SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Anna Ingólfsdóttir

Anna Ingólfsdóttir fæddist 30. október árið 1961 og ólst upp í Garðabæ.

Foreldrar hennar eru Erla María Sveinbjörnsdóttir skrifstofumaður og Ingólfur Jónsson rennismiður. Anna giftist Árna Margeirssyni (1957-1997) árið 1984. Þau fluttust til Egilsstaða og ráku þar lengi vel auglýsingastofuna og skiltagerðina Nítíuogsjö ehf. Anna og Árni eignuðust þrjár dætur. Árni féll frá aðeins 39 ára að aldri og þremur árum síðar flutti Anna með dætrum sínum aftur til Garðabæjar.

Anna er með jógakennararéttindi frá Kripalu Center í Bandaríkjunum og hefur hún kennt jóga síðan 1998. Hún á einnig BA nám að baki í bókmenntafræði og ritlist frá Vermont College í Bandaríkjunum og hefur hún fengist nokkuð við skriftir.

Anna sendi frá sér barnabækurnar Mallhvíturnar, sem Sólveig Stefánsdóttir myndskreytti, árið 2009 og Þyngdaraflið, með myndum Elísabetar Brynhildardóttiu, árið 2010.

Árið 2012 birtist smásaga eftir Önnu í Rithring.is: smásögur 2012 og sama ár birti hún frásögn sína af makamissi, sem hún varð fyrir aðeins 35 ára gömul, í bókinni Makalaust líf: um ást og sorg, úrvinnslu og uppbyggingu við makamissi. Í bókinni birtist einnig reynsla Guðfinnu Eydal af makamissi og sömuleiðis viðtöl séra Jónu Hrannar Bolladóttur við fjóra einstaklinga sem misstu maka sinn. Í kjölfarið kom út ensk þýðing á Amazon og um þessar mundir er verið að endurgera bókina með annarri nálgun á viðfangsefnið.

 


Ritaskrá

  • 2012  Makalaust líf: um ást og sorg, úrvinnslu og uppbyggingu við makamissi (ásamt Guðfinnu Eydal og Jónu Hrönn Bolladóttur)
  • 2010  Þyngdaraflið
  • 2009  Mjallhvíturnar