Guðrún Rannveig Stefánsdóttir
Guðrún Rannveig Stefánsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1977. Hún er menntaður framhaldsskólakennari og starfar sem kennari við Verzlunarskólann þar sem hún kennir dönsku, ritlist og lífsleikni. Guðrún Rannveig er með BA í dönsku, MA í hagnýtri menningarmiðlun og MA í ritlist frá Háskóla Íslands.
Guðrún Rannveig hefur alltaf verið eitthvað að skrifa og sem barn dreymdi hana um að verða rithöfundur. Sögur kvenna frá gömlum tíma hafa alltaf heillað hana mikið og það á stóran þátt í ákvörðun hennar að skrifa um vökukonuna. Vökukonan í Hólavallagarði er hennar fyrsta bók en hún kom út hjá Sölku í liðinni viku, seinni part júnímánaðar.
Vökukonan í Hólavallagarði geymir ljóð um vökukonu garðsins, Guðrúnu Oddsdóttur sem lést árið 1838 og var grafin fyrst allra í garðinum. Hlutverk hennar hefur verið að taka á móti öllum þeim sálum sem þangað hafa komið á eftir henni (og hlutverki hennar er ekki lokið ennþá). Ljóðabálkurinn er þrískiptur. Sá fyrsti heitir Vökuljóð þar sem Guðrún lýsir upphafi vökunnar, miðjukaflinn heitir Lífið í garðinum en þar koma fram raddir annarra kvenna sem hvíla í garðinum og að lokum er kafli sem heitir Guðrún og næturvaktin þar sem Guðrún talar áfram um næturvaktina endalausu. Í bókinni má einnig finna sögulegan formála um Hólavallagarð og eftirmála um ævi Guðrúnar Oddsdóttur. Bæði formálann og eftirmálann skrifar Sólveig Ólafsdóttir sagnfræðingur.
Hér eru margir grænir litir
Ritaskrá
- 2019 Vökukonan í Hólavallagarði