SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún H. Finnsdóttir

Guðrún Helga Finnsdóttir fæddist 6. febrúar 1884 á Geirólfsstöðum í Skriðdal. Þar ólst hún upp við góðan kost til rúmlega sextán ára aldurs, en hélt þá til náms við Kvennaskólann á Akureyri. Þar kynntist hún Gísla Jónssyni, prentara, skáldi og ritstjóra, frá Háreksstöðum í Jökuldalsheiði og giftist honum árið 1902. Nokkrum mánuðum síðar fór hann vestur um haf í atvinnuleit og hún á eftir honum í júnímánuði 1904. Þau settust að í Winnipeg og áttu þar heima síðan og héldu stórt heimili sem var afar gestkvæmt. Þau eignuðust fimm börn og urðu bæði að leggja hart að sér til að halda risnu sinni. Af börnum þeirra komust fjögur til fullorðins ára, þrjár dætur og einn sonur, sem öll ílentust vestra, giftust inn í amerískar fjölskyldur og tóku upp þarlend ættarnöfn. Guðrún tók virkan þátt í félagslífi Vestur-Íslendinga, hélt fyrirlestra á mannamótum, sinnti safnaðarstarfi Únítarakirkjunnar, skrifaði greinar sem birtust í þarlendum blöðum, sat í stjórn og var heiðursfélagi a.m.k. þriggja félagasamtaka. Auk alls þessa samdi hún ríflega 30 smásögur. 

Árið 1938 kom út í Reykjavík smásagnasafn Guðrúnar H. Finnsdóttur, Hillingalönd, og er það eina bókin sem hún sá eftir sig í lifanda lífi. Í þessu safni eru fjórtán sögur sem flestar höfðu áður birst í Tímariti Þjóðræknisfélagsins eða Heimskringlu. Var sögum hennar vel tekið og þóttu vel skrifaðar á gullaldarmáli. Að Guðrúnu látinni gaf eiginmaður hennar, Gísli Jónssson, út smásagnasafnið Dagshríðar spor sem kom út á Akureyri 1946, með tólf sögum, og fjórum árum seinna minningarritið Ferðalok sem kom út í Winnipeg. Í þeirri bók eru nokkrir fyrirlestrar og ræður Guðrúnar, m.a. erindi um E. Pauline Johnson, merka skáldkonu af Indjánaættum, og Clöru Barton sem var frumkvöðull að stofnun Rauða krossins. 

Fyrsta saga Guðrúnar sem birtist á prenti var „Landsskuld“, í öðrum árgangi Tímarits þjóðræknisfélagsins 1920. Fyrstu sögur sínar brenndi Guðrún áður en hún hélt vestur um haf en hélt áfram að skrifa þar meðfram öðrum störfum, fyrst í kyrrþey. Um hana segir í minningargrein eftir Einar P. Jónsson: „Það væri synd að segja, að Guðrún hafi unnið að ritstörfum á kostnað hússtjórnar eða heimilishalds, því hún var með ágætum röggsöm húsmóðir og heimilið svo fágað og prýtt, að hvergi bar skugga á“ (Ferðalok, bls 169). 

Í grein dr. Stefáns Einarssonar, „Vestur-íslensk skáldkona“, sem birtist í Ferðalokum kemur fram að Guðrún skildi m.a. eftir sig „nokkur drög að leik um Ragnheiði Brynjólfsdóttur, skrifuð í andmælaskyni við Skálholt Kambans“ (Ferðalok, 146). Dr. Helga Kress hefur fjallað um skáldskap Guðrúnar í grein sem hún nefnir „Utangarðs. Um samband landslags, skáldskapar og þjóðernis í sögum Guðrúnar H. Finnsdóttur“ og segir þar m.a.: „Þessi drög sem Guðrún skrifaði „í andmælaskyni“ við kvenlýsingu karlrithöfundar, og enn eru reyndar ókönnuð, eru mjög í samræmi við sögur hennar sem flestar fjalla um konur frá þeirra eigin sjónarhorni, gerast í hugsunum þeirra og endurminningum. Oft eru konur sögumenn sem í minningum sínum segja frá minningum sem aðrar konur hafa sagt þeim. Minningarnar varða ýmist bernsku þeirra á Íslandi eða fyrstu landnámsárin í Vesturheimi. Þannig skráir Guðrún, ekki aðeins „sögu innflytjandans frá hans eigin sjónarmiði“, eins og Stefán Einarsson orðar það (...) heldur fyrst og fremst sögu konunnar og upplifun hennar sem innflytjanda“.

Fleira en leikritsdrögin liggur í handriti ókannað og óprentað af verkum Guðrúnar. Hún varð bráðkvödd í Winnipeg 25. mars 1946 og er þar grafin.

Heimildir:

 

Mynd af Guðrúnu er úr Dagshríðar sporum, „Guðrún, innan við þrítugt“


Ritaskrá

  • 1950 Ferðalok
  • 1946 Dagshríðar spor
  • 1938 Hillingalönd