnir glöggt hlutverk kvenna af borgarastétt á þeim tíma sem Kristín var uppi; þeirra staður var heimilið sem þeim bar að annast af alúð, skreyta og helst ekki hasla sér völl utan veggja þess. Í táknrænum skilningi var stássstofan fangelsi kvenna af borgarastétt, þar máttu þær stunda hættulausar fagrar listir (svo sem píanóleik) undir ábúðarmiklu augnaráði karlanna. Vafalaust kannast fáir við listakonuna Kristínu Þorvaldsdóttur enda er hún ein af þeim íslensku listakonum sem Hrafnhildur kýs að kalla „huldukonur“ vegna þess hversu ósýnilegar þær hafa verið löndum sínum.
Kristín Þorvaldsdóttir er ein af tíu konum sem fjallað er um í bókinni, um hverja og eina er fjallað í sérstökum kafla sem hefur að geyma æviágrip þeirra, yfirlit yfir listmenntun þeirra og störf – bæði á sviði myndlistar sem og öðrum vettvangi, enda voru það örlög þeirra flestra að leggja myndlistina á hilluna eftir námið því tækifærin voru svo til engin til að sinna listinni nema í hjáverkum og margar hverjar veittu sinni listrænu þörf útrás í formi útsaums og annarra hannyrða.
Hrafnhildur fjallar um konurnar í tímaröð og gefur það ágætt yfirlit yfir þær hægu breytingar sem eiga sér stað á því aldarlanga tímabili sem bókin spannar, frá síðasta þriðjungi nítjándu aldar fram á síðasta þriðjung þeirrar tuttugustu. Breytingarnar endurspeglast ekki síst í myndverkunum sem prentuð eru í bókinni.
Á undan æviágripum huldukvennanna skrifar Hrafnhildur inngangskafla þar sem hún fjallar almennt um myndlistarnám kvenna bæði hér heima og erlendis og ræðir þær takmarkanir sem kynferði þeirra setti þeim og setur í sögulegt samhengi. Hún beinir sérstaklega sjónum að Norðurlöndum enda stunduðu þær fáu íslensku konur sem áttu kost á listnámi námið í Danmörku af skiljanlegum ástæðum. Allar eiga konurnar tíu það sameiginlegt að vera af efnaðri borgarastétt, reyndar eru nokkrar þeirra náskyldar, til að mynda nöfnurnar Þóra Pjetursdóttir Thoroddsen (1847-1917) og Þóra Jónsdóttir Magnússon (1858-1947) sem voru bræðradætur, og sú síðarnefnda og Kristín Vídalín Jacobson (1864-1943) sem voru systradætur.
Mismikið er varðveitt af myndlist huldukvennanna og fæst hefur áður komið fyrir sjónir almennings, enda flest verkanna í eigu fjölskyldna og afkomenda listakvennanna. Eins og Hrafnhildur ræðir í bókinni eru verkin að sjálfsögðu misjöfn að gæðum; mörg bera með sér skort á tækni vegna ónógrar þjálfunar en þó eru fleiri sem vekja aðdáun og eiga athygli skilið. Víst er að margar kvennanna nutu athygli fyrir hæfileika sína meðal samtíðar sinnar, en örlög þeirra allra hafa verið að falla í gleymsku, eins og Hrafnhildur undirstrikar með bókartitli sínum. Saga huldukvennanna er þó ekki bara saga hæfileikaríkra kvenna sem féllu óverðskuldað í gleymsku, hún er öllu heldur saga af hæfileikum sem aldrei fengu að njóta sín til fulls vegna kynferðis listamannanna – saga glataðra tækifæra.
Hrafnhildur Schram á heiður skilinn fyrir að vekja athygli á þessum hópi íslenskra frumherja í myndlist. Rannsókn hennar hefur að öllum líkindum ekki verið auðunninn því heimildir virðast vera af mjög skornum skammti um margar kvennanna. Þetta gerir að verkum að sumir kaflanna virka nokkuð rýrir og stuttaralegir. Ein ástæða þess er að Hrafnhildur kýs greinilega mjög hlutlægan frásagnarmáta og heldur mjög aftur að sér í túlkun á lífsferli einstakra kvenna. Víða glittir þó í meiri sögu en sögð er og að mínu mati hefði Hrafnhildur að ósekju mátt draga meiri ályktanir af þeim upplýsingum sem hún hefur um konurnar. En vera kann að heimildirnar hafi alls ekki boðið upp á dýpri umfjöllun.
Ritdómurinn birtist í Morgunblaðinu 13. desember 2005.
Ps. Ein þeirra kvenna sem fjallað er um í bókinni er Þóra Pjétursdóttir sem fjallað er um í bók Sigrúnar Pálsdóttir, Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar.