SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Anna Ólafsdóttir Björnsson

Anna Ólafsdóttir Björnsson er fædd í Reykjavík 4. júní 1952.

Hún tók stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1972; stundaði nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1972-1974 og lauk BA-prófi í almennri bókmenntasögu og sagnfræði frá Háskóla Íslands 1978. Hún bætti við sig Cand. mag. prófi í sagnfræði frá sama skóla 1985 og M.Sc. prófi í tölvunarfræði 2008. Hún stundaði nám við háskólann í Lancaster á Englandi á vormisseri 2006. Meðfram öðru námi og vinnu hefur hún sótt sér frekari menntun í myndlist, einkum í Myndlistaskólanum í Reykjavík.

Anna vann við þáttagerð í útvarpi og blaðamennsku á árunum 1978-1989; sat á þingi fyrir Kvennalistann 1989-1995 og stundaði sagnfræðirannsóknir og -skrif samfellt frá 1995-2001. Hún starfaði við hugbúnaðargerð á árunum 2001-2018.

Anna hafði fengið smásögur birtar í tímaritum undir dulnefni áður en hún las fyrstu skáldsögu sína, Tvískinnung, í útvarp 1980. Á árunum 1986-1989 og 1995-1998 skrifaði hún allmargar bækur og bókakafla um sagnfræðileg efni. Einnig ritaði hún endurminningaþætti um þekkta einstaklinga og skrifaði eina ævisögu í fullri lengd, sem kom út árið 2009.

Samhliða störfum við hugbúnaðargerð skrifaði Anna sögu tölvuvæðingar á Íslandi á árunum 2015-2018 og sá um útgáfu á áður óbirtu handriti sínu af sögu Sandgerðis 2018.

Fyrsta glæpasaga Önnu kom síðan út í ársbyrjun 2021.

Auk þessa hefur Anna skrifað bókakafla, blaðagreinar og séð um útvarpsþætti um margvísleg málefni svo sem bókmenntir, sagnfræði, kvenfrelsismál og upplýsingatækni.


Ritaskrá

  • 2022  Óvissa
  • 2021  Mannavillt
  • 2018  Tölvuvæðing í hálfa öld
  • 2018  Saga Sandgerðis
  • 2009  Elfa Gísla og hinar sögurnar
  • 1998  Álftanes, nesið okkar. Kennsluefni
  • 1998  Saga Húsmæðrakennaraskóla Íslands
  • 1996  Álftaness saga
  • 1987  Myndlistaskólinn í Reykjavík 1947-1987
  • 1980  Tvískinningur. Útvarpssaga