SVO MAMMA GÆTI HORFT UPP Í HIMININN Í SÍÐASTA SINN. Dauðinn í veiðarfæraskúrnum
Elísabet Kristín Jökulsdóttir. Dauðinn í veiðarfæraskúrnum. Reykjavík: JPV 2018, 42 bls.
Nú á aðventunni sendi Elísabet Jökulsdóttir frá sér ljóðabókina Dauðinn í veiðarfæraskúrnum: Frúin á neðri hæðinni leysir frá skjóðunni. Elísabetu þarf vart að kynna. Hún hefur sent frá sér fjölda verka allt frá árinu 1989 og hefur hún tvisvar hlotið Fjöruverðlaunin; árið 2008 fyrir Heilræði lásasmiðsins, í flokki fræðirita, og árið 2015 fyrir ljóðabókina Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við Ufsaklett en sú bók var einnig tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Elísabet hefur oft gefið út bækur sínar út sjálf og selt í Melabúðinni og Eymundsson. Hún hefur ennfremur myndskreytt sumar bækur sínar og að þessu sinni sér hún um teikningar ásamt Daða Guðbjörnssyni sem einnig sér um mynd á kápu. Ljóðabókin Dauðinn í veiðarfæraskúrnum er tileinkuð Jóni Óskari sem sá um hönnun hennar, líkt og oft áður.
Bókin er kveðja Elísabetar til móður sinnar og fjallar sömuleiðis um hinstu kveðju móðurinnar, Jóhönnu Kristjónsdóttur, en hún lést í maí síðastliðnum. Jóhanna var blaðamaður og rithöfundur og lést hún 77 ára að aldri eftir langvarandi veikindi á heimili sínu að Drafnarstíg þar sem hún hafði búið í hálfa öld. Á dánarbeðinu lá Jóhanna í þeim hluta hússins sem eitt sinn var veiðarfæraskúr og er þaðan dregið nafn bókar.
Elísabet dvelur nokkuð við síðustu stund móður sinnar, hádegið fimmtudaginn 11. maí þegar hún skildi við. Þeim lýsingum samfara fær lesandinn að kynnast Jóhönnu betur í endurliti, áður en silkimjúkt hárið gránaði og hún flakkaði um allan heim, og ennfremur fær hann nokkra innsýn í samskipti þeirra mæðgna.
Ljóðmælandinn er oftast í fyrstu persónu en á það einnig til að bregða sér í þriðju persónu. Fyrstu persónu frásögnin er afar einlæg frásögn, nálæg og ágeng en þriðja persónan fjarlægari. Þá er hún „dóttirin“ sem stendur álengdar og fylgist með atburðarásinni úr hæfilegri fjarlægð til að verja sig sorginni. Ljóðin eru númeruð frá 1-26 og bera flest undirtitla sem vísa einkum í dagana frá 8.-11. maí. Þar sem ljóðabálkinum sleppir fær frúin á neðri hæðinni orðið en hún er tilbúin persóna Jóhönnu sem kom mjög við sögu á Facebook-síðu hennar. Þetta er nokkurs konar eftirmáli sem ber titilinn „frúin á neðri hæðinni leysir frá skjóðunni“ sem er einnig undirtitill bókar.
Líkt og jafnan er stíll Elísabetar frumlegur, berorður og einlægur. Hvergi örlar á væmni eða tilgerð í textanum en samt nær söknuðurinn, sárindin og væntumþykjan að skína vel í gegn. Málfarið er hversdagslegt, jafnvel talmálslegt en alltaf skáldlegt; auðskiljanlegt en um leið frjótt af líkingamáli sem varpar gjarnan nýju ljósi á viðfangsefnið:
5.
8. maí mánudagur
Þarna situr mamma í gula sófanum
sem hún hefur átt í hundrað ár
og teygir fram hálsinn
og spennir greipar
og ég hugsa hvað er hún að gera
hvernig getur hún teygt hálsinn svona?
Já, hún er svanur ...Í sloppnum?
Er hún að fela eitthvað ...
Eða taka á sig fjaðraham?
Þetta er undirbúningur.Hún veit að hún er að deyja
og ég veit það
en það er eitthvað sem verndar okkur fyrir því
kannski vonin
eða lífið
að maður heldur áfram að lifa meðan
andinn
býr
Í brjóstinu.Það hefur hún kennt mér ...
einu sinni sagðist ég vilja deyja og þá sagði hún:
Allar manneskjur langar einhvern tíma til að deyja
eins og það væri ekkert merkilegt, það var aðalsmerki
mömmu
að gera hlutina þannig að þeir væru ekkert merkilegir
þeir væru bara svona
og þá var hægt að segja já já svoleiðis er nú það
og líta til himins,
ýta við steinvölu með hendur í vösum, yppta öxlum
bjóða góðan daginn.(Bls. 11-12)
Í ljóðinu er dregin upp mynd af móður sem heyrir til þeirrar kynslóðar sem lét sér fátt fyrir brjósti brenna og bar sjaldan tilfinningar sínar á torg. Það má víðar sjá merki þess í ljóðunum; líkt og þegar ljóðmælandi þakkar henni fyrir að hafa fengið að taka þátt í lífi hennar: „Mömmu bregður einhvern veginn, það er eins og það hrökkvi biti upp úr hálsinum á henni,...“ (bls. 20). Móðir sýnir af sér hegðun sem er býsna ólík ljóðmælandans sem hefur ríka þörf fyrir að fá útrás tilfinninga. Þar steytir á: „...það var veggur og hver byggði hann? Hverjir byggðu Kínamúrinn, Berlínarmúrinn, Grátmúrinn, það minnir mig á það, hún Jóhanna hafði beðið fyrir dóttur sinni við Grátmúrinn.“ (bls. 22) Þessi áhrifamikla líking geymir sterkar tilfinningar og sömuleiðis er hún tilfinningaþrungin lýsingin af því þegar móðurinni var „hent út af spítalanum“, engar húsvitjanir í boði og heimilislæknirinn í fríi. „Þann sama dag dó mamma.“ (bls. 14) Þegar ætla megi að sársaukinn verði of mikill bregður ljóðmælandi sér í þriðju persónu, líkt og þegar móðirin skilur við:
2.
Hún dó í hádeginu.
Hádeginu?
Dóttir hennar sagði kvöldinu áður:
Ég kem í hádeginu.
En þá sagði hún:
Ekki í hádeginu.
Svo dó hún í hádeginu.
Hádeginu.
Dóttir hennar kom korter yfir eitt.
Og var hún þá farin?
Já, þá var hún farin, hafði verið að kveðja.
Heit í hnakkanum, köld á höndunum.
Útlimirnir kólna víst fyrst.
Blessunin.Blessunin, hún Jóhanna.
Sólin í hádegisstað og fullt tungl
Lokadagur vertíðar.
Það ver eins og einhver hafi skrifað þetta.(Bls. 8)
Það gætir einnig sársauka í lýsingunni á því þegar dóttirin er svipt sjálfræði og móðir hennar setur hana inn á Klepp. Í þeirri frásögn bregður ljóðmælandi sér aftur í þriðju persónu. Þessi atburður kemur þó einnig mjög við móðurina sem verður gráhærð þá nótt (bls. 27.) Dóttirin veltir því einnig fyrir sér, og nú í fyrstu persónu, hvort móðir hennar hefði dáið til að hún gæti „strokið henni um hárið, enni og vangann og tjáð henni ást.“ Þegar hún var fjögurra ára að dáðst að móður sinni lokaði hún hurðinni en „nú er eins og hún hafi opnað hana aftur“ (bls. 33).
Virðing og væntumþykja í garð móður eru ekki síður áberandi þemu í ljóðunum. Ástúðin kemur svo vel fram í minningunni um þær mæðgur á tröppunum að borða snúða (bls. 13). Aðdáun dótturinnar á móðurinni er einnig berleg þegar hún lýsir henni sem veraldarvanri konu sem hefur óhrædd „boðið flestu byrginn“ (bls. 21).
Þessi mikla togstreita ólíkra tilfinninga endurspeglast vel í ljóði nr. 20 sem ber undirtitilinn „Hin spurningin“ en það hljóðar svo: „Voruð þið nánar? / Ef frá er talin / aðgát / við að fara yfir sprengjusvæði / þá gekk ekki / hnífurinn á milli okkar“ (bls. 36).
Undir lok bókar er að finna stuttan prósa sem, líkt og áður segir, ber yfirskriftina „frúin á neðri hæðinni leysir frá skjóðunni.“ Hann byggist á tilbúinni persónu Jóhönnu sem hún glæddi lífi á Facebook-síðu sinni. Frúin þessi tekur þó ekki fyrir að vera jafnvel bæði skálduð og raunveruleg: „Það er ekki glæpur að vera eins og maður er, allar konur eru sakaðar um þennan glæp, að vera þær sjálfar“ (bls. 47). Þessi lokahnykkur er dálítið óvæntur endir á ljóðabálkinum en ætla má að hann fái annað og meira vægi hjá þeim lesendum sem þekkja til frúarinnar.
Í stað þess að enda á „endinum“ er vert að ljúka þessari stuttu umfjöllun um þessa áhrifamiklu og einlægu ljóðabók á einu af áhrifamestu ljóðum hennar sem berar svo vel eftirsjána sem jafnan fylgir sorginni og söknuðinum:
23.
Það er eitt sem ég er þakklát fyrir
ég sé ekki eftir neinu
nema einu
og það er að hafa ekki beðið líkmennina þegar þeir
komu
og pökkuðu henni inn
huldu andlit hennar
með plastpoka
þegar þeir báru hana út úr húsinu og í bílinn sinn
en þá hefði ég átt að biðja þá um að stansa á
veröndinni
taka af plastpokann
svo mamma gæti horft upp í himininn í síðasta sinn.Stjörnurnar að kvikna, klukkan um níu
á vorkvöldi
yfir þessari konu á veröndinni
sem fékk sér að reykja
sat á tröppunum og kíkti upp í himinninn
hennar helgistund
stjörnurnar tindrandi af ást.(Bls. 40)
Dauðinn í veiðarfæraskúrnum er um margt lík verðlaunabók Elísabetar, Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við Ufsaklett. Í báðum bókum er tekist á við mjög erfitt og viðkvæmt viðfangsefni. Það er ekki á allra færi en Elísabetu tekst mjög vel upp og það kæmi ekki á óvart ef þessi nýjasta afurð hennar yrði einnig verðlaunabók.