SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Ásmundsdóttir

Guðrún Gerður Ásmundsdóttir, leikari, leikstjóri og leikritahöfundur, er landsmönnum að góðu kunn fyrir áratuga starf í þágu leiklistar. Guðrún var árið 2009 heiðruð sérstaklega af félögum sínum í Leikfélagi Reykjavíkur og þá gerð að heiðursfélaga og er hún eina konan fyrir utan Vigdísi Finnbogadóttur sem þann heiður hefur hlotið. Guðrún hlaut einnig heiðursverðlaun Grímunnar 2018, sjá viðtal við hana. Guðrún var einmitt einn helsti baráttumaðurinn fyrir byggingu Borgarleikhússins á sínum tíma.

Ferill Guðrúnar á leiksviðinu spannar 65 ár. Hún var ein af fyrstu konunum til að gegna hlutverki leikstjóra á Íslandi.

Foreldrar Guðrúnar voru Ásmundur Gestsson, d. 1954, skólastjóri í Lýðskólanum á Bergstaðastræti í Reykjavík, og Sigurlaug Pálsdóttir d. 2.9. 1939, húsfreyja.

„Guðrún fæddist á Laugavegi 2 í Reykjavík 19. nóvember 1935 og var þriggja ára þegar móðir hennar dó. Systkinin Guðrún og Páll, sem þá var nýorðinn sex ára, fengu ‘frjálst uppeldi’ hjá föður sínum. Páll fékk að breyta eldhúsinu í efnafræðirannsóknarstofu og Guðrún breytti stofunni í leikhús. Þar kom hún fram með blóm í hárinu og flutti ljóðið Helga Jarlsdóttir eftir Davíð Stefánsson. Leikkonan unga vílaði heldur ekki fyrir sér að fara út á Laugaveg og sækja áhorfendur sem fengu ókeypis ljóðaupplestur. ‘Þetta var upphafið að leiklistarferlinum,’ segir hún.

Enda var Guðrún enn kornung, þegar hún fór í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og lauk síðar leikaraprófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins og fór þaðan í The Central School of Speech Training and Dramatic Art í London.

Guðrún hefur verið leikstjóri og höfundur margra leikverka. Meðal þeirra eru Kaj Munk, sem var leikið í Hallgrímskirkju, í Vartov-kirkju í Kaupmannahöfn og í Veddersö þar sem Kaj Munk var prestur í 20 ár, en fyrir verkið var hún sæmd Kaj Munk-verðlaununum. Guðrún hefur auk þess samið, uppfært og sýnt víða um land dagskrárnar Fjársjóð minninganna, Og þá kom stríðið og Jól í Kallafjöllum. Hún hélt upp á 50 ára leikafmæli sitt með hinum vel heppnaða einleik Ævintýri í Iðnó, 2005, en þar sá Ragnar, sonur hennar, um leikmyndina og Sigrún Edda, dóttir hennar, var leikstjóri“ (Þórdís Bachmann 2015: Kvennablaðið). Ragnar Kjartansson myndlistarmaður er sonur hennar.

Guðrún hefur skrifað barnabók og nokkur leikrit en þau handrit eru líklega hvergi til á skrá. Inga Huld Hákonardóttir ritað ævisögu Guðrúnar, Ég og lífið (1989). Guðrún  er sagnakona og hefur víða haldið erindi, verið fjallkona og tekið saman menningardagskrá um efni sem er henni hugleikið. Hún hefur viðað að sér ótal frásögnum af konum sem hafa líknað og hjálpað kynsystrum sínum í barnsburði við fábrotnar aðstæður  Frásagnir sínar setur Guðrún inn í sögusvið 18. aldar á tímum Bjarna Pálssonar fyrsta landlæknis Íslendinga.

Hér má sjá Guðrúnu segja sögur á Listasafni Reykjavíkur, 2013. Guðrún er trúkona mikil og lýsti því m.a. í viðtali frá 2014.

Mynd: kvikmyndavefurinn.is


Ritaskrá

  • 2014 Skáldið og biskupsdóttirin (ópera)
  • 2003 Ólafía. Um Ólafíu Jóhannsdóttur
  • 2000 Lóma, mér er alveg sama þó einhver sé að hlæja að mér
  • 1997 Heilagir syndarar (eikrit)
  • 1991 Leikritið um Kaj Munk
  • án ártals. Upp með teppið Sólmundur (leikrit um sögu LR)
  • án ártals.  Mér er alveg sama þó að einhver sé að hlæja að mér (leikrit upp úr Lómu)
  • án ártals. Reykjavík og gömlu revíurnar: úr spönskum nóttum 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 2018 Heiðursverðlaun Grímunnar
  • 2009 Heiðursfélagi í Leikfélagi Reykjavíkur