SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir10. september 2022

NÚTÍMAKONUR Í SÍGILDU HLUTVERKI. Eftirvænting

Árið 2021 sömdu þær Ragnheiður Harpa Leifsdóttir og Þóra Hjörleifsdóttir ljóðabálkinn Eftirvænting fyrir sýninguna Afsakið mig sem sett var upp af leikhópnum AFSAKIÐ í Ásmundarsal. Umrædd sýning var samfélags- og upplifunarsýning þar sem gestum var boðið inn á heimili konunnar. Allir heimar konunnar og veruleikar voru teknir fyrir með áherslu á móðurhlutverkið, hvort sem þú ert móðir eða ekki, vilt verða móðir eða ekki, getur orðið móðir eða ekki - eins og sagði í kynningu.
 
Ljóðabálkurinn var settur upp í setustofu konunnar, bæði sem vídeóverk og á prenti. Nú eru ljóðin komin út á bók, eða í litlu kveri sem telur sextán síður, og ástæða til að vekja athygli á verkinu.
 
 
Bálkurinn skiptist niður í þrjá hluta og hefst á þessum orðum:
 
         Eftir að hafa leikið sjálfa mig
svo lengi að mín eigin rödd varð
ókunnug
 
fór að molna undan fjallinu
 
ég var þrjátíu og sjö ára gömul
þegar ég lagði örþreytta
örvinglaða gervið niður
 
Þetta gefur tóninn fyrir framhaldið, hér er ort í orðastað móður og eiginkonu sem hefur lagt sig í líma við að standa sig í þessum hlutverkum, á kostnað eigin sjálfsmyndar. Hún hefur fengið nóg, vill senda gamla gervið „á safn um flótta manneskjunnar“ og staða hennar kemur skýrt fram í eftirfarandi línum:
 
         Ef ég fyndi töfralampa í uppþvottavélinni
þyrfti ég ekki þrjár óskir
ein væri nóg
ég vildi bara fá að sofa á nóttunni
 
án þess að börnin mín gráti
snýti sér í koddann
togi af mér sængina
sparki í síðuna
mígi í rúmið mitt
eða sitt
 
Ég myndi spara hinar tvær óskirnar
þangað til ég gæti hugsað heila hugsun aftur
 
Hér er sem sagt ort um hið ævagamla hlutverk konunnar – móðurinnar – og hvernig ábyrgðin virðist ætíð lenda á henni þrátt fyrir áralanga kvennabaráttu og strögl. Þessu hlutskipti er þó lýst í bland með húmor að leiðarljósi:
 
         Þvottavélin hefur verið í gangi
síðastliðinn áratug
með síblettótt föt
í eilífri hringrás óhreininda
 
Konan reynir að halda aftur að sínum „innri píslarvætti“ og „fela fyrir heiminum hvað [hún] er þreytt“. Hún hlakkar til að „losna úr róluvallavarðhaldinu“ og geta drukkið kaffið sitt „innan um fullorðið fólk“.
 
Í öðrum hluta er kastljósinu beint að húsi konunnar en þar er „ýmisleg sem þarf að laga“ þótt hún hafi séð til þess að það sé „óaðfinnanlegt“ utan frá séð. Húsið má þannig allt eins túlka sem speglun á sjálfsmynd konunnar sem „étur sig að innan“ enda kemur líkami hennar einnig við sögu, hann er ekki „minnisvarði um mikla sigra / hann er notaður skinnpoki / sem þarf að fela / eða laga“.
 
Virginia Woolf hæddist að því snemma á tuttugustu öld að konum hafi ekki verið kennt neitt nema að skenkja karlmönnum te og flögra í kringum þá. Nútímakonurnar Ragnheiður Harpa og Þóra yrkja:
 
         Ég hef ekkert verkvit
 
Samt er ég laghent
gæti gert allt mögulegt
mér hefur bara aldrei verið kennt
neitt
nema flögra
í kring um mennina
og gefa þeim kaffi
 
Hefur kvennabaráttan ekki skilað neinu? Eru karlmenn ekki að taka þátt í umönnun barna sinna? Síðasta ljóðinu í þessum hluta virðist beint að föðurnum:
 
         Auðvitað átt þú að hugsa um börnin þín
þar til þú verður líka að vita í lífi þeirra
 
það gerist ekkert af sjálfu sér
ég geri þá kröfu
að þú mætir
hlustir
lærir að meta
tímann og orkuna
sem ég eys
gengdarlaust
í fjölskylduna okkar
 
Eftir rausæisstíl fyrstu tveggja hluta ljóðabálksins breytist stíllinn og verður bæði ljóðrænni og draumkenndari um leið og hann er áskorun, líklega til karlmanna, um að skilja að „öðruvísi er ekki verra“ – sem jafnframt eru lokaorð bálksins. Í þessum hluta er kvenleikinn vegsamaður og skorað á karlmenn/feður að sjá að konur/mæður eru ekki „hysterískar“ þótt þær neiti að spila eftir leikreglum þeirra. Þeir þurfa að sjá að legið er „náttúruafl / uppspretta innsæis, drauma og djúprar visku“.
 
Titill bókarinnar – Eftirvænting – virðist helst vísa til þess að ljóðveran lætur sig hlakka til nýrra möguleika í framtíðinni. Meðal annars lætur hún sig „hlakka til breytingarskeiðsins / að vera laus undan kröfum og hormónum“ og til þess þegar „þú sérð mig / og kannt að meta styrkinn minn“ og „þegar við náum saman / þannig að bæði blómstri“.
 
Ragnheiður Harpa og Þóra tilheyra báðar skáldkvennahópnum Svikaskáld og eru því vanar samvinnu í skáldskap. Margt er hér vel ort og áhugavert. En það verður að segjast að það er fremur niðurdrepandi fyrir konu sem komin er fram yfir miðjan aldur að uppgötva að enn virðist svona langt í land í kvennabaráttunni; að veruleiki miklu yngri kvenna sé ennþá sá sami...