SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Árnadóttir frá Oddsstöðum

Guðrún Árnadóttir er fædd 15. október árið 1900 að Oddsstöðum í Lundarreykjadal og ólst þar upp til ellefu ára aldurs, en þá lést faðir hennar. Eftir það bjó hún með móður sinni á ýmsum stöðum í Borgarfirði.

Guðrún naut ekki skólamenntunar utan barnafæðslu, en var fróðleiksfús og lærði ung að leika á hljóðfæri. Árið 1917 fluttist hún til Reykjavíkur með móður sinni og vann þar sem verkakona en var í síld á sumrin.

Árið 1922 giftist Guðrún Bjarna Tómassyni sjómanni og bjuggu þau í Reykjavík. Þau eignuðust ekki börn en tóku kjörson. Hann fórst í bílslysi rúmlega tvítugur að aldri árið 1949.

Guðrún hafði áhuga á þjóðmálum, var róttæk í skoðunum og starfaði m.a. í Alþýðuflokknum. Hún hafði yndi af alþýðukveðskap og var í stjórn Kvæðamannafélagsins Iðunnar.

Eina ljóðabók Guðrúnar er Gengin spor sem kom út árið 1949 og hún tileinkar minningu sonar síns. Áður höfðu birst nokkur ljóð eftir hana í Borgfirskum ljóðum og einnig í blöðum.

Guðrún lést í Reykjavík 14. apríl 1968.

Heimild:

Helga Kress. 2001. „Guðrún Árnadóttir frá Oddsstöðum (1900-1968)“, bls. 270. Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur.  Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.


Ritaskrá

  • 1949  Gengin spor