SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir30. nóvember 2021

SVERRIR HÓTAR, SVERRIR RÆÐUR OG SVERRIR Á RÉTTINN ... Konan hans Sverris

Valgerður Ólafsdóttir. Konan hans Sverris, Reykjavík: Benedikt 2021, 155 bls. 
 
 
Ofbeldi innan hjónabands hefur lengst af verið eitt best geymda leyndarmál samfélagsins, það þarf mikið hugrekki til að svipta hulunni af slíkum veruleika í lífi sínu, veruleika sem oft á tíðum hefur varað árum og áratugum saman. Umræða um þetta grafalvarlega og hættulega vandamál hefur þó verið að koma upp á yfirborðið undanfarin ár í kjölfar #MeToo umræðunnar, ekki síst á tímum kórónaplágunnar þar sem heft samskipti og útgöngubann í sumum löndum hefur leitt til stigmögnunar og aukins sýnileika slíks ofbeldis.
 
Valgerður Ólafsdóttir tekst á við þetta efni í fyrstu skáldsögu sinni, Konan hans Sverris. Upphaf frásagnarinnar er hnitmiðað og gefur tóninn fyrir það sem á eftir fer:
 
Sautján hringi jarðar kringum sólina varstu maðurinn minn. Þú varst miðpunkturinn sem ég snerist í kringum og lengi vel var ég fátt annað en Hildur hans Sverris. Meira að segja eftir að ég slapp út úr hringiðunni og fór frá þér var ég mánuðum saman enn Hildur hans Sverris. Hildur hans Sverris. Nú er ég bara Hildur Sölvadóttir. Ég er 41 árs – og ég á mig sjálf. (5)
 
 
Lesanda verður strax ljóst að sögukonan hefur umbylt lífi sínu eftir sautján ára kúgun í hjónabandi, eftir þöggun og yfirhylmingu tekur hún sér vald yfir frásögninni, segir sögu sína og upp teiknast kunnuglegt munstur af ofbeldi í hjónabandi, bæði andlegu og líkamlegu. Þá er einnig lýst hvernig sögukona byggir hægt og rólega upp nýja og sterkari sjálfsmynd.
 
Hin tvö andlit Sverris
Hildur lýsir eiginmanni sínum sem manni með tvö ólík andlit: „Annað andlitið er Sverrir, hitt kalla ég Næsgæ“ (19). Það eru ekki margir sem þekkja báðar hliðar mannsins, aðeins þeir nánustu, eiginkonan, synirnir og móðir hans. Þessu tvíeðli er lýst bæði í ljóði:
 
Hann er ekki hann
heldur þeir.
Hann er bláeygur, brosmildur,
grímuklæddur, góðlegur
og vinalegur voffi. Hann er úlfur.
Hann er grímulaus,
ýlfrandi, svarteygur,
urrandi, geltandi, gólandi, úlfur og hvutti.
Hann er þeir tveir (24)
 
og lausu máli:
 
Sverri er sama þótt hann særi þau sem standa honum næst en grímulaust andlit hans fá aðeins útvaldir að sjá. Sverrir hunsar, þegir og lítur undan. Hann reiðist þegar hann fær gjafir sem falla ekki að hans smekk og hermir hæðnislega eftir svipbrigðum sinna nánustu þegar þeir fara í taugarnar á honum. Hann rýkur á dyr, grípur um úlnlið eða ýtir í öxl eða bringu til að stöðva umræðu um það sem hann vill ekki ræða. Sverrir hótar. Sverrir ræður og Sverrir á réttinn. Í hans heimi eiga aðrir að víkja. Næsgæ er hins vegar ljúfur. Hann er vingjarnlegur, hjálpsamur og brosmildur. Hann er opineygur og lyftir glaðlega brúnum, hann er glettinn og hlýr. Næsgæ tekur myndir og heldur myndasýningar úr fjölskyldualbúminu fyrir gesti. Hann grípur gítarinn eða harmónikkuna og spilar undir söng. Rödd hans er björt og mjúk, fasið hikandi og jafnvel feimnislegt. Hann smellir í góm milli orða þegar hann talar og hlær léttum óöryggishlátri. Næsgæ er viðkvæm týpa, hjálpsamur frændi og góður vinur. (20)
 
Hildur varð ástfangin af Næsgæ en situr uppi með Sverri, grímulausan. Þótt henni verði fljótt ljóst að ekki er allt í lagi í hjónabandinu er hún flækt í samband sem lengi vel virðist ómögulegt að losna úr, þótt hún stígi nokkur spor í þá átt áður en henni tekst að losna að fullu.
 
Áfall og gaslýsing
Spurningin sem vaknar yfirleitt þegar flett er ofan af áralöngu heimilisofbeldi er hvers vegna þolandinn hefur látið slíkt yfir sig ganga. Svarið við þeirri spurningu er ekki einfalt og Valgerði tekst ágætlega að koma til skila hversu vandasamt málið er, hvernig samspil flókinna tilfinninga, ástar, haturs og ótta, spinnur vef sem getur virst ógjörningur að losa sig úr þótt vanlíðanin og örvæntingin sé algjör.
 
Skýringa má leita bæði hjá geranda og þolanda. Í tilviki Hildar er skýringarinnar meðal annars leitað í áfall í æsku; að það eigi sinn hlut í hræðslu hennar við að taka af skarið og fara frá Sverri. Faðir Hildar framdi sjálfsmorð þegar hún var sjö ára og áfallið situr í henni því sjálfsmorðið kom í kjölfar þess að móðir hennar yfirgaf heimilið með barnið þegar faðirinn var fullur: „Þú veist að þetta gengur ekki, við förum þegar þú ert svona“ (9). Þetta áfall stjórnar Hildi að miklu leyti í hjónabandinu, þegar Sverrir fær ekki vilja sínum framfylgt kemur hótunin: „Ég er farinn út aftur, ég fer út á bryggju, fer út að sigla. Ég er bara farinn. Kannski hendi ég mér í sjóinn. Ég ætti að drepa mig!“ (16). Og Hildur bognar undan hótuninni:
 
Nei ekki gera það, hvísla ég, hjartað aftur komið á fullt. Hjartað í mér slær og slær og gamalkunnur kökkurinn, sem minnir mig á það þegar við mamma fórum frá pabba, þrýstir á barkann. Ekki fara frá mér. Fyrirgefðu, fyrirgefðu, alls ekki fara í bátinn, ekki fara út á bryggju! Það er hættulegt að vera fullur á bryggjunni. Leggstu hérna hjá mér … (16-17)
 
Sverrir aftur á móti notar alþekkta tækni til að brjóta Hildi niður og ná undirtökunum, því sem í dag er kallað gaslýsing (e. gaslighting). Um er að ræða háttalag „þar sem þolandi er ruglaður í ríminu með blekkingum, hunsunum, útúrsnúningum, lygum eða öðrum hætti þannig að hún fer að efast um eigin upplifun á veruleikanum“, svo vísað sé í grein Eyju Margrétar Brynjarsdóttur heimspekings í greinasafninu Fléttur IV: #MeToo („Bakslags-viðbrögð við #MeToo“, bls. 236).
 
Sverrir hamrar á því við eiginkonu sína að hún sé ómöguleg, leiðinleg, þunglynd og allt slæmt í hjónabandinu sé hennar sök:
 
„Aumingja þú, svo mikið fórnarlamb. Föst í baksýnisspeglinum. Ég er ekki í þínum skuggadal. Þú ert bara þunglynd. Það er eitthvað að þér“ (5-6). „Þú ert svo geðveik, segir þú. Þú ert svo klikkuð.“ (23) „Ég er farinn út. Það er ekki hægt að vera hérna. Þú ert svo ógeðslega leiðinleg. Svo ógeðslega, ömurlega leiðinleg.“ (24)
 
Myndin af Sverri er óhugnanleg en að öllum líkindum sálfræðilega raunsæ mynd af ofbeldismanni af þessu tagi. Hann er fullkomlega eigingjarn, frekur, dónalegur og hættulegur og framkoma hans gagnvart móður sinni endurspeglar mynstrið í hjónabandinu. Hann stjórnar á ógnandi hátt, setur eigin þarfir alltaf í fyrsta sæti og hefur enga samlíðan með öðrum.
 
Sálfræðilegar skýringar
Hildur er lengi vel tilbúin til að taka á sig sök og kemur með skýringar eftir að hún hefur loksins slitið sig lausa:
 
Ég sé eftir á að það er engu líkara en mér hafi alltaf fundist ég þurfa að borga með mér. Ég var á nálum yfir að vera í skuld. Það var betra að ég eldaði oftar, ynni meira, bæðist frekar afsökunar og hefði minna frelsi en þú. Þá var ég í það minnsta ekki í skuld. Ég skil ekki hvaðan þessi hugmynd mín kom né úr hverju hún er sprottin. Líklega var ég svona áður en við kynntumst. Líklega kynntist þú frá upphafi afsakandi og sakbitinni manneskju. (42-43)
 
Þótt Hildur segist þarna ekki skilja hvaðan þessi hugmynd hennar um skuldina er sprottin kemur þó skýringin strax í kjölfarið:
 
Mig grunar að ég hafi verið sakbitin alveg frá því að pabbi dó. Þegar ég var barn leið mér oft eins og ég hefði stýrt því að hann dó og ég var viss um að ég gæti, með hegðun minni, haft áhrif á það hvort mamma lifði áfram eða dæi. Ég vandi mig því á ýmsa siði: Vera góð. Vera tillitssöm. Ekki heimtufrek. Segja satt [...]. (43)
 
Slíkar sálfræðilegar útskýringar fleyga stöðugt frásögn Hildar af hjónabandi þeirra Sverris. Þær eru vafalaust í stórum dráttum réttar og eðlilegar enda höfundur bókarinnar sálfræðimenntuð og kann sitt fag. En það er líka í þessu atriði sem helsti veikleiki bókarinnar felst. Lesandi getur fengið á tilfinninguna að honum sé ekki treyst til að draga sínar eigin ályktanir og að lítið sé skilið eftir fyrir hann að pæla í.
 
Konan hans Sverris er engu að síður mjög áhugaverð bók sem segir sögu sem margir geta líklega, því miður, speglað sig í. Verkið er vel skrifað og gefur fyrirheit um að Valgerður Ólafsdóttir eigi meira inni á sviði skáldskaparins.