SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún A. Jónsdóttir

Guðrún A. Jónsdóttir fæddist 10. október 1908 að Ásbjarnarstöðum í Stafholtstungum, dóttir Jóns Halldórssonar, bónda og síðar úrsmiðs í Borgarnesi, og Halldóru Ólafsdóttur. Í Morgunblaðinu, 15. nóvember 1964, segir að Guðrún geti rakið ætt sína í beinan legg til Skalla-Gríms. Vorið 1914 flutti hún ásamt foreldrum sínum í Borgarnes og bjó þar síðan. 

Guðrún var ein af sex systkinum. Ekki gekk hún menntaveginn, þótt nægur vilji væri fyrir hendi, heldur vann ýmis störf í héruðum landsins. Hún sendi frá sér tvær skáldsögur og var sú seinni, Taminn til kosta, allvinsæl (sjá lýsingu á efni hennar). Þess vegna dróst nafn Guðrúnar inn í „kerlingabókadeiluna“, sjá grein Helgu Kress í TMM 1978. Ólafur Jónsson, bókmenntagagnrýnandi, fjallaði um bókina í grein sem hann nefndi Kvennamál og sagði m.a.: „Það er erfitt að skilja að nokkur skuli í alvöru hafa ánægju af rómantísku vansmíði á borð við Taminn til kosta. Eru ekki þvílíkir lesendur orðnir nokkuð úreltir?“ Guðrún sendi ekki frá sér fleiri bækur.

Eftirfarandi er haft eftir Guðrúnu í Alþýðublaðinu, 24. desember 1964:

Auðsætt er að aukin ritstörf kvenna eru vegna bættrar aðstöðu þeirra, aukinna tómstunda og meira frjálsræðis. Ég skrifa fyrst og fremst mér til ánægju og myndi ég mjög gjarnan vilja að bækur mína yrðu öðrum til ánægju og skemmtunar. Nei, ritstörf mín hafa engin áhrif á heimilisstörfin, ég tek ekki til þeirra tíma sem ég þarf að nota til heimilisstarfa

Guðrún lést í Borgarnesi, 1988.


Ritaskrá

  • 1964 Taminn til kosta
  • 1955 Helga Hákonardóttir