Kvennaskrif í tímaritum
Nýverið komu út hausthefti Skírnis og fjórða hefti Tímarits Máls og menningar - en þetta eru elstu bókmenntatímaritin sem gefin eru út á Íslandi. Mikið af efni beggja tímarita að þessu sinni varða bókmenntir kvenna og er skrifað af konum.
Forsíðu haustheftis Skírnis prýðir verk eftir Olgu Bergmann, Staðgöngustell, sem er hluti af verkinu Staðganga, sem aftur er hluti af seríunni Hvarfpunktur. Verkið sýnir dýrslegt fóstur málað á postulíns-disk. Sigrún Alba Sigurðardóttir fjallar á fróðlegan hátt um verk Olgu í heftinu.
Mikill fengur er að glænýjum ljóða-þýðingum eftir nýja Nóbelshafann, Louise Glück, en í heftinu birtast tvö ljóða hennar, annað í þýðingu Ægis Þórs Jähnke og hitt í þýðingu Guðrúnar Hannesdóttur. Þá eru einnig birt þrjú ljóð eftir Sigrúnu Björnsdóttur, en hún hefur nýverið sent frá sér ljóðabókina Loftskeyti, sem er með áhugaverðustu ljóðabókum ársins.
Soffía Auður Birgisdóttir þýðir grein norsk-bandaríska rithöfundarins Siri Hustvedt, "Engin samkeppni" og skrifar inngang að þýðingunni sem nefnist "Kynjamismunur í heimi bókmenntanna". Í greininni rýnir Hustvedt í kynjaðan heim bókmennta út frá ýmsum sjónarhornum. Þá kann að vekja áhuga margra að hún greinir sjálfsævisögubálkinn Min kamp eftir Karl Ove Knaugård á mjög beittan og femínískan hátt.
Úlfhildur Dagsdóttir skrifar grein um nýjustu bók Þóru Jónsdóttur, Sólardansinn (2019), og einnig eru nokkrar örsögur úr bókinni birtar í heftinu.
Sigrún Margrét Guðmundsdóttir skrifar greinina "Þar sem verra er betra. Raunveruleikaþáttur í hryllingsleikhúsinu Yosoy", þar sem hún færir rök fyrir því að í skáldsögunni Yosoy eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur "séu spunnir saman ólíkir þræðir sem skírskota til þeirrar gegndarlausu gróðahugsunar sem leiddi til efnahagshrunsins 2008", svo vísað sé í inngang ritstjóranna.
Sigurlín Bjarney Gísladóttir skrifar áhugaverða grein um ritið Gandreið sem ritað var af séra Jóni Daðasyni árið 1660. Hún spyr úr hvaða jarðvegi ritið spretti og hvaða augum fræðimenn hafa litið það. Fullur titill bókarinnar er: Gandreið. Glumrur, dunur og dvergmál himinlegra hvítu rúna um undrande kin og krapta í yfivættes fyllingu edlis naatturunnar, sem reynslann og listenn gefur að rannsaka elementlegum vafurloga vindi, sjioo, og sande innskrifaðnde. Novum meteoron candidæ magiæ - og hananú!
Síðast en ekki síst skrifar Berglind María Tómasdóttir greinina "Að hlusta er að semja, að semja er að hlusta. Hugleiðing um Hildi Guðnadóttur". Hildur hefur unnið hug og hjarta íslensku þjóðarinnar á undanförnum misserum - um leið og hún hefur sópað að sér öllum helstu verðlaunum sem tónlistarmönnum í hennar grein eru veitt.
Það má ljóst vera að áhugamenn um kvennabókmenntir og konur í listum mega ekki láta þetta hefti Skírnis fram hjá sér fara. Ritstjórar Skírnis eru Ásta Kristín Benediktsdóttir og Haukur Ingvarsson.
Í 4. hefti Tímariti máls og menningar birtist viðtalið Vorstund með Halldóru Thoroddsen, en Halldóra varð bráðkvödd í sumar. Þar ræðir hún við Leif Reynisson um uppvöxt sinn í Reykjavík.
Berglind Rós Magnúsdóttir skrifar um tilfinningar í nafni Hins íslenzka ástar-rannsóknarfélags, en Berglind Rós flutti skemmilega pistla á rás eitt í haust um ástarrannsóknir.
Í TMM er einnig mögnuð og hrollvekjandi grein eftir Dagnýju Kristjansdóttur, "Sögur af börnum", þar sem hún rýnir í fimm nýlegar bækur um ofbeldi gegn ungum stúlkum út frá nýjustu kenningum um uppgjör við slík áföll.
Anna Gyða Sigurgísladóttir fjallar um Koddabók japönsku skáldkonunnar Sei Shonagon í grein sem nefnist "Þúsund ára gamalt sýndarsjálf". Hún telur að bókin eigi sitthvað sameiginlegt med tístum og ímyndarsköpun á samfélagsmiðlum samtímans.
Þá birtir TMM skáldskap eftir Dagnýju Þorsteinsdóttur, Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur og Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur.
Sem sagt, þetta síðasta hefti ársins af TMM er, líkt og Skírnir, stútfullt af efni um konur og eftir konur. Ritstjórar TMM eru Sigþrúður Gunnarsdóttir og Elín Edda Pálsdóttir.