
Guðrún Auðunsdóttir
Guðrún Auðunsdóttir er fædd 23. september 1903 í Dalsseli undir Eyjafjöllum og ólst þar upp í stórum systkinahópi. Sem ung stúlka dvaldist hún um skeið á heimili í Reykjavík, en eftir það var hún ýmist í Reykjavík eða hjá foreldrum sínum sem hún aðstoðaði við bústörfin. Árið 1939 giftist hún Ólafi Sveinssyni. Bjuggu þau í Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum til ársins 1984, en fluttust þá að Kirkjuhvoli í Hvolhreppi. Þau eignuðust eina dóttur. Guðrún lést á Selfossi 26. október 1994.
Guðrún var gædd ríkri skáldgáfu og byrjaði ung að yrkja. Hún orti ljóð, þulur og stökur, en birti lítið og kom seint fram. Þulurnar Í föðurgarði fyrrum komu út árið 1956, en ljóðasafn hennar, Við fjöllin blá, var ekki gefið út fyrr en árið 1982, þegar Guðrún var komin fast að áttræðu. Um útgáfuna sáu nágrannar hennar Jón R. Hjálmarsson og Þórður Tómasson í Skógum og áttu þeir einnig frumkvæði að því að ljóðin voru gefin út.
Textinn er tekinn orðréttur frá Helgu Kress:
- Helga Kress. 2001. „Guðrún Auðunsdóttir (1903-1994)“, bls. 280. Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
Hér má lesa ummæli samferðamanna um Guðrúnu (minningargreinar). Þar segir Þórður Tómasson safnvörður m..a.:
„Ég sé Guðrúnu enn fyrir mér á verðlaunapalli á landnámshátíð Rangæinga 1974 við Merkjá í Fljótshlíð, tígulega sýnum, klædda hátíðabúningi. Þar tók hún við viðurkenningu fyrir hátíðarljóð helgað landnámi Rangárþings. Hún var mér þar líkt og tákn þeirra kvenna sem um aldir hafa glætt og haldið í loga ást á ljóðlist og menningu og gefið æsku landsins í arf. Best greinargerð um skáldskap Guðrúnar Auðunsdóttur er ritgerð þjóðskáldsins sr. Sigurðar Einarssonar í Holti í tímaritinu „Heima er bezt" 1963, endurprentuð í Ijóðabók hennar 1982.“
Ritaskrá
- 1982 Við fjöllin blá
- 1956 Þulurnar Í föðurgarði fyrrum