SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir13. nóvember 2021

FRJÁLS MANNESKJA. Hylurinn

Gróa Finnsdóttir. Hylurinn. Reykjavík: Sæmundur 2021, 343 bls.

 
Hylurinn er fyrsta skáldsaga Gróu Finnsdóttur. Þetta er dramatísk saga sem gerist í Borgarnesi þar sem Gróa sjálf býr. Hún er komin á eftirlaun, orðin frjáls manneskja og getur einbeitt sér að ritstörfum:
 
„Það er svona þegar maður er full­frískur sjö­tugur, alveg fullur af orku eins og ung­lingur… þá verður maður að hafa eitt­hvað að gera,“ segir hún glöð í bragði. „Þá er þetta til­valið. Að gerast rit­höfundur nú þegar maður er orðinn þroskaður og gáfaður og laus við alls konar próblematík. Ég fer bara að verða frjáls manneskja og hlakka bara til“ sagði Gróa í viðtali í Vísi sl. sumar.
 
Hylurinn er 343 blaðsíður og í upphafi hvers kafla er valin setning sem leiðir lesandann áfram, það er fallegt og vel til fundið. Snorri er sögumaður, skyggn og sérvitur nuddari sem misst hefur konu sína og dóttur. Hann byrjar nýtt líf á notalegri nuddstofu í Borgarnesi, stundar hugleiðslugöngur og hlustar á klassíska tónlist til þess að halda áfram að lifa. Vinir hans, hinn síungi Stefán og Kolfinna sem ber harm sinn í hljóði, eru litríkar og þroskaðar persónur og saman vinna þau úr sorgum og áföllum lífsins. Úr grárri fortíð birtist saga Sólrúnar og litla bróður hennar sem alast upp við drykkju, ofbeldi og misnotkun. Leiðir þeirra og Snorra liggja síðan saman og örlög ráðast.
 
Stíll Gróu er andríkur, ber vott um sterka málkennd og orðaforðinn er fjölbreyttur. Hún lýsir á trúverðugan hátt heimi lítillar stúlku sem býr við hryllilegar aðstæður, snyrtilegum heimi ráðsettra karla sem pæla mikið í tilverunni, dulrænum upplifunum, sveit og borg, gömlu glæpamáli; þessa þræði hefur hún alla í hendi sér.
 
Í lokin verður sögumaður háfleygur og ljóst að baki orðum hans býr lífsreynsla og innsæi og knýjandi boðskapur:
 
Ég geng upp á eina borgina sem liggur eins og sterkur vöðvi í stoðkerfi landsins innan um mýrarflákana þar sem allt iðar af því lífi sem viðheldur súrefni jarðarinnar og lífkeðju hennar. Það er góðviðri og ég leggst niður í gróna og kjarrivaxna brekkuna og verð eitt með jörðinni, verð hluti af þeirri heild sem allir tilheyra. … Ég finn hversu ofurtakmörkuð hún er, þessi daglega skynjun okkar mannanna, hve vanþróað mannkynið er sem kann ekki að nýta sér til fulls þau skilningarvit sem því var gefið, sem fæstir kunna að virkja til stórbrotinna verka. Mest er þó vanhæfni okkar tl að sjá að við erum órjúfanlegur hluti af stórri heild. Af einhverju stóru sem flestir skynjuðu ef þeir legðu sig fram, lærðu að kyrra hugann og hlusta á þann þyt aldanna sem ber með sér órofafregnir og visku þeirra sem gengnir eru (340).
Það er aldrei of seint að gera það sem hugurinn stendur til. Aðspurð segist nýi rithöfundurinn Gróa þegar vera farin að skrifa næstu bók.

 

Tengt efni